Og Drottinn talaði við Mósen og sagði: „Tala þú við Ísraelssonu og tak tól vöndu af þeim, eirn af hvörjum höfðingja síns föðurs húss, og skrifa sérhvörs nafn á hans vendi. En Arons nafn skaltu skrifa á vönd Leví. Því að sinn vöndur skal vera fyrir hvört höfuð af þeirra feðra húsi. Og legg þá í vitnisburðarins tjaldbúð fyrir vitnisburðinn þar sem ég vitna fyrir yður. Og þann ég útvel, þess vöndur skal blómgast, að ég megi so stilla mögl Ísraelissona það þeir mögla í móti yður.“

Móses talaði við Ísraelssonu og allir þeirra höfðingjar fengu honum tólf vöndu, hvör höfðingi sinn vönd, eftir þeirra feðra húsi, og Arons vöndur var á meðal þeirra vanda. Og Móses lagði vönduna fyrir Drottin í vitnisburðarins tjaldbúð. En um morguninn sem Móses gekk inn í vitnisburðarins tjaldbúð fann han Arons vönd af Leví húsi, að hann var blómgaður orðinn og blómstrið var útsprungið og bar mandelkorn. [ Og Móses bar alla vönduna út frá Drottni til allra Ísraelssona so þeir sáu þá og hvör tók við sínum vendi.

Og Drottinn sagði til Mósen: „Ber Arons vönd inn aftur fyrir vitnisburðinn so hann sé geymdur til eins merkis þeim óhlýðnu sonum so að þeirra möglan afleggist fyrir mér, so þeir skulu ekki deyja.“ Móses gjörði sem Drottinn bauð honum. Og Ísraelssynir sögðu til Mósen: „Sjá þú, vér fordjörfumst og deyjum, vér verðum allir afmáðir og fyrirförumst. Hvör sem kemur nær tjaldbúð Drottins hann deyr. Skulum vér þá með öllu eyðileggjast?“