VI.

Spámannasynir sögðu til Elisei: [ „Sjá, þessi staður þar vér búum hjá þér er oss of þrönglendur. Vér viljum fara til Jórdanar og taki hver sér þar tré svo vér mættum byggja oss þar bústað.“ En hann svaraði: „Farið þangað.“ Og einn sagði: „Bið eg að þú viljir fara með þínum þénurum.“ Hann sagði: „Eg vil fara með yður.“ Og hann fór með þeim. En sem þeir komu til Jórdanar tóku þeir til að höggva viðina. Maður einn var að höggva tré, þá hraut öxin í vatnið. En hann kallaði upp og sagði: „Aví, minn herra, auxin hraut í vatnið! Þar með var mér léð hún.“ Og guðsmaður svaraði: „Hvar féll hún niður?“ Og hann vísaði honum það. Þá hjó hann eitt tré og snaraði því þangað, þá flaut öxin upp að trénu. [ Og hann sagði: „Tak hana aftur.“ Og hann rétti út hönd sína og tók aftur öxina.

Og það skeði svo að kóngurinn af Sýrlandi stríddi á Ísrael og ráðgaðist við sína þénara og sagði: „Vér viljum setja vorar herbúðir hér og þar.“ En guðsmaður sendi til Ísraelskóngs og lét undirvísa honum: „Vara þig og far ekki til þess staðar því að Syri eru þar fyrir.“ Þá sendi Ísraelskóngur burt til þess staðar sem guðsmaður sagði honum, forsvaraði hann og hélt þar vaktara og gjörði það ekki eitt sinn eður tvær reisur einskostar.

Kóngsins hjarta af Syria felmtraði við þetta og hann kallaði saman sína þénara og sagði til þeirra: „Vilji þér ekki segja mér hver af voru liði mun flúinn til Ísraelskóngs?“ Þá sagði einn af hans þénurum: „Ekki er svo, minn herra kóngur, heldur Eliseus sá spámaður í Ísrael, hann segir Ísraelskóngi allt það sem þú talar í þínu svefnherbergi.“ Hann sagði: „Farið og vitið hvar hann er svo eg megi senda þangað og láta taka hann.“ Og þeir undirvísuðu honum og sögðu: „Sjá, hann er í Dótan.“ Þá sendi kóngurinn þangað hesta og vagna og mikinn styrk síns herliðs. Og sem þeir komu þar um nótt slógu þeir herskildi um borgina.

En sem þénari guðsmanns stóð upp mjög árla gekk hann út og sjá, þá sá hann her manna girða um borgina öllumegin með hestum og vögnum. [ Og þénarinn kunngjörði honum og sagði: „Aví, minn herra, hvað skulu við aðhafast?“ Hann sagði: „Óttast ekki því að þeir eru fleiri sem oss veita lið heldur en þeir sem eru með þeim.“ Og Eliseus féll til bænar og sagði: „Drottinn, lúk upp hans augum að hann megi sjá.“ Og Drottinn upplauk sveinsins augum og hann sá og sjá, að fjallið var fullt umbergis Eliseum af eldlegum hestum og vögnum. Og Drottinn sló þá með blindu eftir Elisei orðum. Og Eliseus sagði til þeirra: „Ekki er þetta vegurinn né sú borgin. Fylgið mér, eg vil vísa yður til þess manns sem þér leitið eftir.“ Og hann leiddi þá til Samariam.

En sem þeir voru komnir í Samariam sagði Eliseus: „Drottinn, lúk þú nú upp þeirra augum svo að þeir megi sjá.“ Og Drottinn upplauk þeirra augum so þeir sáu og sjá, þeir voru í miðri Samaria. En Ísraelskóngur, sem hann sá þá, þá sagði hann til Eliseum: „Minn faðir, skal eg slá þá?“ Hann svaraði: „Ekki skalt þú slá þá en þá sem þú tekur með sveðri þínu og boga, þá sömu mátt þú slá. Set brauð og vatn fyrir þá so þeir megi eta og drekka og lát þá síðan fara til síns herra.“ Þá var búin til mikil máltíð. Og sem þeir höfðu etið og drukkið þá lét hann þá fara og þeir drógu til síns herra. Og aldrei síðan kom sá stríðsher sýrlenskra í Ísraelsland.

Og eftir þetta skeði svo að Benhadad kóngur af Syria dró saman allan sinn her og fór upp og settist um Samariam. [ Og þar varð mikið hallæri í Samaria. Og þeir sátu um staðinn svo lengi að eitt asnahöfuð var selt fyrir áttatígi silfurpeninga og einn fjórðungur af kab með dúfnadrit var keypt fyrir fimm silfurpeninga.

En sem Ísraelskóngur gekk á múrnum kallaði ein kvinna til hans og sagði: „Hjálpa þú mér, minn herra kóngur!“ Hann sagði: „Hjálpar ekki Drottin þér? Hvar með skal eg hjálpa þér? Af kornhlöðunni eða af vínþrúgunni?“ Og kóngurinn sagði til hennar: „Hvað skaðar þig?“ Hún sagði: „Þessi kvinna sagði til mín: Gef þinn son fram og etum hann í dag en á morgun viljum við að við etum minn son. [ Svo höfum við matgjört og etið minn son. Og eg sagði til hennar á öðrum degi: Tak nú þinn son og lát hann hingað so að við etum hann. En hún hefur falið sinn son.“

En sem kóngurinn heyrði kvinnunnar orð reif hann sín klæði þá hann gekk á múrnum. Þá sá allt fólkið að hann var klæddur í sekk innst klæða. Og hann sagði: „Guð gjöri mér það og það ef höfuð Elisei sonar Safat skal vera í dag á honum!“

Og Eliseus sat í sínu húsi og öldungarnir sátu hjá honum. Og kóngurinn sendi einn mann undan sér. En áður en sendimaðurinn kom til hans þá sagði hann til öldunganna sem hjá honum sátu: „Viti þér ekki að þessi manndrápasonurinn hefur sent hingað að sníða af mér mitt höfuð? Sjáið til þegar sendimaðurinn kemur, þá látið aftur dyrnar og leyfið honum ei inn að ganga. Sjá, hans herra kemur skjótt eftir honum.“ En sem hann var þetta að tala við þá, sjá, þá kom sendimaðurinn til hans og sagði: „Sjá, slíkt [ illt kemur af Drottni. Hvað skal eg meir vona til Drottins?“