XI.

En Philistei börðust við Ísrael. En þeir af Ísrael flýðu fyrir Philisteis og féllu slegnir á fjallinu Gilbóa. Og Philistei nálguðust Saul og hans syni og slógu Jónatan, Abínadab og Malkísúam, sonu Saul. [ Var þá hörðust aðsókn að Saul og bogmennirnir komu að honum og særðu hann með sínum skotum. Þá sagði Saul til síns skjaldsveins: „Bregð þú þínu sverði og legg þú mig í gegnum með því svo að þessir óumskornu komi ei og veiti mér háðung.“ En hans skjaldsveinn vildi ekki því hann varð hræddur. Þá tók Saul sjálfur sitt sverð og féll þar á. En sem hans skjaldsveinn sá þetta að Saul var dauður féll hann og svo á sitt sverð og lét sitt líf. Svo lét Saul sitt líf og hans þrír synir og þar féll allt hans hús. En sem Ísraelsmenn sem voru í dölunum sáu það að þeir voru flúnir og að Saul og hans synir voru dauðir þá yfirgáfu þeir sína staði og héldu á flótta en Philistei komu og bjuggu í þeim.

Annars dags komu Philistei að ræna valinn og fundu Saul og hans sonu liggjandi á fjallinu Gilbóa. [ Þá flettu þeir Saul sínum klæðum og tóku hans höfuð og hans vopn og sendu í kringum allt Philisteiland og létu það kunngjöra fyrir þeirra afguðum og þeirra fólki. Og þeir lögðu hans vopn í sinna guða hús en hans höfuð festu þeir upp í Dagóns húsi.

En sem þeir menn í Jabes Gíleað heyrðu allt það sem Philistei höfðu gjört Saul þá tóku þeir sig upp, allir hinir hraustustu, og tóku líkama Saul og hans sona og fluttu þá til Jabes og jörðuðu þeirra bein undir einni eik sem stóð í Jabes og föstuðu í sjö daga. [

Svo lét nú Saul líf sitt fyrir sakir misgjörninga sinna sem hann hafði framið í móti Drottni að hann hafði ekki haldið Drottins orð og hann sótti ráð hjá þeirri spáfararkonu en vonaði ekki til Drottins. Því hann sló hann í hel og sneri kóngsríkinu til Davíðs sonar Ísaí.