VI.

Hann gekk út þaðan aftur og fór til sinnar fósturjarðar. [ Hans lærisveinar fylgdu honum eftir. Og er þvottdagur kom þá tók hann til að kenna í þeirra samkunduhúsi. Og margir af þeim sem það heyrðu undruðust hans kenning og sögðu: „Hvaðan kemur þessum allt þetta? Eða hver er sú speki sem honum er gefin og slík kraftaverk er gjörast fyrir hans hendur? Er þetta ekki sá trésmiður, sonur Maríu, bróðir Jakobs, Jósefs, Jude og Símonar? Eru hans systur eigi hér með oss?“ Og þeir skammfylldust við hann. En Jesús sagði til þeirra að spámaðurinn væri eigi án vegsemdar nema á sinni ættleifð og hjá sínu hyski og kynslóð. Hann fékk þar og ekkert kraftaverk gjört nema yfir fáeina sjúka þá lagði hann hendur og læknaði þá. Og hann undraðist þeirra vantrú.

Hann gekk og kringum þau kauptún er þar stóðu í þyrping og kenndi. [ Og hann kallaði saman þá tólf og tók að senda þá tvo og tvo til samans, gaf þeim og vald yfir óhreinum öndum og bauð þeim að bera ekkert með sér á veg nema einn staf, eigi pung, eigi brauð, eigi pening á linda, heldur klæddir skófötum og það þeir klæddust eigi tveimur kyrtlum og sagði til þeirra: [ „Í hvert það hús þér gangið inn þá blífið þar til þess að þér farið þaðan. Og hverjir eð eigi meðtaka yður eða heyra yður eigi þá gangið út þaðan og hristið duft af fótum yðar til vitnisburðar yfir þá. Eg segi yður og fyrir fram að líðanlegra mun vera á dómadegi Sodoma og Gomorra en þeim stað.“

Þeir gengu út og prédikuðu það menn skyldu gjöra iðran og ráku út marga djöfla, smurðu og marga sjúka með viðsmjöri og læknuðu þá so.

Heródes kóngur fékk og að heyra það (því að hans nafn gjörðist víðfrægt). [ Hann sagði: „Jóhannes baptista er og upp aftur risinn af dauða og því gjörast slík kraftaverk af honum.“ En aðrir sögðu það hann væri Elías en sumir sögðu að hann væri spámaður elligar einn af þeim spámönnum. Og er Heródes heyrði þetta sagði hann: „Sá Jóhannes sem eg lét afhöfða hann er nú upprisinn af dauða.“

Því að Heródes hafði sent út að grípa Johannem og lukt hann í myrkvastofu fyrir sakir Herodiadis bróðurkonu sinnar. [ Því að hann hafði gifst henni. En Jóhannes sagði til Heródes: „Eigi leyfist þér að hafa bróðurkonu þína.“ [ Því veitti Heródes honum umsát og vildi láta aflífa hann en gat það þó eigi. Heródes óttaðist og Johannem því hann vissi hann vera helgan mann og réttlátan, varðveitti hann og hlýddi honum í mörgum greinum og heyrði honum gjarnan.

Þar hlotnaðist og so tiltækilegur dagur að Heródes gjörði á sinni ártíð eina kveldmáltíð höfðingjum og höfuðsmönnum og hinum fremstu mönnum úr Galilea. Þá gekk dóttir Herodiadis þar inn og dansaði og það þóknaðist Herode og þeim er með honum sátu til borðs. Þá sagði konungurinn til stúlkunnar: „Bið af mér hvers þú vilt og eg skal veita þér.“ Og hann svór henni einn eið að: „Hvers þú beiðist af mér það skal eg gefa þér þótt það sé helftin af mínu ríki.“ Hún gekk út og sagði til móður sinnar: „Hvers skal eg biðja?“ En hún sagði: „Um höfuð Johannis baptista.“ Hún gekk þá strax inn með skunda til kóngsins, bað hann og sagði: „Eg vil að þú gefir mér nú strax höfuð Johannis baptista á diski.“ Kóngurinn hryggðist þá við. Þó fyrir eiðsins sakir og þeirra sem til borðsins sátu með honum þá vildi hann ekki hrella hana heldur sendi hann böðulinn út og bauð að hann færði hans höfuð á diski. Og hann afhöfðaði hann í myrkvastofunni og bar hans höfuð á diski og fékk það stúlkunni en stúlkan fékk það móður sinni. Og er það heyrðu hans lærisveinar komu þeir og tóku hans líkama og lögðu hann í jörð.

