III.

Hvar fyrir eg, Páll, bandingi Christi Jesú, fyrir yður heiðingja, af því þér hafið heyrt út af embætti Guðs náðar þeirri mér er til yðar gefin, það mér er kunnur orðinn þessi leyndur dómur fyrir opinberan (eftir því eg hefi áður hið allra fyrsta skrifað) það þér, ef þér læsuð það kunnið að merkja minn skilning í leyndum dómi Christi, hver ekki er forðum mannanna sonum kunnur gjörður so sem nú er hann opinberaður hans heilögum postulum og spámönnum fyrir andann: Það að hinir heiðnu eru samarfar og með innlífaðir og hluttakendur hans fyrirheita í Christo fyrir evangelium, hvers þénari eg em vorðinn eftir gáfu Guðs náðar sem mér er gefin eftir hans volduga krafti.

Mér, hinum síðasta meðal allra heilagra, er gefin þessi náð það eg kunngjörða meðal heiðinna þjóða þann órannsakanlegan ríkdóm Christi og upp að birta hverjum manni hver þar sé sameign leyndardómsins sem af veraldar upphafi hefur í Guði hulinn verið, sá alla hluti hefur skapað fyrir Jesúm Christum, upp á það að kunnug yrði nú höfðingjum og herradómum á himnum fyrir söfnuðinn sú margföld speki Guðs eftir fyrirhyggjunni frá veraldarupphafi sem hann hefur auðsýnt í Christo Jesú vorum Drottni, fyrir hvern vér höfum djörfung og aðgang í öllu trausti fyrir trúna á hann. Fyrir því bið eg það þér tregist ekki vegna minnar hörmungar sem eg þoli fyrir yður, hver yðar dýrð er. Hvar fyrir eg beygi mín kné fyrir föður vors Drottins Jesú Christi, sá sem réttur faðir er yfir allt hvað börn kallast á himnum og á jörðu, að hann gefi yður kraft eftir ríkdómi sinnar dýrðar að styrkjast fyrir hans anda í hinum innra manni og láta Christum fyrir trúna byggja í yðrum hjörtum og fyrir kærleikann innrætast og grundvallast svo að þér mættuð höndla með öllum helgum hver þar sé vídd og lengd, dýpt og hæð og að vita það að elska Christum það er betra en allt að vita so að þér uppfylldust með allsháttaðri Guðs nægð. [

En honum sem máttugur er alla hluti yfirgnæfanlegar að gjöra heldur en vér biðjum eður skiljum, eftir þeim krafti sem í oss verkar, þeim sama sé dýrð í safnaðinum, sá í Christo Jesú er, um allar aldir alda að eilífu. Amen.