Jakob leit sínum augum upp og sá sinn bróður Esaú komanda með fjögur hundruð manns. Hann skipaði sínum sonum til Lea og til Rakel og til beggja þeirra ambátta. Og hann skipaði ambáttunum og þeirra sonum fremst, þar næst Lea með sínum börnum, en Rakel seinast með Jósef. En hann gekk fram undan þeim og féll sjö sinnum til jarðar þar til hann kom til síns bróðurs.

Esaú rann í mót honum og tók hann í fang sér, lagði hendur um háls honum og kyssti hann. Og þeir grétu báðir. Og hann lyfti sínum augum upp, sá kvinnurnar og börnin og sagði: „Hvaða fólk er þetta sem er með þér?“ Hann svaraði: „Þetta eru smábörn þau sem Guð hefur gefið þínum þénara.“ Og ambáttirnar gengu fram með sínum sonum og lutu honum. Lea gekk og fram með sínum börnum og laut honum. Þar eftir gekk Jósef og Rakel fram og lutu honum.

Og hann sagði: „Hvað vilt þú með allan þann flokk sem kom á móti mér?“ Hann svaraði: „Að eg megi finna náð fyrir mínum herra.“ Esaú sagði: „Minn bróðir, eg hefi nóg, hafðu sjálfur þína eign.“ Jakob svaraði: „Eigi so. Hafi eg fundið náð fyrir þér þá meðtak nú þessa gáfu af minni hendi. Því eg sá þína ásjónu líka sem eg hefði séð Guðs ásjónu og lát þér þetta vel þóknast af mér og tak þessa blessan af mér sem eg hefi fært þér. Því Guð gaf mér það og eg hefi aldeilis nóg eftir.“ So neyddi hann hann þar til að hann meðtók það.

Og hann sagði: „Látum oss ferðast á veginn með þér, vér viljum fara til samans.“ En Jakob svaraði honum: „Minn herra, þú sér vel að eg hefi ung börn meðferðis, þar til með fé og nýbærar kýr. Ef so skeður nú að þetta þreytist á einum degi þá mun hjörðin deyja fyrir mér. Minn herra, ferðist þér undan yðrum þénara, eg vil reka so hægt á eftir svo sem börnin og hjörðin geta gengið, þar til að eg kem til míns herra í Seír.“

Esaú svaraði: „Þá vil eg þó láta eftir hjá þér nokkra af þessum mönnum sem eru með mér.“ Hann svaraði: „Hvað gjörist þess þörf? Lát mig aðeins finna náð fyrir þér, minn herra.“ So ferðaðist Esaú þann sama dag aftur þann rétta veg til Seír. En Jakob fór til Súkót og byggði sér þar eitt hús, gjörði og tjaldbúðir handa sinni hjörð. [ Og því kallast sá staður Súkót.

Eftir það fór Jakob til Salem í þá borg Síkems sem liggur í Kanaanslandi, þá hann var kominn af Mesopotamia, og hann setti sína byggð utan staðar og keypti eitt lítið akurland af Hemorssonum, Sikíms föður, fyrir hundrað [ silfurpeninga og setti þar sína tjaldbúð og uppbyggði þar eitt altari og ákallaði þar nafn þess sterka Guðs Ísraels.