III. Bók kónganna

I.

Og sem Davíð kóngur gjörðist nú gamall og mjög hniginn á efra aldur sótti so kuldi hörund hans að af klæðayl mátti hann ekki vermast þótt hann væri fötum þakinn. Þá sögðu hans þénarar til hans: „Látið leita að stúlku nokkri sem að er jungfrú að hún standi fyrir kónginum og þjóni honum og sofi í hans faðmi og vermi minn herra kónginn.“ Og þeir leituðu á meðal allra kynkvísla Ísrael eftir fríðri ungri meyju og fundu Abísag af Súnem og leiddu hana fyrir kónginn. [ Og hún var mjög væn jómfrú og hún vermdi kónginn og þjónaði honum. En kóngurinn kenndi hana ekki.

En Adónía son Hagít setti sig upp og sagði: „Ég vil vera kóngur.“ [ Og hann lét tilreiða sér vana og tók sér riddara og fimmtígi menn til fylgdar. En hans faðir vildi ekki straffa hann í sinni tíð so að hann segði: „Því gjörir þú so?“ Hann var og svo mjög fríður maður og Davíð hafði getið hann næst Absalom. Þessir voru í ráðagjörð með honum: [ Jóab son Serúja og Abjatar kennimaður, þeir hjálpuðu Adónía. En Sadók kennimaður og Benaja son Jójada og Natan spámaður og Símeí og Reí og Davíðs kappar allir voru ekki í samþykki með Adónía. Og þá Adónía offraði nautum og sauðum og feitu fé hjá Sóheletsteini hver að liggur hjá þeim brunni Rógel þá bauð hann öllum sínum bræðrum, kóngsins sonum, og öllum mönnum í Júda, kóngsins þénurum, þar til. En Natan og Benaja og kóngsins köppum og Salamone, sínum bróður, bauð hann ekki.

Þá sagði Natan til Betsabe Salamóns móður: „Hefur þú ekki heyrt hvað fram fer að Adónía, sonur Hagít, er orðinn kóngur en vorr herra Davíð veit þar ekki af? Svo far nú, eg vil gefa þér heilræði so að þú frelsir þína sál og so Salomonis sál, þíns sonar. Þar fyrir gakk inn fyrir kónginn Davíð og seg þú til hans: [ Minn herra kóngur, hefur þú ekki lofað og svarið þinni þjónustukvinnu og sagt: Þinn son Salómon skal vera kóngur eftir mig og hann skal sitja í mínu hásæti? Því er þá Adónías orðinn kóngur? Sjá, á meðan þú ert enn þar og talar við kónginn þá vil eg koma þangað eftir þér og styðja þitt mál.“

Og Betsabe fór og gekk inn fyrir kónginn í hans herbergi. Og kóngurinn var nú mjög gamall en Abísag af Súnem var og þjónaði honum. Sem Bersabe kom inn hneigði hún sig og laut kónginum. Kóngurinn sagði til hennar: „Hvað er þér?“ En hún sagði til hans: „Minn herra, þú hefur heitið þinni þjónustukvinnu við Drottin, þinn Guð, og so sagt: Þinn son Salómon skal vera kóngur eftir mig og sitja í mínu hásæti. En sjá nú, Adónías er orðinn kóngur en þú, minn herra kóngur, veist þar ekki par af. Hann hefur offrað uxum og fjölda sauða og alifé og bauð þar til öllum kóngsins sonum, svo og Abjatar kennimanni og Jóab hershöfðingja þínum. En ekki hefur hann boðið þínum þénara Salamon. En þú, minn herra kóngur, ert sá hvers atkvæða allur Ísrael bíður að þú undirvísir þeim hver þar skuli setjast í míns herra kóngsins sæti eftir hann. Og þá minn herra kóngur er sofnaður með sínum feðrum þá munu við son minn Salómon sek haldin.“

Á meðan hún var enn nú að tala við kónginn þá kom Natan spámaður. [ Og þeir sögðu kónginum: „Sjá, Natan spámaður er kominn.“ Og sem hann kom inn fyrir kónginn þá féll hann fram allur til jarðar og sagði: „Minn herra kóngur, hefur þú so sagt: Adónía skal vera kóngur eftir mig og sitja í mínu sæti? Því hann hefur farið í dag og offrað uxum og alifé og fjölda sauða og hann bauð öllum kóngsins sonum og höfuðsmönnum, þar með Abjatar kennimanni. Og sjá, þeir sitja nú, eta og drekka með honum og segja: Lukku fái Adónías kóngur! En eigi bauð hann mér, þínum þénara og eigi Sadók kennimanni eða Benaja syni Jójada og ekki þínum þénara Salomone. Er það svo bífalað af mínum herra kónginum og þú lést þinn þénara það ekki vita hver eð sitja skal yfir hásætisstóli míns herra kóngsins eftir hann?“

