XV.

Og þeir nokkrir sem ofan komu af Judea lærðu bræðurna það: [ „Nema ef þér látið umskera yður eftir siðvenju Moyses þá kunni þér ei sáluhólpnir að verða.“ Og af því gjörðist þar og ósamþykki ei lítið. Páll og Barnabas settu sig fast í móti þeim. Þá skikkuðu þeir Pál og Barnabam til og nokkra aðra af þeim að þeir færi upp til postulanna og yfirprestanna í Jerúsalem um þetta þrætumál. Og sem þeir voru af safnaðinum á leið leiddir gengu þeir um Phenicen og Samariam, segjandi heiðinna þjóða umvendan og gjörðu öllum bræðrum mikinn fögnuð. En þá þeir komu til Jerúsalem meðtókust þeir af söfnuðinum og postulunum og so af öldungunum. Og þeir kunngjörðu þeim frá hversu mikið Guð hefði gjört meður þeim. Þá risu upp nokkrir út af Phariseis selskap þeir við trú höfðu tekið, segjandi að það byrjaði að umskera þá og buðu að halda Moyses lögmál. En postularnir og prestarnir komu til samans að þeir liti á þetta málefni.

Og er mikil þráttan hafði verið stóð Pétur upp og sagði til þeirra: [ „Góðir menn og bræður, þér vitið að fyrir langri ævi það Guð hefur útvalið vor á milli að heiðnir menn skyldu heyra fyrir minn munn guðsspjallsins orð og so að trúa. Og Guð sá hjörtun kennir bar vitnisburð um gefandi þeim heilagan anda so sem oss og gjörði öngvan mun á milli þeirra og vor, hreinsandi með trú vor hjörtu. Fyrir hvað freisti þér nú Guðs það þér leggið ok yfir lærisveinanna háls hvert að ei gátu borið hverki vær né feður vorir? Heldur trúum vér að frelsast fyrir náð Drottins Jesú Christi með sama hætti og þeir.“ Þá þagði og allur múgurinn og hlýddu þeim Barnaba og Páli er þeir sögðu frá hver teikn og stórmerki að Gðu hafði gjört meðal heiðinna þjóða fyrir þá.

Eftir það þeir þögnuðu svaraði Jakob og sagði: „Þér menn, góðir bræður, heyrið mig. Símon sagði fram með hverjum hætti Guð hafði í fyrstu vitjað og meðtekið sér fólk út af heiðnum þjóðum í sínu nafni. Og þessu samhljóða spámannaorðin so sem að skrifað er: Eftir þetta mun eg aftur koma og uppbyggja tjaldbúð Davíðs hver að fallin er og hennar niðurbrot skal eg endurbyggja og hana upprétta so að þeir menn sem eftirblífa skulu Drottins leita og þar til allar heiðnar þjóðir yfir hverjar mitt nafn ákallað er, segir Drottin, sá er þetta gjörir allt. [ Guði eru öll sín verk kunnig í frá veraldar upphafi. Fyrir því úrskurða eg það vér gjörum öngva þvingan þeim sem snúast frá heiðni til Guðs heldur skrifum þeim til að þeir haldi sig frá óhreinleik skurgoðadýrkunar og frá frillulifnaði og köfnuðu og af blóði. [ Því að Moyses hefur fyrir langri ævi tilsett í öllum borgum það hann skuli prédikast í samkundum, hvar hann verður og lesinn alla þvottdaga.“

Það hagaði þá postulunum og öldungunum með öllum söfnuðinum að þeir útveldu af þeim menn og sendi til Antiochiam með Páli og Barnaba, tileinkaðan Judam þann kallaður var Barsabas og Silam, inir æðstu menn meðal bræðranna, og sendu sitt rit fyrir þeirra hendur með þessu atkvæði:

„Vér postular, prestar og bræður heilsum þeim bræðrunum er út af heiðingjum og í Antiochia, Syria og Cilicia eru. [ Með því að vér höfum heyrt að nokkrir af oss eru útgengnir sem hafa sturlað yður með orðum og flekkað andir yðrar, bjóðandi yður að umskerast og lögmálið að halda, hverjum vér höfum ekki slíkt boðið, því hefur oss litist með eindrægni samankomnum að senda til yðar valinkunna menn með vorum elskulegum Barnaba og Páli hverjir menn að út hafa sett sínar sálir fyrir nafn Drottins vors Jesú Christi. Fyrir því sendum vér Judam og Silam hverjir eð sjálfir mega með orðum segja yður hið sanna. [ Því að það líst heilögum anda og oss að vér skyldum öngvar byrðir leggja á yður fyrir utan þessa þarflega hluti það þér haldið yður af því sem skúrgoðum er fórnað og blóði og frá köfnuðu og frá frillulífi, af hverju ef þér varðveitið sjálfa yður þá gjörið þér vel. Lifið sælir.“

Þá þessir voru af stað sendir komu þeir til Antiochiam og samansöfnuðu safnaðinum og fengu þeim bréfið. [ Þá þeir lásu það urðu þeir af þeirri huggan glaðir. En Júdas og Sílas, hverjir að spámenn voru, áminntu bræðurnar með nógum orðum og styrktu þá. Og þeir dvöldust þar um stundarsakir og urðu síðan með friði af bræðrunum sendir til postulanna aftur. En Sila leist á að vera þar. Páll og Barnabas dvöldust í Antiochia, sendu og boðuðu samt öðrum fleirum orð Drottins.

En eftir nokkra daga sagði Páll til Barnaba: [ „Förum við aftur og vitjum bræðra vorra um allar borgir í hverjum við höfum boðað orð Drottins, hvernin að þeir haga sér.“ En Barnabas gaf til ráð að þeir tæki með sér Johannem sá er auknefndist Markús. En Páll vildi ekki að sá sem frá þeim hafði snúið úr Pamphylia og gekk eigi með þeim í verk skyldi meðfylgja. Og svo hart sundurþykki varð þeirra á milli að hver skildi við annan. [ Og Barnabas tók að sönnu Marcum með sér og sigldi í Cipriam en Páll kjöri sér Silam og var af bræðrunum Guðs náð bífalaður. Og hann gekk um Syriam og Ciliciam styrkjandi söfnuðina.