X.

En sem Salómons rykti út af nafninu Drottins kom fyrir drottninguna af ríki Arabia þá kom hún að freista hans með djúpum spurningum. [ Og hún kom til Jerúsalem með mjög miklu föruneyti, með úlföldum sem báru jurtir og mikið gull og dýrlega steina. Og sem hún kom inn til Salómons kóngs þá talaði hún við hann allt það hún hafði í sínu hjarta. Og Salómon sagði henni það allt saman og þar var ekkert hulið fyrir kónginum að hann sagði eigi henni það.

En sem drottningin af Arabiaríki sá allan Salómons vísdóm og húsið það hann hafði smíðað og vistir til hans borðs og herbergin hans þénara og skipan þeirra er honum þjónuðu og þeirra klæðnað og hans skenkjara og hans brennifórnir sem hann offraði í Drottins hús þá gat hún ekki haldið sér lengur og sagði til kóngsins: „Það er satt sem eg hefi heyrt í mínu landi um þína vitru og um þinn vísdóm. En eg vilda ekki trúa því fyrr en eg kæmi sjálf að sjá það með mínum augum. Og sjá, það var mér ekki hálfpart af sagt, miklu meiri er þinn vísdómur og auðæfi en sú frægð sem eg heyrða. Sælir eru þínir menn og þínir þénarar sem að alltíð standa fyrir þér og heyra þinn vísdóm. Lofaður verði Drottinn, þinn Guð, hverjum þú líkaðir so vel að hann hefur sett þig upp á Ísraels stól fyrir því að Drottinn elskar Ísrael ævinlega og setti þig til kóngs að þú skulir dæma dóma og réttindi.“

Og hún gaf kónginum hundrað og tuttugu centener gulls og mjög margar kostulegar jurtir og dýrlega gimsteina. Þar fluttust ekki síðan svo margar kostulegar jurtir sem drottningin af ríki Arabia gaf Salómon kóngi. Þar með skip Híram sem færðu gull af Ófír, þau fluttu og mjög mikil [ hebentré og dýrlega steina. Og kóngurinn lét gjöra pilara af því sama hebentré í Drottins húsi og í kóngsins húsi, so og hörpur og söngfæri til söngvaranna. Þar komu ekki upp frá því þvílík hebentré, þau voru og ekki heldur sén til þessa dags. Og kóng Salómon gaf drottningunni af ríki Arabia allt það hún vildi girnast og hún umbað, fráskildu því sem hann gaf henni sjálfur. Og hún sneri aftur í sitt land með sínu föruneyti.

Það gull sem Salómon fékk á hverju ári var að vigt sex hundruð sex og sextígi centener, umfram það sem kom frá krömurum, kaupmönnum og þeim eð jurtir seldu og frá öllum kóngum af Arabia og frá þeim voldugu í löndunum. [ Og Salómon kóngur le´t gjöra tvö hundruð skjöldu af því inu besta gulli og þar voru sex hundruð stykki gulls á hverjum skildi og þrjú hundruð buklara af því besta gulli, já þrjú pund gulls til hvers buklara. Og kóngurinn lagði þá í húsið sem gjört var af Líbanonskógi.

Og kóngurinn gjörði eitt mikið hásæti af filsbeinum og bjó það allt með því skærasta gulli. Og hásætið hafði sex tröppur og höfuðið á stólnum var kringlótt á bak til og þar voru tvær bríkur á báðar síður hásætisins og tvær leónsinnur stóðu ofan á bríkunum. [ Og þar stóðu tólf león á þeim sex tröppum á báðar síður. Þvílíkt var aldrei gjört í nokkru kóngsríki.

Öll kóng Salómons drykkjarker voru af kláru gulli og öll önnur ker í húsinu Líbanonskógs voru og af kláru gulli. Því að ei þótti silfur nokkurs vert í kóng Salómons tíð. Fyrir því að kóngsins skip sem voru í samflota með Hírams skipum þau komu eitt sinn í þremur árum og fluttu gull, silfur, fílsbein, apynjur og páfugla.

So miklaðist Salómon kóngur að auðæfum og vísdómi umfram alla aðra kónga á jörðunni. [ Og allur heimurinn girntist að sjá Salómon svo þeir mætti heyra hans vísdóm sem Guð hafði gefið honum í hans hjarta. Og hver maður færði honum ágætar gáfur, silfurker og gullker og brynjur, klæði, jurtir, hesta og múla, hvert ár. Og Salómon safnaði saman vögnum og riddaraliði svo hann hafði þúsund og fjögur hundruð vagna og tólf þúsundruð riddara og lét þá vera í vagnastöðunum og hjá kónginum í Jerúsalem.

Og kóngurinn gjörði það að ei var ónægra silfur í Jerúsalem en steinar og svo mikil sedrustré sem fíkjutré í eyðimerkurdölum. [ Og Salómoni voru færðir hestar af Egyptalandi og allra handa vara. Og kóngsins kaupmenn keyptu þá sömu vöru og færðu hana af Egyptalandi, já einn hvern vagn fyrir sex hundruð silfurpeninga og hvern hest fyrir hundrað og fimmtígi. Svo fluttust honum fyrir þeirra hendur (hestar) frá kóngum þeirra Hetiter og kóngunum í Syria.