Davíð kóngur svaraði og sagði: „Kallið Betsabe hingað.“ Og hún kom inn fyrir kónginn. Og sem hún stóð fyrir kónginum þá svór kóngurinn og sagði: [ „So sannlega sem Drottinn lifir sá sem mína önd hefur frelsað úr öllum nauðum: Eg vil gjöra það þennan dag sem eg hefi svarið þér við Drottin Guð Ísraels og sagt að Salamon þinn son skal vera kóngur eftir mig og hann skal sitja í mínu hásætisstóli fyrir mér.“ Þá hneigði hún sína ásjónu til jarðar, laut kónginum og sagði: „Minn herra Davíð kóngur fái lukku ævinlega.“

Síðan sagði Davíð kóngur: „Kallið til mín Sadók kennimann og Natan spámann og Benaja son Jójada.“ En sem þeir komu inn fyrir kónginn þá sagði kóngurinn til þeirra: „Farið og takið með yður yðars herra þénara og setjið minn son Salómon á minn múl og færið hann ofan til Gíhon. Og Sadók kennimaður og Natan prophete skulu þar smyrja hann til kóngs yfir Ísrael. Og látið blása í lúðra og segið: Lukku fái Salómon kóngur! Farið síðan upp eftir honum og komi hann og setjist í minn hásætisstól og sé kóngur fyrir mig. Og eg vil bjóða honum að hann skuli vera höfðingi yfir Ísrael og Júda.“ Þá svaraði Benaja sonur Jójada kónginum og sagði: „Amen. Drottinn míns herra kóngsins Guð segi svo. Sem Drottinn hefur verið með mínum herra kóngi Davíð so sé hann og með Salómoni að hans hásæti verði æðra en míns herra Davíðs kóngs hásæti.“

Eftir þetta gengu þeir ofan, Sadók kennimaður og Natan spámaður og Benaja son Jójada og Creti og Pleti, og settu Salómon á múl Davíðs kóngs og færðu hann til Gíhon. Og Sadók kennimaður tók viðsmjörshornið af tjaldbúðinni og smurði Salómon. [ Og þeir blésu í lúðra og allt fólkið sagði: „Lukku fái Salómon kóngur!“ Og allt fólkið fór upp eftir honum og lýðurinn lék fyrir með allsháttuðum hljóðfærum og var fagnandi so að jörðin skalf af þeirra háreysti.

En Adónía og allir þeir sem hann hafði innboðið og hjá honum voru heyrðu það hvað um var að lokinni veislu Adónía. Og þá Jóab heyrði lúðrablásturinn þá sagði hann: „Hverju gegnir þetta kall og háreysti í borginni?“ En sem hann var þetta að tala þá kom Jónatan son Abjatar kennimanns. Og Adónía sagði: „Kom hingað því þú ert einn góður maður og munt bera góð tíðindi.“ Jónatan svaraði og sagði til Adónía: „Já, vor herra Davíð kóngur hefur gefið Salómoni kóngsnafn og hefur sent Sodók kennimann Natan spámann og Benaja son Jójada og Creti og Pleti með honum og þeir settu hann upp á kóngsins múl. En Sadók kennimaður og Natan spámaður smurðu hann til kóngs í Gíhon og þeir fóru nú þaðan og upp hingað með gleði og því varð svoddan háreysti í staðnum. Og það er nú sá hávaði sem þér hafið heyrt.

Hér með situr Salómon í konunglegu hásæti og kóngsins þénarar eru inn gengnir að blessa vorum herra Davíð kóngi og hafa sagt: Þinn Guð gjöri Salómoni eitt betra nafn heldur en að þitt nafn er og gjöri hans veldisstól stærra heldur en þinn er. Og kóngurinn baðst fyrir í sinni sæng þar hann lá og sagði svo: Lofaður sé Drottinn, Guð Ísraels, hver eð lést þennan sitja í dag á mínum stóli þann sem að mín augu nú sjá.“

Þá skelfdust allir þeir sem með Adónía voru og stóðu upp og fóru hver sinn veg. En Adónía varð hræddur mjög fyrir Salómoni, stóð upp og gekk í burt í tjaldbúð Drottins og hélt um hornið á altarinu. Og það var sagt Salómoni: „Sjá, Adónía óttast Salómon kóng og sjá, hann heldur um altarisins horn og segir: Salómon kóngur sverji mér í dag eið að hann skuli ekki slá sinn þénara í hel með sverði.“ Salómon sagði: „Vilji hann vera frómur þá skal þar ekki falla eitt hár af honum á jörðina. En finnist nokkuð vont með honum þá skal hann deyja.“ Síðan sendi Salómon kóngur þangað og lét leiða hann ofan frá altarinu. Og sem hann kom þá tilbað hann Salómon kóng. Og kóngurinn sagði til hans: „Far heim í þitt hús.“