X.

Róbóam fór til Síkem því að allur Ísrael var þar kominn að taka hann til kóngs. [ En sem Jeróbóam son Nebat sem var í Egyptalandi heyrði það (því að hann hafði flúið þangað undan Salómon) þá kom hann aftur af Egyptalandi. [ Og þeir sendu boð og létu kalla hann. Og Jeróbóam kom með öllum Ísrael og talaði við Róbóam og sagði: „Þinn faðir lagði þungt ánauðarok á oss. Svo gjör þú nú þá hörðu ánauðarþjónustu þíns föðurs og hans þunga ok nokkrum mun léttara sem hann lagði á oss. Þá viljum vér þjóna þér.“ Og hann sagði til þeirra: „Eftir þrjá daga komið aftur til mín.“ Og fólkið gekk í burt.

Og Róbóam ráðgaðist um við þá öldunga sem staðið höfðu fyri hans föður Salómon meðan hann lifði og sagði: [ „Hvaða ráð gefi þér hvert svar að eg skuli gefa þessu fólki?“ Þeir svöruðu og sögðu: „Ef þú sveigir til við þennan lýð og talar linlega við þá og með mjúkum orðum þá verða þeir alla ævi þér undirgefnir.“ En hann fyrirlét öldunganna ráð sem þeir gáfu honum og ráðgaðist um við þá æskumenn sem upp höfðu vaxið með honum og stóðu fyrir honum og sagði: „Hvaða ráð leggi þér að eg skuli svara þessu fólki sem talaði við mig og sagði: Gjör það ok léttara sem þinn faðir lagði á oss?“ En þeir æskumenn sem upp voru vaxnir með honum svöruðu og sögðu: [ „Svo skalt þú segja til fólksins sem talað hefur við þig og sagt: Þinn faðir gjörði vort ok of þungt. Gjör þú oss það léttara, þá seg þú so: Minn hinn minnsti fingur skal vera þykkri en míns föðurs lendar. Hafi minn faðir lagt þungt ok á yður þá skal eg gjöra það enn þyngra. Minn faðir lamdi yður með svipum en eg vil slá yður með höggormum.“

Nú sem Jeróbóam kom aftur og allt fólkið á þeim þriðja degi til Róbóam eftir því sem kóngurinn hafði boðið og sagt: „Komið aftur til mín á þeim þriðja degi“ þá svaraði kóngurinn þeim harðlega. Og Róbóam kóngur yfirgaf öldunganna ráð og talaði við þá so sem þeir æskumenn ráðlögðu og sagði: „Hafi minn faðir gjört yðvart ok þungt þá vil eg gjöra það enn þyngra. Minn faðir agaði yður með svipum en eg vil slá yður með höggormum.“ Og kóngurinn hlýddi ekki fólkinu því að það var svo tilsett af Guði upp á það að Drottinn vildi staðfesta sitt orð það hann talaði við Ahía af Síló til Jeróbóam sonar Nebat. [

Og sem allur Ísrael merkti að kóngurinn vildi ekki hlýða þeim þá svarað fólkið kónginum og sagði: [ „Hvaða hlutskipti eigum vér undir Davíð eða arf undir syni Ísaí? Fari hver maður af Ísrael til sinna heimkynna en sjá þú fyrir þínu húsi, Davíð.“ Og allur Ísrael fór hver til síns heimilis. En Róbóam kóngur ríkti alleinasta yfir Ísraelssonum þeim sem bjuggu í Júdastöðum. Og Róbóam kóngur útsendi sinn skattahöfðingja Hadóram en Ísraelssynir grýttu hann í hel. [ Og Róbóam kóngur sté með flýti á sinn vagn og flúði til Jerúsalem. Svo féll Ísrael frá Davíðs húsi allt til þessa dags. [