XIX.

Og það skeði sem Jesús hafði lyktað þessar ræður að hann fór af Galilea og kom í endimerkur Gyðingalands, öðrumegin Jórdanar. [ Og margt fólk fylgdi honum eftir og þar læknaði hann þá.

Þá gengu Pharisei til hans, freistuðu hans og sögðu: [ „Leyfist nokkuð manninum að forláta sína eiginkonu fyrir hverja sem eina sök?“ En hann svaraði og sagði til þeirra: [ „Hafi þér eigi lesið að sá er í upphafi skapaði manninn hann gjörði það að vera skyldi maður og kona og sagði: Fyrir því mun maðurinn forláta föður og móður og viðtengjast eiginkonu sinni og þau tvö munu eitt hold vera. So eru þau nú eigi tvö heldur eitt hold. En hvað Guð hefur samantengt það skal maðurinn eigi í sundur skilja.“

Þá sögðu þeir: [ „Fyrir því bauð Moyses þá að gefa skyldi skilnaðarskrá og hana að forláta?“ Hann sagði til þeirra: „Moyses hefur fyrir harðúð yðvars hjarta leyft yður að forláta húsfreyjur yðrar en af upphafi var það eigi so. En eg segi yður það: [ Hver sína eiginkonu forlætur (nema það sé fyrir hórunarsök) og giftist annarri sá drýgir hór. Og hver fráskilinni giftist sá drýgir og hór.“

Þá sögðu lærisveinarnir til hans: „Ef so er háttað mannsins málefnum við eignarkonuna þá er eigi gagn í að giftast.“ En hann sagði til þeirra: „Þetta orð fá eigi allir höndlað heldur þeir hverjum það er gefið. Því að þar eru þeir geldingar sem so verða af móðurkviði fæddir og þeir geldingar er hverjir af mönnunum eru geldir og þar eru og líka þeir geldingar sem sjálfa sig hafa gelt fyrir himnaríkis sakir. [ Sá gripið getur hann grípi það.“

Þá voru smábörn til hans höfð so að hann legði hendur yfir þau og bæðist fyrir. En lærisveinarnir ávítuðu þá. Jesús sagði til þeirra: „Látið börnin kyrr og fyrirbjóðið þeim eigi til mín að koma því að slíkra er himnaríki.“ [ Og er hann hafði hendur yfir þau lagt gekk hann þaðan.

Og sjá, að einn gekk að honum og sagði til hans: „Góði meistari, hvað skal eg þess gott gjöra að eg hafi eilíft líf?“ Hverjum hann svaraði: [ „Hvað kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema einn, sem er Guð. En ef þú vilt til lífsins inn ganga svo varðveit þú boðorðin.“ Hann sagði þá til hans: „Hver helst?“ En Jesús sagði: „Ei skaltu mann vega, ei skaltu hórast, ei skaltu stela, eigi skaltu ljúgvitni mæla, heiðra skaltu föður þinn og móður og elska skalt þú náunga þinn so sem sjálfan þig.“ Þá sagði ungi maðurinn til hans: „Þetta allt hef eg varðveitt í frá barnæsku minni. Hvað brestur mig þá?“ Jesús sagði til hans: [ „Ef þú vilt algjörður verða far burt og sel allt hvað þú hefir og gef fátækum og munt þú þá stoð hafa á himni. Kom þá og fylg mér so eftir.“ Og er hinn ungi maður heyrði það orð gekk hann hryggur í burt því að hann hafði miklar eignir.

En Jesús sagði til sinna lærisveina: [ „Sannlega segi eg yður að torvelt er ríkum inn að anga í himnaríki. Og enn segi eg yður það auðveldara er úlfaldanum að smjúga í gegnum nálarauga en ríkum inn að ganga í Guðs ríki.“ Og er lærisveinarnir heyrðu það urðu þeir mjög óttaslegnir og sögðu: „Hver fær þá hjálpast?“ En Jesús leit við þeim og sagði til þeirra: „Hjá mönnunum er það ómögulegt en hjá Guði er allt mögulegt.“

Þá svaraði Pétur og sagði til hans: „Sjáðu, að vér forlétum allt og fylgdum þér eftir. Hvað sker oss þar fyrir?“ En Jesús sagði til þeirra: [ „Sannlega segi eg yður að þér hverjir mér hafið eftirfylgt: Í endurfæðingunni, þá er Mannsins son situr á stóli sinnar tignar, munu þér og sitja á tólf stólum dæmandi tólf kynkvíslir Ísraels. Og hver hann forlætur hús eður bræður, systur, föður eða móður eður eiginkonu eða börn eða akra fyrir míns nafns sakir sá mun hundraðfalt í staðinn taka og erfa eilíft líf. [ En margir þeir sem eru fyrstir verða síðastir og þeir sem síðastir eru verða hinir fyrstu.