XXXVII.

Og hönd Drottins kom yfir mig og flutti mig í anda Drottins og setti mig upp á einn víðan völl sem fullur lá af dauðra manna beinum og hann leiddi mig um hann allan og sjá þú, þar lágu ofsa mörg bein á vellinum og sjá þú, þau voru mjög skinin. Og hann sagði til mín: Þú mannsins son, meinar þú nokkuð að þessi bein skuli verða lifandi? Og eg sagði: Drottinn Drottinn, það veistu vel.

Og hann sagði til mín: Spáðu af þessum beinum og seg þú til þeirra: Þér skinin bein, heyrið orð Drottins! So segir Drottinn Drottinn af þessum beinum: Sjá þú, eg vil innsenda einn anda í yður so að þér skuluð lifandi verða. Eg vil gefa yður æðar og sinar og láta kjöt vaxa yfir yður og draga hörund þar yfir og gefa yður anda so að þér skuluð verða lifandi aftur. Og þér skuluð formerkja að eg er Drottinn.

Og eg spáði so sem mér var bífalað og sjá þú, þar varð hark þá að eg spáði og sjá þú, að þau hrærðu sig. Og beinin komu til samans aftur hvert til síns liðar. Og eg sá og sjá þú, að þar uxu æðar og kjöt á þeim og hann dró hörund yfir þau. Þó var þar enn nú enginn andi í þeim.

Og hann sagði til mín: Spáðu til vindsins, spá þú, mannsins son, og seg þú til vindsins: Svo segir Drottinn Drottinn: Vindur, kom þú hingað úr fjórum áttunum og blás á þessa hina dauðu so að þeir verði lifandi. Og eg spáði so sem hann skipaði mér. Þá kom þar einn andi í þá og þeir lifnuðu aftur og þeir reistu sig upp á sínar fætur. Og það var mjög mikill her.

Og hann sagði til mín: Þú mannsins son, þessi beinin eru gjörvallt Ísraels hús. Sjá þú, nú segja þeir: „Vor bein eru skinin og vor von er fortöpuð og það er útgjört um oss.“ Þar fyrir spáðu og segðu til þeirra: So segir Drottinn Drottinn: Sjá þú, eg vil opna yðar grafir og eg vil útleiða yður, mitt fólk, af þeim og innflytja í Ísraelsland. Og þér skuluð formerkja að eg er Drottinn þá að eg hefi opnað yðrar grafir og útleitt yður, mitt fólk, af þeim. Og eg vil gefa minn anda í yður so að þér skuluð verða lifandi aftur og eg vil innsetja yður í yðart land. Og þér skuluð formerkja að eg er Drottinn. Eg tala það og gjöri það einnin, segir Drottinn.

Og orð Drottins skeði til mín og sagði: Þú mannsins son, tak þér eitt kefli og skrifa þar upp á Júda- og Ísraelsbörn og þeirra samlagsmenn. Og tak enn nú eitt annað kefli og skrifa þar upp á Jósefs (sem er Efraíms) kefli og alls Ísraels húss og þeirra samlagsmenn. Og legg það eina til samans við hið annað að það verði so sem eitt trékefli í þinni hendi. Nær eð þitt fólk talar nú til þín og segir: „Viltu ekki kunngjöra oss það hvað er þú meinar þar með?“ þá seg þú til þeirra: So segir Drottinn Drottinn: Sjá þú, eg vil taka það trékeflið Jósefs, sem er í Efraíms hendi, meður sínum samlagsmönnum, Ísraels slekti, og eg vil leggja þá til keflisins Júda og gjöra þar so eitt kefli af og þeir skulu so vera eitt í minni hendi. Og þú skalt svo halda á þeim trékeflunum í þinni hendi á hver eð þú hefur skrifað, svo að þeir sjái það.

Og þú skalt segja til þeirra: So segir Drottinn Drottinn: Sjá þú, eg vil sækja aftur Ísraelsbörn til þeirra heiðingjanna til hverra eð þeir eru í burt farnir og eg vil samansafna þeim úr öllum áttum og innflytja þá aftur í þeirra land. Og eg vil gjöra eitt fólk af þeim báðum í landinu, upp á Ísraels fjallbyggðum, og þeir skulu allir til samans hafa einn einka konung og þeir skulu ekki meir skiptast í tvennar þjóðir, eigi heldur í tvö kóngaríki. Svo skulu þeir og einnin ekki meir saurga sig með sínum afguðum og svívirðingum og allsháttuðum syndum. Eg vil hjálpa þeim út af öllum áttum í hverjum þeir hafa syndgast og eg vil hreinsa þá og þeir skulu vera mitt fólk og eg vil vera þeirra Guð.

Og Davíð, minn þénari, skal vera þeirra konungur og einn einkanlegur hirðir allra þeirra. Og þeir skulu ganga í mínum réttindum og halda mín boðorð og gjöra þar eftir. Og þeir skulu búa í því landinu aftur sem eg gaf mínum þénara Jakob, í hverju það yðrir forfeður þeir bjuggu. Þeir og þeirra börn og barnabörn skulu búa þar inni eilíflegana og Davíð, minn þénari, skal vera þeirra höfðingi eilíflegana. Og eg vil gjöra friðarins sáttmála viður þá, það skal vera einn eilífur sáttmáli við þá, og eg vil efla þá og margfalda og minn helgidómur skal vera á meðal þeirra eilíflegana. Og eg vil búa á meðal þeirra og eg vil vera þeirra Guð og þeir skulu vera mitt fólk. So það einnin heiðnar þjóðir skulu formerkja að eg er Drottinn sem Ísrael gjörir heilagan þá eð minn helgidómur verður eilíflegana á meðal þeirra.