Drottningin af Saba
1 Drottningin af Saba heyrði það orð sem fór af Salómon og kom til þess að reyna hann með gátum. 2 Hún kom til Jerúsalem ásamt miklu fylgdarliði og hafði úlfalda klyfjaða balsami, gulli og dýrindis steinum. Hún gekk fyrir Salómon og lagði fyrir hann allt sem henni lá á hjarta. 3 Salómon svaraði öllum spurningum hennar, ekkert var konungi hulið og aldrei varð honum svara fátt. 4 Þegar drottningin af Saba hafði kynnst speki Salómons, séð húsið, sem hann hafði byggt, 5 matinn á borði hans, sætaskipan hirðmanna, þjónustu skutilsveina hans og klæðnað, byrlara hans og brennifórnir, sem hann færði í húsi Drottins, varð hún agndofa. 6 Hún sagði við konung: „Það sem ég heyrði heima í landi mínu um orðsnilld þína og visku hefur reynst rétt. 7 En ekki trúði ég því sem sagt var fyrr en ég kom og kynntist því af eigin raun. Þó var mér ekki skýrt frá helmingnum. Viska þín og velmegun er meiri en ég hafði heyrt um. 8 Sælir eru menn þínir, sælir hirðmenn þínir, sem sífellt eru hjá þér og hlýða á speki þína. 9 Lofaður sé Drottinn, Guð þinn, sem hafði velþóknun á þér svo að hann setti þig í hásæti Ísraels. Drottinn gerði þig að konungi til þess að ástunda rétt og réttlæti af því að hann elskar Ísrael ævinlega.“ 10 Hún gaf konungi hundrað og tuttugu talentur gulls, gnægð balsams og dýrindis steina. Aldrei framar barst hingað eins mikið balsam og drottningin af Saba gaf Salómon konungi.
11 Skip Hírams, sem komu með gull frá Ófír, fluttu þaðan einnig mjög mikið af almúggímviði og dýrindis steinum. 12 Konungurinn lét gera handrið í hús Drottins og konungshöllina úr almúggímviðnum, einnig sítara og hörpur handa söngvurunum. Allt til þessa dags hafa slík býsn af almúggímviði hvorki borist hingað né sést hér.
13 Salómon konungur veitti drottningunni af Saba allt sem hún girntist og bað um, auk þess sem hann gaf henni hefðbundna konungsgjöf. Síðan sneri hún aftur og hélt til lands síns ásamt fylgdarmönnum sínum.
Auðæfi Salómons
14 Gullið, sem Salómon var fært árlega, var sex hundruð sextíu og sex talentur að þyngd. 15 Auk þess bárust honum tollar frá kaupmönnum sem fóru um landið, skattar frá verslunarmönnum, öllum konungum Arabíu og héraðsstjórunum.
16 Salómon konungur lét gera tvö hundruð stóra skildi úr slegnu gulli. Þurfti sex hundruð sikla af gulli í hvern skjöld. 17 Hann lét einnig gera þrjú hundruð minni skildi úr slegnu gulli. Fóru þrjár mínur gulls í hvern þeirra. Konungur kom skjöldunum fyrir í Líbanonsskógarhúsinu.
18 Konungur lét enn fremur gera stórt hásæti úr fílabeini og leggja það skíragulli. 19 Sex þrep voru upp að hásætinu og var efsti hluti baks þess bogadreginn. Bríkur voru báðum megin við sætið og stóð ljón við hvora brík. 20 Tólf ljón stóðu á þrepunum, sex hvorum megin. Annað eins hefur ekki verið gert í neinu öðru konungsríki.
21 Öll drykkjarker Salómons konungs voru úr gulli og öll áhöld í Líbanonsskógarhúsinu úr skíru gulli. Ekkert var úr silfri, enda var það einskis metið á dögum Salómons, 22 því að konungur átti Tarsisskip[ í förum ásamt skipum Hírams. Tarsisskipin komu þriðja hvert ár með gull og silfur, fílabein, apa og bavíana.
23 Salómon konungur var auðugri og vitrari en allir konungar heims. 24 Allur heimurinn leitaði til Salómons til þess að heyra hann tala af þeirri visku sem Guð hafði lagt honum í brjóst. 25 Ár eftir ár komu menn með gjafir sínar, gripi úr silfri og gulli, klæði, vopn, balsam, hesta og múldýr.
26 Salómon kom sér upp hervögnum og mannaði þá. Hafði hann fjórtán hundruð vagna og tólf þúsund vagnliða. Hann kom þeim fyrir í vagnliðsborgum og í Jerúsalem hjá konungi sjálfum.
27 Konungur notaði silfur eins og grjót í Jerúsalem og sedrusvið eins og mórberjafíkjuviðinn sem vex á láglendinu.
28 Hestar Salómons voru fluttir inn frá Egyptalandi og Kóe. Kaupmenn konungs keyptu þá í Kóe. 29 Vagn, sem fluttur var inn frá Egyptalandi, kostaði sex hundruð sikla silfurs og hver hestur hundrað og fimmtíu sikla. Síðan voru þeir seldir áfram til allra konunga Hetíta og konunga Arams.