VII.

En sem Salómon hafði endað sína bæn þá féll eldur ofan af himnum og brenndi upp brennioffrið og þær aðrar fórnir. [ Og Drottins dýrð uppfyllti húsið svo prestarnir gátu ekki gengið inn í musteri Drottins svo lengi sem Drottins dýrð uppfyllti Drottins hús. Og allir Ísraelssynir sáu eldinn ofan falla og Drottins dýrð yfir húsið og þeir féllu á sín kné og á sínar ásjónir til jarðar fram á steingólfið og báðust fyrir og þökkuðu Drottni því að hann er góður og hans miskunnsemi varir eilíflega.

En kóngurinn og allt fólkið færði fórnir fyrir Drottni. [ Því Salómon kóngur fórnfærði tvö og tuttugu þúsund uxa og hundrað og tuttugu þúsund sauði og vígðu so Guðs hús, bæði kóngur og allt fólkið. En prestarnir stóðu í sínu varðhaldi og Levítarnir með Drottins hljóðfærum sem Davíð kóngur lét gjöra til lofgjörðar Drottni að hans miskunnsemi varir eilíflega. Og þeir léku Davíðs psalma með sínum höndum og prestarnir blésu í sína básúna frammi fyrir þeim en allur Ísrael stóð. Og Salómon helgaði miðgarðsrúmið sem var fyrir Drottins húsi því hann hafði þar offrað brennifórnirnar og þakklætisins offurs feitleika sökum þess að það koparaltari sem Salómon lét gjöra var ekki so stórt að það tæki allar brennifórnir, matarfórnir og feitleika.

Og á þessum tíma hélt Salómon mikið hátíðarhald í sjö daga og allur Ísrael með honum, einn mjög mikill söfnuður, frá Hemat og til Egiptilækjar. Og á þeim áttunda degi hélt hann eina samkomu. Því að altarisins vígslu héldu þeir í sjö daga og so hátíðina í sjö daga. En á þeim þriðja og tuttugasta degi þess sjöunda mánaðar lét hann fólkið fara til sinna tjaldbúða með gleði og fagnaði yfir öllu því inu góða sem Drottinn hafði veitt Davíð og Salómon og sínu fólki Ísrael. Svo fullkomnaði Salómon kóngur Drottins hús og kóngsins hús og allt það annað sem hann hafði í sinni að gjöra í Drottins húsi og í sínu húsi lukkusamlega.

Og Drottinn birtist Salómon um nótt og sagði til hans: [ „Eg hefi heyrt þína bæn og hef útvalið mér þennan stað til eins fórnfæringar húss. Sjá, nær eg byrgi himininn svo þar rignir ekki eða eg býð engisprettum upp að éta landið eða eg læt koma drepsótt á meðal fólksins so að mitt fólk auðmýki sig hvert kallað er eftir mínu nafni, og ef þeir biðja og leita míns andlits og snúa sér frá sínum vondu vegum þá vil eg heyra þá af himninum og fyrirgefa þeim þeirra syndir og lækna þeirra land. So skulu nú mín augu vera opin og mín eyru skulu gæta að þeim bænum sem beðnar eru í þessum stað. Því hefi eg nú útvalið þetta hús og það heilagt gjört að mitt nafn skal vera þar ævinlega og mín augu og mitt hjarta skulu alltíð vera þar.

Og ef þú gengur fyrir mér svo sem þinn faðir Davíð gekk svo að þú gjörir allt það sem eg bífala þér og heldur mín boðorð og réttindi, þá vil eg staðfesta þinn konunglegan stól líka sem eg hefi lofað þínum föður Davíð og sagt: Þig skal ekki vanta einn mann hver eð sé höfðingi yfir Ísrael. [ En ef þér frásnúið yður og yfirgefið mín réttindi og boðorð sem eg hefi lagt fyrir yður og þér farið til að þjóna öðrum guðum og tilbiðjið þá þá skal eg upprykkja þeim af mínu landi sem eg hefi gefið þeim. [ Og þetta hús sem eg hefi helgað mínu nafni, því skal eg burtkasta frá mínu andliti að það verði að orðskvið og dæmisögu á meðal allra þjóða. Og þetta hús sem var það hæsta skal verða að undran öllum þeim sem þar ganga framhjá og þeir munu segja: Því hefur Drottinn farið svo með þetta land og með þetta hús? Þá mun svarað verða: Fyrir því að þeir hafa fyrirlitið Drottin þeirra feðra Guð, þann sem þá útleiddi af Egyptalandi, og hafa gefið sig til annarlegra guða, tilbeðið þá og þjónað þeim. Þar fyrir hefur hann leitt alla þessa ólukku yfir þá.“