X.

Eftir þetta tók Samúel eitt glas fullt með oleum og hellti yfir hans höfuð, minntist við hann og sagði: „Sjá þú, að Drottinn hefur smurt þig til eins höfðingja yfir sína erfð. [ Og sem þú skilur nú við mig þá muntu finna tvo menn hjá Rakels gröf í landamerkjum Benjamín í Selsa, þeir munu segja þér að ausnurnar eru fundnar þær þú leitaðir eftir. Og sjá, þinn faðir hefur aflagt áhyggju asnanna en er nú hugsjúkur fyrir ykkur og segir: Hvað skal eg til gjöra, minn son kemur ekki? En sem þú snýr framvegis þar frá þá muntu koma til Tabór að einni eik. Þar munu þrír menn mæta þér hverjir upp vilja fara og fórnir færa Guði í Betel. Einn hefur þrjú kið en annar þrjár brauðkaukur en þriðji flösku með vín. Og þeir munu heilsa þér vinsamlega og gefa þér tvö brauð, þau skalt þú meðtaka af þeirra höndum.

Þessu næst munt þú koma upp á Guðs hæð þar sem eru herbúðir þeirra Philistinorum. En þá þú kemur í staðinn þá mun flokkur spámanna mæta þér þeir sem koma ofan af hæðinni og þar mun ganga fyrir þeim psalterium, bumbur, pípur og hörpur og þeir munu vera að spá. Og Guðs andi mun koma yfir þig og þú skalt spá með þeim og svo skalt þú verða að öðrum manni.

Og sem þessi teikn eru nú framkomin þá gjör hvað þér að höndum kemur því að Guð er með þér. Og þú skalt fara ofan undan mér til Gilgal. Sjá, þangað vil eg koma ofan til þín til að offra þar brennifórnum og þakkaroffri. Enþú skalt bíða í sjö daga þar til eg kem til þín og kunngjöri þér hvað þú skalt gjöra.“ Og sem Saul sneri sér frá Samúel og vildi fara sína leið þá gaf Guð honum annað hjarta og öll þessi teikn komu fram á þeim sama degi.

Og sem þeir komu að hæðinni þá kom einn spámannaflokkur í móti honum. Og Guðs andi kom yfir hann svo að hann spáði með þeim. En sem þeir allir sáu hann sem hann áður þekktu að hann spáði með spámönnum þá sagði hver til annars: „Hvað kemur að syni Kís? Hvort er Saul í tölu spámanna?“ Og einn af þeim svaraði og sagði: „Hver er þeirra [ faðir?“ Þaðan er komið það máltæki: „Er Saul á meðal spámanna?“ En sem hann hafði útspáð þá kom hann upp á hæðina.

Föðurbróðir Saul sagði til hans og til hans sveins: „Hvert fóruð þið?“ Þeir svöruðu: „Við leituðum að ausnum en sem við fundum þær hvergi komum við til Samúels.“ Þá svaraði föðurbróðir Saul: „Seg mér, hvað sagði Samúel til ykkar?“ Saul svaraði sínum föðurbróður: „Hann sagði okkur að ausnurnar væru fundnar.“ En eigi sagði hann honum hvað Samúel hafði mælt um kóngdóminn.

Eftir þetta lét Samúel kalla fólkið saman fyrir Drottin í Mispa og sagði til Israelislýðs: „Þetta segir Drottinn Ísraels Guð: Eg færða Ísrael af Egyptalandi og frelsaði yður af höndum þeirra egypsku og af höndum allra þeirra kóngaríkja sem yður vildu þvinga. Og þér hafið útskúfað yðrum Guði sem yður frelsað hefur af allri yðar ólukku og hörmungum og þér segið til hans: Set einn kóng yfir oss. [ Nú vel, gangið þá fram fyrir Drottin, hver kynkvísl og kynþáttur eftir annan.“

En sem Samúel hafði samankallað allar Israelis ættkvíslir þá féll hlutur yfir Benjamínætt. Og sem hann leiddi ætt Benjamín fram, hverja kynslóð eftir aðra, þá féll hluturinn yfir Matríætt og yfir Saul, son Kís. Og þeir leituðu eftir honum og fundu hann ekki. Þá spurðu þeir Drottin framar meir: „Mun hann enn koma hingað?“ Drottinn svaraði: „Sjá, hann hefur falið sig undir kerinu.“ Svo fóru þeir þangað og fundu hann og leiddu hann þaðan. [ Og sem hann gekk á milli fólksins þá var hann höfðinu hærri en allt fólk. Og Samúel sagði til alls fólksins: „Þar sjái þér þann sem Drottinn útvaldi því að enginn er honum líkur á meðal alls fólksins.“ Þá þaut upp allt fólkið með einu hljóði og sagði: „Lukku fái kóngur (vor)!“

Samúel sagði fólkinu allan kóngdómsins rétt og skrifaði í eina bók og lagði hana fyrir Drottin. Síðan lét Samúel allt fólkið fara í burt, hvern í sitt hús. Saul gekk og heim til Gíbea og einn hlutur hersins gekk með honum, hverra hjörtu að Guð hrærði. [ En nokkrir lausingjar sögðu: „Hvað skal þessi hjálpa oss?“ Og þeir foröktuðu hann og færðu honum öngvar gáfur. En hann lét sem hann heyrði það ekki.