XXVII.

Sálmur Davíðs

Drottinn er mín upplýsing og minn heilsugjafari, fyrir hverjum skal eg óttast?

Drottinn hann er minn lífsins kraftur, fyrir hverjum skylda eg hræddur vera?

Þar fyrir þó að hinir hrekkvísu, mínir mótstöðumenn og óvinir vilji til við mig til þess að eta mitt hold þá munu þeir þó ásteyta sig og niður hrynja.

Þótt að hermenn settu sig upp á móti mér þá blöskraði ei að heldur mínu hjarta, þó að stríð hefjist upp mér á móti þá treysti eg þó samt á hann.

Eins þá bið eg af Drottni, það sama þæga eg gjarnan, það að eg mætta blífa í húsi Drottins mína lífdaga til að skoða þá ágætu þjónustugjörð Drottins og að vitja hans musteris.

Því að hann skýlir mér í sinni tjaldbúð á þeim illa tímanum, hann felur mig í leyni sinnar tjaldbúðar og upphefur mig upp á bergið.

Og nú mun hann upphefja mitt höfuð yfir mína óvini sem hér í kringum mig eru, þá vil eg og í hans tjaldbúð lofgjörðinni offra, eg vil syngja og lof segja Drottni.

Heyr þú, Drottinn, mína raust nær að eg kalla, miskunna þú mér og bænheyr mig.

Mitt hjarta það setur sér þín orð fyrir (þessi): „Þér skuluð míns andlits leita.“ Þar fyrir leita eg einnin, Drottinn, þíns andlits.

Snú ekki þínu andliti frá mér og í burt rek ekki þræl þinn í reiði þinni því þú ert minn hjálpari, yfirgef þú mig ekki og tak ekki þína hönd frá mér, Guð minn frelsari.

Því að faðir minn og móðir mín þau yfirgáfu mig en þú, Drottinn, annaðist mig.

Vísa þú mér, Drottinn, þinn veg og leið mig á réttan götustíg vegna minna óvina.

Ofurgef mig ekki í vild óvina minna því að falsvottar rísa upp á móti mér og gjöra mér rangt til og tala ósannindi.

En eg trúi það þó að eg muni sjá góðsemd Drottins á jörðu lifandi manna.

Bíð þú Drottins, vert hraustur, þitt hjarta sé óefað og bíð Drottins.