VII.

Viti þér ekki, bræður, (því við þá tala eg sem lögmálið vita) það að lögmálið drottnar yfir manninum æ so lengi hann lifir? [ Því að sú kona sem manni er undirgefin hún er að manninum lifanda lögmálinu undirvorpin. En ef hennar maður deyr þá er hún laus af því lögmáli sem manninn áhrærir. Nú ef hún er hjá öðrum að manninum lifanda verður hún hórkona kölluð. En ef hennar maður deyr þá er hún frelsuð af lögmálinu það manninn áhrærir so að hún er eigi hórkona þó hún sé hjá öðrum manni.

Líka so eru þér, bræður mínir, deyddir lögmálinu fyrir Krists líkama so að þér séuð hjá öðrum, einkum hjá þeim sem af dauða er uppvakinn upp á það vér færum Guði ávöxt. Því þá vér vorum í holdinu voru syndsamlegar girndir í holdinu (þær sér hreyfðu upp fyrir lögmálið) í vorum limum kröftugar dauðanum ávöxt að færa. En nú eru vér lausir af lögmálinu og frá því deyddir sem oss hélt hertekna so að vér þjónum í nýjungu andans en ekki í fornri veru bókstafsins.

Hvað skulu vér þá framar segja? [ Er lögmálið synd? Fjarri er því! Heldur það: Eg kenni ei syndina nema fyrir lögmálið. Því eg vissa ei hvað girnd væri ef lögmálið hefði ei sagt: „Ei skaltu girnast.“ En er syndin tók tilefni af boðorðinu og ól upp í mér allsháttaðar girndir. Því að án lögmálsins var syndin dauð. En eg lifða forðum án lögmáls. Og er boðorðið kom endurlifnaði syndin en eg deyða. [ Og það skeði so að það boðorð varð mér að dauða sem mér var til lífs gefið. Því að syndin tók tilefni af boðorðinu, tældi mig og deyddi fyrir það sama boðorð. Lögmálið sjálft er þó sennilega heilagt, boðorðið er og heilagt, gott og réttvíst.

Er þá það sem gott er mér að dauða vorðið? Fjarri er því. Heldur so það syndin auglýstist það hún væri synd og það hún hefði mér fyrir það góða dauða aflað so að syndin yrði ofurmáta syndsöm fyrir boðorðið. Því vér vitum það að lögmálið er andlegt en eg em kjötlegur, undir syndina seldur. Af því eg veit eigi hvað eg gjöri. Því að eg gjöri eigi hvað eg vil heldur það eg hata, það gjöri eg. En fyrst eg gjöri það hvað eg vil ei þá samþykki eg það að lögmálið sé gott. So gjöri eg nú þá eigi það sama heldur sú synd sem í mér byggir. Því eg veit að í mér, það er í mínu holdi, byggir ekkert gott. Viljann hefi eg en að fullkomna hið góða finn eg ei. Því að það góða sem eg vil gjöri eg eigi heldur það vonda, hvað eg vil eigi, það gjöri eg. En fyrst eg gjöri það hvað eg vil eigi, þá gjöri eg eigi það sama heldur sú synd sem í mér byggir.

So finneg í mér það lögmál þá eg vil gjöra hið góða loðir við mig það vonda. Því að mig lystir til Guðs lögmáls eftir hinum innra manninum. En eg sé þó annað lögmál í mínum limum það er í mót stríðir mínu hugskotslögmáli og færir mig herleiddan í syndarinnar lögmál hvert að er í mínum limum. Eg vesall maður! Hver mun frelsa mig af líkama þessa dauðans? Eg þakka Guði fyrir Jesúm Christum Drottin vorn. So þjóna eg nú í mínu hugskoti Guðs lögmáli en í holdinu syndarinnar lögmáli.