Og Drottinn talaði við Mósen og sagði: „Seg til Arons og hans sona að þeir [ haldi sig frá því helguðu Ísraelissona, það þeir helga mér, og vanhelgi ekki mitt heilaga nafn. Því ég er Drottinn. So segðu þeim nú þetta og þeirra niðjum: Hvör af yðar ætt sem framgengur til þess sem heilagt er og Ísraelissynir hafa fórnfært Drottni og saurgar sig so af því sama, hans sál skal afmást frá mínu andliti. Því ég er Drottinn.

Hvör sem er líkþrár af Arons kyni eða hefur nokkra afrás af sínu holdi, hann skal ekki eta af því heilaga fyrr en hann er orðinn hreinn. Hvör sem snertir nokkurn óhreinan líkama eða lætur sitt sáð frá sér í svefni, og hvör þar snertir við nokkurn orm sem honum er óhreinn, eður eirn maður sem fyrir honum er saurugur, og allt það sem hann að gjöra óhreinan, hvör sál sem snertir við nokkru af þessu, hún er óhrein til kvelds og skal ekki eta af því heilaga, heldur hann skal fyrst lauga sinn líkama í vatni og þá sólin er undirgengin og hann er orðinn hreinn þá má hann eta þar af, því það er hans atvinna. Hann skal ekki eta af nokkru hræi eða af því sem slitið er af villudýrum so hann verði ekki óhreinn af því. Því ég er Drottinn. Þar fyrir skulu þér halda mínar skikkanir, so þeir hlaði sig ekki syndunum og deyi af því þá þeir saurga sig. Því ég er Drottinn sem helgar þá.

Og þar skal enginn annarlega eta af því heilaga, hvörki prestsins hjú né hans daglaunamenn. En ef presturinn hefur keypt nokkra sál fyrir sína peninga, hún má eta þar af, og það sem fæðist í hans húsi, það má og eta af hans brauði. En verði nokkur prestsdóttir eiginkona nokkurs framandi manns þá skal hún ekki eta af heilögu upplyftingaroffri. En sé hún ekkja eða útrekin frá manni og hefur ekkert sæði og kemur þó aftur til síns föðurs húss, þá skal hún eta af síns föðurs brauði so sem þá hún var jómfrú. En enginn framandi skal eta þar af.

En ef nokkur etur óvitandi af því heilaga, hann skal leggja þann fimmta part þar til og gefa prestinum það með því heilaga, so þeir vanhelgi ekki það heilaga Ísraelssona, það þeir upplyfta fyrir Drottni, so þeir þyngi sig ekki sjálfa með sökum og misgjörningum þá þeir eta þeirra ið heilaga. Því ég er Drottinn sem þá helgar.“

Og Drottinn talaði við Mósen og sagði: „Seg þú Aron og hans sonum og öllu Ísraelisfólki, að hvör Ísraelíti eða framandi í bland Ísrael sem gjöra vill sitt offur, hvört heldur það er heit eða af lostugum vilja, og vill hann gjöra Drottni eitt brennioffur að þóknast honum þar með, þá skal það vera kallkyns, lastalaust, af nautum, sauðum eða geitum. [ Þér skuluð öngvu offra því sem nokkurn laust eða lýti hefur á sér, því það verður ekki þakknæmt af yður.

Og hvör hann vill færa Drottni þakklætisoffur, eitt sérlegt heit eður af sínum lostugum vilja, af nautum eður sauðum, það skal vera lastalaust so það verði þakknæmilegt, það skal öngvan löst hafa. Sé það blint eða beinbrotið eða magurt eða bólgið eða kláðugt, þá skulu þér ekki offra það Drottni og eigi heldur gefa neitt offur af soddan á altari Drottins.

Þann uxa eður sauð sem hefur nokkurn ofskapaðan eða vanskapaðan lim máttu offra af lostugum vilja. En í heit er það ekki þakknæmilegt. Þú skalt og ekki heldur offra Drottni því sem er marið eða í sundurrifið eða í sundurslitið eða sárt gjört. Þér skuluð ekki gjöra svoddan í yðar landi. Þú skalt og ekki taka soddan af hendi þess framanda hjá yður að offra því með Guðs yðars brauði, því það dugir ekki og hefur lýti. Þar fyrir er það ekki þakknæmt fyrir yður.“

Og Drottinn talaði við Mósen og sagði: „Þá eitt naut, lamb eða kið fæðist, þá skal það vera í sjö daga hjá sinni móður og á þeim áttunda degi og þar eftir má það offrast Drottni og so er það þakknæmt. Hvort það er heldur naut eður sauður þá skal ekki slátra því á einum sama degi og með sínu afkvæmi.

En þá þér offrið Drottni einu lofgjörðaroffri sem þakknæmt skal vera fyrir honum, þá skulu þér eta það þann sama dag og leyfa ekkert til morguns. Því ég er Drottinn. Þar fyrir haldið mín boðorð og gjörið þar eftir þeim, því ég er Drottinn, og vanhelgið ekki mitt nafn so ég megi vera helgaður á millum Ísraelssona, því ég er Drottinn sá yður helgar, sem útleiddi yður af Egyptalandi að ég vildi vera yðar Guð. Ég er Drottinn.“