Og er postularnir komu saman aftur til Jesú og kunngjörðu honum allt hvað þeir höfðu gjört og kennt. [ Og hann sagði til þeirra: „Komið yður í einhvern afvikinn stað í eyðimörku og hvílist þar litla stund.“ Því að margir voru þeir sem gengu frá og til so þeir höfðu ekki rúm til að eta. Hann sté því á skip og fór afsíða í eyðimörku. Og er fólkið sá þá í burt fara þekktu hann margir og hlupu þangað á fæti úr öllum stöðum og komu fyrr en þeir og fóru til hans. [ En er Jesús gekk fram og sá þar margt fólk þá vorkynnti hann því því að þeir voru sem aðrir sauðir er öngvan hafa hirðir. Og hann tók til að kenna þeim margt.

Og þá er áliðið gjörðist gengu lærisveinarnir til hans og sögðu: [ „Þessi staður er í eyði og framorðið er. Því lát þá ganga burt í hin næstu þorp og kauptún að þeir kaupi sér þar brauð því þeir hafa ekkert að eta.“ En Jesús svaraði og sagði til þeirra: „Gefi þér þeim að eta.“ Og þeir sögðu til hans: „Skulu vær þá fara og kaupa fyrir tvö hundruð peninga brauð og gefa þeim að eta?“ En hann sagði þá til þeirra: „Hversu mörg brauð þá hafi þér? Gangið til og skoðið.“ Og þá er þeir höfðu það skoðað sögðu þeir: „Fimm og tvo fiska.“ Og hann bauð þeim að þeir settu sig allir niður eftir borðsiðum á grænt gras. Og þeir settu sig þá niður í riðlum, hundrað og hundrað saman, fimmtígir og fimmtígir saman. [ Og hann tók þau fimm brauð og tvo fiska, leit upp til himins, blessaði og braut brauðin, fékk sínum lærisveinum að þeir legðu fyrir þá og þeim tveimur fiskum skipti hann og meður öllum. Og allir þeir átu og urðu saddir. Þeir tóku þá upp leifarnar, tólf karfir fullar, og líka af fiskunum. En þeir voru sem etið höfðu fimm þúsundir manna.

Og jafnsnart þá dreif hann sína lærisveina til að þeir færi á skip og færu fyrir honum yfir um sjóinn til Betsaída á meðan hann skildi fólkið við sig. [ Og þá er hann hafði það frá sér látið fór hann upp á fjallið að biðjast fyrir. Og þá er kvelda tók var skipið mitt á sjónum en hann var einn á landi. Og hann sá þá erfiðandi í róðri því að vindurinn var í móti þeim. Og nær um fjórðu eykt nætur þá fór hann til þeirra gangandi á sjánum. [ Og hann lést vilja ganga fram hjá þeim. Og þeir sáu hann ganganda á sjónum. Ætluðu þeir skrímsl vera mundi og kölluðu upp því að þeir sáu hann allir og urðu óttaslegnir. En strax þá talaði hann við þá og sagði til þeirra: „Verið óhræddir, eg eg hann, óttist eigi.“ Og hann sté þá á skipið til þeirra og vindinn lygndi. Og þeir óttuðust þá enn meir með sjálfum sér og undruðust. Því að þeim skildist enn eigi af brauðunum og þeirra hjörtu voru forblinduð.

Og er þeir voru yfir um farnir komu þeir í landið Genesaret og lentu þar. [ En er þeir stigu af skipinu þekktu þeir hann strax, hlupu og út í öll umliggjandi héröð, tóku til og fluttu saman þar um kring sjúka menn á sængum. Og hvar helst þeir heyrðu hann vera og hvar er hann gekk inn í kauptún, þorp og staði, þá lögðu þeir sjúka menn á strætin og báðu hann að þeir mættu snerta fald hans fata. Og allir þeir er hann snertu þá urðu heilbrigðir.