XV.

Þegar nú að herliðið heyrði að Holofernes hafði misst höfuðið hræddust þeir og urðu efasamir og ráðlausir hvað þeir skyldu gjöra. Svo voru þeir duglausir orðnir. Og þeir flýðu undan so að þeir gæti undan komist þeim ebresku hverja þeir þar sáu fara á móti sér.

Og er Ísraelssynir sáu að óvinirnir flýðu þá ráku þeir flóttann með stóru herópi og herlúðragangi. En með því að fylking þeirra Assyriis var rofin og Ísraelssynir drógu fram í sinni fylkingu þá slógu þeir í hel alla þá er þeir gátu náð.

Og Osias sendi um allar borgir í Ísraelslandi og bauð að menn skyldu úr öllum borgum reka flóttann óvinanna þar til þeir væri úr landinu. En það fólk sem eftir var í Betulia féll út í herbúðir þeirra Assyriis, ræntu og burt fluttu allt það sem þeir af Assyriis höfðu eftirlátið og höfðu burt þaðan ógrynni fjár. En hinir aðrir þá þeir komu aftur þá höfðu þeir með sér allt hvað hinir höfðu með sér haft, bæði fénað og allt annað, og allt landið varð ríkt af slíku herfangi.

Þar eftir kom Jójakím kennimannahöfðingi af Jerúsalem og allir prestarnir til Betulia að sjá Júdít. Og hún gekk fyrir þá og þeir prísuðu hana allir og sögðu: „Þú ert Jerúsalems kóróna, þú ert Ísraels gleði, þú ert alls fólksins prís að þú hefur gjört so loflegan gjörning og hefur veitt Ísrael so stóran velgjörning að Guð hefur frelsað þá aftur. Blessuð ertu fyrir Guði eilíflega.“ Og allt fólkið sagði: „Amen, amen!“

Þá þeir höfðu nú útskipt herfanginu í þrjátígu daga þá gáfu þeir Júdít kostulegar klenódíur sem Holofernes hafði haft, gull, silfur, klæði og dýrmæta gimsteina. Og hver maður var glaður, sungu og dönsuðu, bæði ungir og gamlir.