XXXVI.

Elíhú talaði enn framar meir: [ „Bíð þú mín enn litla stund, eg vil kunngjöra þér það því að eg hefi enn nokkuð að segja af Guðs álfu. Eg vil sækja mína skilningsvisku álengdar og bevísa minn skapara að hann sé réttvís. Mín orðræða skal án efa falslaus vera og mín skilningsviska skal lastalaus vera fyrir þér.

Sjá þú, Guð hann forleggur ekki hina voldugu því að hann er sjálfur voldugur út af hjartans krafti. Hann frelsar ekki hinn óguðlega frá réttferðugum og hann lætur konungana sitja alla ævi á sínum tignarstólum svo þeir verða voldugir. Og hvar að fangarnir liggja í fjötrunum og eru sárlega reyrðir með reipum þá kunngjörir hann hvað þeir hafa aðhafst og þeirra ódyggð, það þeir hafa yfirgangsamir verið. Og hann opnar þeim eyrað til ráðningar og segir þeim að þeir skuli í burt snúa sér frá ranglætinu. Ef þeir hlýða því og þjóna honum þá munu þeir gamlir verða við góðan aldur og lifa með gleði. En ef þeir hlýða ekki þá munu þeir falla í sverðseggjar og forganga fyrr en þá varir þess.

Nær eð reiðin hittir hræsnarann þá kalla þeir ekki nær þeir liggja í fjötrunum. Þá mun þeirra sála í kvalræðunum deyja og þeirra líf á meðal hórunarmanna. Hann mun frelsa þá hina fátæku út af þeirra eymdar vesöld og opna eyrun hins volaða í hörmunginni. Hann mun í burt rykkja þér úr þeim víðu kverkunum kvalanna sem öngvan grunn hafa og þitt matborð mun hafa hvíld og hlaðið vera með alls kyns gæði. En þú fegrar málefnið hins óguðlega svo þeirra réttarfar helst við magt. Hygg þú að, hvert hafi eigi mátt svo ske að reiðin hafi komið þér til að niðurþrykkja nokkrum eða það miklar fégjafir hafa ekki beygt þig. Þenkir þú að hann skeytir þinni magt eður gulli eður nokkurs konar styrkleik eður hreysti? Þú þarft ekki að girnast næturinnar til að yfirvinna lýðinn í þeirra híbýlum. vara þú sjálfan þig og snú þér ekki til ranglætisins svo sem þú uppbyrjaðir fyrir þinnar vesaldar sakir.

Sjá þú, Guð er mjög ofurhár í sínum krafti, hvar er einn þvílíkur kennimaður slíkur sem hann er? Hver vill rannsaka hans veg yfir honum og hver vill svo segja til hans: Þú gjörir rangt? Hugleiddu það þú veist ekki hans verk svo sem menn syngja. Því að allir menn sjá það og hver maður sér það álengdar. Sjá, Guð er mikill og ókenndur, hans áratölu kann enginn að rannsaka. Hann gjörir vatnið að litlum daggardropum og hneppir sín ský saman til regns so að skýin fljóta og döggva ofan yfir mennina. Þegar hann vill útbreiða sín ský svo sem hátt tjald sitt. Sjá þú, svo útbreiðir hann sitt ljós yfir þá hinu sömu og hylur allar hafsins endimerkur. Því að þar með hræðir hann mennina og hann gefur þó nóglega fæðslu. Hann byrgir ljósið svo sem í höndum sér og skipar því þó aftur að koma. Um það sama ber vitni hans samfélagi sem er reiðin þeirrar þrumunnar í skýjunum.