III.

Hvar af þér heilagir bræður, hverjir hluttakarar eruð þeirrar himneskrar kallanar, gefið gætur að þeim sendiboða og biskupi þann vér viðurkennum, Jesúm Christum, sá trúr er þeim hver hann hefur fyrir settan (líka sem Moysen) í öllu sínu húsi. En þessi er meiri dýrðar verður en Moyses af því að sá hefur meiri heiðran af húsinu sem það smíðaði en húsið sjálft. Því að sérhvert hús verður af einhverjum smíðað en sá alla hluti smíðar það er Guð. Moyses var að sönnu trúr í öllu hans húsi so sem þjónustumaður til vitnisburðar þess sem sagt skal verða en Kristur so sem son yfir sínu húsi, hvers hús að eru vér ef vér annars átrúnaðinum og hrósan vonarinnar allt til enda fastlega höldum.

Hvar fyrir, so sem segir heilagur andi: [ „Í dag, ef það verður að þér heyrið hans rödd, þá forherðið ei yðar hjörtu so sem í beiskuninni skeði á freistingardegi í eyðimörku hvar að freistuðu mín yðrir feður. Þeir reyndu og sáu mín verk í fjörutigir ára. Fyrir það varð eg reiður þessari kynslóð og sagði: Jafnlega eru þeir villir í hjarta og eigi þekktu þeir mína vegu. Hverjum eg einnin sór í minni reiði að eigi skyldu þeir koma til minnar hvíldar.“ Sjáið til, kærir bræður, það eigi nokkur meðal yðar hafi vont vantrúað hjarta það frágangandi er Guði lifanda heldur áminnið yður sjálfa alla daga so lengi sem það í dag kallast að þar enginn meðal yðar forherðist af svikræði syndarinnar.

Því vér erum Christi hluttakarar vorðnir ef vér annars uppbyrjaðri trú allt til enda fastlega höldum. So lengi sem sagt verður: „Í dag, ef það verður að þér heyrið hans rödd, þá forherðið ekki yðar hjörtu so sem í þeirri beiskuninni skeði.“ Því að sumir sem hana heyrðu forbeiskuðust. Þó eigi allir þeir eð útgengu af Egyptalandi fyrir Moysen. En hverjum reiddist hann í fjörutígir ára? Er eigi so: Þeim sem syndguðust, hverra hræ að niður hrundu í eyðimörku. En hverjum sór hann það þeir skyldu eigi koma til hans hvíldar nema þeim sem vantrúaðir voru? Og vér sjáum það þeir hafa ekki kunnað inn að koma vantrúarinnar vegna.