Bæn Manasses konungsins Júda þá hann var í fjötrum haldinn í Babýlon

Drottinn almáttugur Guð vorra feðra Abrahams, Ísaaks og Jakobs og þeirra réttferðugs sæðis, þú sem skapað hefur himin og jörð og allt það sem þar er inni, þú sem hefur innsiglað með þínu boði og hefur undirdjúpið innilukt og innsiglað til dýrðar þínu ógurlega og dýrðlega nafni so að hver maður óttist þig og hræðist þitt mikla dýrðarveldi, því að þín reiði er óbærileg hvarð með þú ógnar þeim syndugu en miskunnsemi þinna fyrirheita er ómælanleg og órannsakanleg. Því að þú ert Drottinn, sá allra hæsti yfir allri jarðarkringlunni, mikillrar þolinmæði og mjög miskunnsamur og straffar ógjarna mennina og hefur af þinni gæsku fyrirheitið iðran til fyrirgefningar syndanna.

En af því þú ert Guð þeirra réttferðugu þá hefur þú ekki sett iðran þeim réttlátu Abraham, Ísaak og Jakob, hverjir ekki syndguðust á móti þér. En eg hefi syndgað og mínar syndir eru fleiri en sandur á sjávarbotni og eg er beygður í þungum járnviðjum og hef öngva hvíld af því að eg uppvakti þína reiði og gjörði margt illt fyrir þér þar með að eg uppbyrjaði slíkar svívirðingar og svo margar hneykslanir.

Þar fyrir beygi eg nú kné míns hjarta og bið þig, Drottin, um náð. Ó Drottinn, ég hef syndgast og grátbæni þig: Fyrirgef þú mér. Ó Drottinn, fyrirgef þú mér það. Lát mig ei fyrirfarast í mínum syndum og lát straffið ekki eilíflega liggja á mér heldur hjálpa mér ómaklegum eftir þinni mikilli miskunnsemi. Þá vil eg vegsama þig alla mína lífdaga. Því að þig lofa allir himinsins herskarar og þig skulu menn prísa ætíð og eilíflega. Amen.

Endir bókanna þess Gamla testamentisins