1 Þá sá ég að ofan við hvelfinguna yfir höfðum kerúbanna var eitthvað sem leit út eins og safír og líktist hásæti. 2 Hann sagði við línklædda manninn: „Farðu inn á milli hjólanna sem eru undir kerúbunum og fylltu báðar hendur af kolaglóð sem er á milli kerúbanna og dreifðu henni yfir borgina.“ Þá fór hann inn að mér ásjáandi. 3 Kerúbarnir stóðu að sunnanverðu við húsið þegar maðurinn fór inn og ský fyllti innri forgarðinn. 4 Þá hófst dýrð Drottins upp frá kerúbunum og færði sig yfir á þröskuld hússins. Skýið fyllti húsið og ljómi frá dýrð Drottins fyllti forgarðinn. 5 Þyturinn frá vængjum kerúbanna heyrðist út í ytri forgarðinn. Hann líktist rödd Guðs almáttugs þegar hann talar. 6 Hann skipaði línklædda manninum: „Sæktu eld inn á milli hjólanna, inn á milli kerúbanna.“ Síðan fór hann inn og tók sér stöðu við eitt hjólið. 7 Þá rétti einn af kerúbunum hönd sína að eldinum sem var á milli kerúbanna, tók nokkuð af honum og fékk línklædda manninum sem tók við honum og gekk út.
Dýrð Drottins
8 Undir vængjum kerúbanna sást eitthvað sem líktist mannshendi. 9 Ég horfði á og sá fjögur hjól við hlið kerúbanna, eitt hjól við hlið hvers kerúbs. Hjólin voru á að líta eins og ljómandi krýsolítsteinn. 10 Öll hjólin litu eins út og virtust þau vera hvert innan í öðru. 11 Þegar þau hreyfðust gátu þau snúist í allar fjórar áttir og breyttu ekki um stefnu þegar þau hreyfðust. Þar sem þau hreyfðust í sömu átt og fremsta hjólið stefndi í breyttu þau ekki um stefnu á ferð sinni. 12 Allur líkami þeirra, bak, hendur, vængir og öll fjögur hjólin voru alsett augum allt um kring. 13 Hjólin voru nefnd Galgal[ í mín eyru. 14 Hver vera hafði fjögur andlit. Fyrsta andlitið var kerúbsandlit, annað mannsandlit, þriðja ljónsandlit og fjórða arnarandlit. 15 Og kerúbarnir hófu sig upp. Það voru sömu verur og ég hafði séð við Kebarfljót. 16 Þegar kerúbarnir gengu snerust hjólin við hlið þeirra og þegar kerúbarnir lyftu vængjum sínum til að hefja sig upp frá jörðinni sneru hjólin ekki burt frá hlið þeirra. 17 Þegar þeir námu staðar staðnæmdust hjólin einnig og þegar kerúbarnir hófu sig upp hófust hjólin með þeim því að andi veranna var í þeim.
Drottinn yfirgefur musterið
18 Þá yfirgaf dýrð Drottins þröskuld hússins og nam staðar yfir kerúbunum. 19 Kerúbarnir lyftu þá vængjum sínum og hófu sig upp frá jörðinni fyrir augum mínum. Þegar þeir fóru voru hjólin við hlið þeirra. Þeir námu staðar við innganginn í austurhlið húss Drottins og dýrð Guðs Ísraels var yfir þeim. 20 Það voru sömu verurnar og ég hafði séð undir Guði Ísraels við Kebarfljót og ég gerði mér grein fyrir að þetta voru kerúbar. 21 Þeir höfðu fjögur andlit og fjóra vængi hver og undir vængjum sínum eitthvað sem líktist mannshöndum. 22 Andlitin voru eins á að líta og andlitin sem ég sá við Kebarfljót. Allir gengu þeir beint af augum.