Og Drottinn sagði til Móses: „Gakk inn fyrir faraónem og segðu til hans: So segir Drottinn: Lát mitt fólk fara so það megi þjóna mér. En ef þú vilt ekki gjöra það, sjá, þá vil ég ljósta þitt allt land frá þeim eina landsenda og til annars með pöddum so að vatnið skal vella upp pöddum. [ Og þær skulu skríða upp og koma í þitt hús, í þitt svefnherbergi, í þínar rekkjur, og í hús þinna þjónustumanna á meðal þíns fólks, og í þinn baksturofn og í þitt deig. Og pöddurnar skulu skríða uppá þig og uppá þitt fólk og uppá alla þína þénara.“

Og Drottinn mælti við Mósen: „Seg þú til Arons: Réttu þína hönd út með þínum vendi yfir læki og strauma og stöðuvötn og lát pöddur koma yfir Egyptaland.“ Og Aron rétti út sína hönd yfir vötnin í Egyptalandi og þar komu út pöddur svo að huldist allt Egyptaland. Og töframennirnir gjörðu slíkt hið sama með sínum göldrum og létu pöddur koma yfir Egyptaland.

Þá kallaði faraó á Mósen og Aron og sagði: „Biðjið Drottin að hann taki þessar pöddur frá mér og frá mínu fólki, þá vil ég leyfa fólkinu að fara so það megi færa fórnir Drottni.“ Móses sagði: „hafðu þá æru fyrir mér og kveð á nær ég skuli biðja fyrir þér og fyrir þínum þénurum og fyrir þínu fólki að pöddurnar hverfi frá þér og þínu húsi og sé þær alleinasta í vötnunum.“ Hann sagði: „Á morgun.“ Og hann sagði: „Sjá, það skal verða eftir því sem þú hefur sagt uppá það að þú skalt vita að þar er enginn so sem Drottinn vor Guð. So skulu pöddurnar takast frá þér, frá þínu húsi og frá þínum þjónustumönnum og frá þínu fólki og skulu alleinasta vera í vötnunum.“

So gengu þeir Móses og Aron út frá faraóne. Og Móses kallaði til Drottins um pöddurnar sem hann hafði lofað faraóne. [ Og Drottinn gjörði so sem Móses hafði sagt. So dóu pöddurnar í húsunum, í bæjunum og á ökrunum, og þeir söfnuðu þeim saman hér og hvar í stórhrúgur, so að landið úlnaði þar af. En er faraó sá að honum var hvíld gefin þá varð hans hjarta forhert so að hann hlýddi þeim ekki, svo sem Drottinn hafði sagt.

Og Drottinn mælti við Mósen: „Segðu til Arons: Réttu þinn vönd út og ljósta á mold jarðarinnar so þar verði lýs yfir allt Egyptaland.“ [ Og þeir gjörðu so. Og Aron útrétti sína hönd og laust vendinum í mold jarðar og komu þegar lýs á menn og fénað. Öll mold landsins varð að lúsum í öllu Egyptalandi. Töframennirnir gjörðu slíkt hið sama með þeirra göldrum að þeir kæmi lúsunum í burt en þeir gátu ekki. Og lýsnar voru bæði á mönnönum og á fénaðinum. Þá sögðu töframennirnir til faraónem: „Þetta er Guðs fingur.“ Og faraónis hjarta varð forhert so að hann hlýddi þeim ekki, so sem Drottinn hafði sagt.

Og Drottinn mælti við Mósen: „Tak þig upp á morgun snemma og far til fundar við faraónem. [ Sjá, hann mun ganga til vatsins og segðu so til hans: Svo segir Drottinn: Lofaðu lýð mínum að fara so hann megi þjóna mér. En ef þú gjörir það ekki, sjá, þá skal ég láta koma allsháttaðar flugur yfir þig, þína þénara, þitt fólk og þitt hús, so að öll hús Egyptalands skulu fyllast af allsháttuðum flugum, svo og akrarnir og hvað sem á þeim er. En á þeim degi vil ég gjöra dásamlegan hlut við land Gósen þar sem mitt fólk er, að þar skulu öngvar flugur vera, svo að þú vitir að ég er Drottinn á allri jörðunni. Og ég vil setja eina [ frelsan á millum míns fólks og þíns lýðs. Á morgun skal það tákn ske.“

Og Drottinn gjörði so. Og þar kom fjöldi flugna í faraónis hús, í hans þénara hús og so yfir allt Egyptaland, so að landið spilltist af flugunum. Þá lét faraó kalla til sín Mósen og Aron og sagði: „Farið og fórnfærið yðrum Guði hér á Egyptalandi.“ Móses svaraði: „Ei má svo vera að vér gjörum það. Því að svívirðingar egypskra munum vér í fórnir færa Drottni vorum Guði. Sjá, ef vér offruðum egypskra svívirðingum fyrir þeirra augum, mundu þeir þá ekki lemja oss í hel með grjóti? Vér viljum ferðast þriggja daga leið í burt héðan á eyðimörk og færa fórnir Drotni vorum Guði so sem hann hefur boðið oss.“

Þá sagði faraó: „Ég vil leyfa yður að fara so þér fórnfærið til Drottins yðars Guðs á eyðimörku, þó með því móti að þér ferðist ei lengra í burt, og biðjið fyrir mér.“ Móses svaraði: „Sjá, þegar ég kem út frá þér þá vil ég biðja Drottin að þessar flugur hverfi frá faraóne og hans þénurum og hans fólki á morgun. En pretta mig ekki oftar so þú látir ekki fólkið fara og gjöra Drottins offur.“ Og Móses gekk út frá faraóne og bað til Drottins. Drotinn veiti það sem Móses bað og tók flugurnar í burt frá faraóne, frá hans þénurum og frá hans fólki, so þar var ekki ein eftir. En faraó harðnaði í sínu hjarta þá enn og lét ekki fólkið fara.