V.

Þá svaraði Tóbías inn yngri föður sínum og mælti: „Allt vil eg gjöra eftir því sem þú býður, minn kærasti faðir. En eigi veit eg hvernin eg skal heimta þessa peninga. Hann þekkir mig eigi og eigi heldur þekki eg hann. Hvað skal eg færa honum til marks að hann trúi mér? So og kann eg ekki veg þangað.“ Þá svaraði faðir hans og sagði: „Eg hefi hjá mér hans handskrift. Þegar þú sýnir honum hana so mun hann strax gjalda þér peningana. Far þú nú og leita þér að trúum félaga sem ferðast þangað með þér til fulls kaups að þú fáir aftur þvílíka peninga meðan eg lifi.“

Þá gekk hinn yngri Tóbías út og fann einn fínan ungan mann standa. [ Sá hafði klætt sig og búist til að ferðast. Og hann vissi ekki að það var Guðs engill, heilsaði honum og sagði: „Hvaðan ertu að, hinn góði mann?“ Hann svaraði: „Eg er einn Ísraelsmaður.“ Tóbías sagði til hans: „Kanntu þann veg sem liggur í land Medorum?“ Hann svaraði: „Vel kann eg hann og eg hefi hann oft farið og verið til herbergis hjá bróður vorum Gabel sem býr í borg Medorum Rages, þeirri er liggur á fjalli Egbatana.“ [ Og Tóbías mælti þá: „Minn kæri, dvel litla stund svo lengi að eg segi föður mínum þetta aftur.“

Þá gekk Tóbías inn og sagði þetta föður sínum, hvað faðirinn undraðist og bað hinn unga mann að ganga inn þangað. Og hann gekk þá inn til hins gamla, heilsaði upp á hann, so segjandi: „Guð gefi þér fögnuð.“ Og Tóbías svaraði: „Hvílíkan fögnuð hefi eg þar eg sit í myrkrum og ljós himinsins sé eg ei?“ Þá mælti hinn ungi maður til hans: „Haf þolinmæði. Guð mun snarlega hjálpa þér.“

Tóbías talar þá til hans: „Viltu fylgja syni mínum í borgina Medorum Rages til Gabels? Þá vil eg gjalda þér kaup þegar þú kemur heim aftur.“ Og engillinn sagði til hans: „Eg vil fara með honum fram og aftur.“

Tóbías talar þá til hans: „Eg bið að þú segir mér af hverri ætt eður kyni þú ert.“ Hverju að engillinn Rafael svaraði: „Vertu til friðs. Nægir þér ei að þú hefur leiðtoga? Hvað gjörist þér þörf að vita hvaðan eg er að? Þó til þess að þú sért þess síður áhyggjufullur þá vil eg segja þér það: Em eg Asarías son hins mikla Ananías.“ [ Þá mælti Tóbías: „Þú ert af góðri ætt. Eg bið að þú reiðist ekki þó eg hafi spurt af þinni ætt.“ Og engillinn sagði: „Eg vil flytja son þinn heilan aftur og fram.“ Tóbías svaraði: „Farið þá. Sé Guð í fylgd með ykkur og hans engill leiði ykkur.“

Þá bjó Tóbías sig og allt það hann vildi með sér hafa og kvaddi föður sinn og móður og fór af stað með sínum förunaut. En móðir hans tók að gráta, svo segjandi: „Huggun elli okkar hefur þú við okkur skilið og í burtu sent. Eg vildi heldur að aldrei hefði verið þeir peningar sem þú hefur hann fyrir sent. Vér hefðum vel látið oss nægja með vora fátækt. Það væri nóg auðæfi ef son okkar væri hér hjá okkur.“ Tóbías sagði þá til hennar: „Gráttu ekki það sonur okkar mun heill og hraustur fara og aftur koma og þín augu munu sjá hann. Því að eg trúi að Guðs góður engill fylgi honum og muni öllum þeim hlutum vel skikka sem hann áformar so að með fagnaði mun hann aftur til okkar koma.“ Þá hætti móðir hans að gráta og þagnaði.