XVI.

Og er þvottdagurinn var liðinn keyptu þær María Magdalena og María Jacobi og Salóme dýrleg smyrsl að þær kæmi og smyrði Jesúm. [ Og mjög snemma morguns einn þvottdaganna komu þær til grafarinnar um sólaruppruna. Og hver þeirra sagði til annarrar: „Hver mun velta fyrir oss steininum af grafarmunnanum?“ Og þær litu þangað og sáu að steinninn var afveltur því að hann var næsta mikill. Og þær fóru inn í gröfina og sáu eitt ungmenni sitja til hægri hliðar skrýddan síðu klæði hvítu og þeim blöskraði við.

En hann sagði til þeirra: „Eigi skulu þér hræðast. Þér leitið að hinum krossfesta Jesú af Naðsaret. Hann er upprisinn og er eigi hér. Sjáið þann stað hvar þeir lögðu hann. Gangið heldur burt og segið hans lærisveinum og Pétri það hann muni ganga fram fyrir yður í Galilea. Þar munu þér sjá hann eftir því sem hann sagði yður.“ En þær gengu út skyndilega og flýðu frá gröfinni því að kominn var yfir þær uggur og skjálfti. Og ekkert sögðu þær neinum því að þær voru hræddar.

En er Jesús hafði snemma morguns upprisið á fyrsta degi þvottdaganna þá birti hann sig fyrst Maríu Magdalenu frá hverri hann hafði útrekið sjö djöfla. [ Hún fór og kunngjörði þeim sem meður henni hörmuðu og grétu. Og er þeir heyrðu að hann lifði og hann væri séður af henni trúðu þeir eigi. En eftir það auðsýndi hann sig tveimur af þeim í annarri líking þá er þeir gengu um þorpagrundirnar. Þeir gengu og burt og kunngjörðu hinum öðrum. Þeim trúðu þeir og eigi.

En seinast er þeir ellefu sátu til borðs birti hann sig og ávítaði þeirra vantrú og hjartans harðúð það þeir höfðu eigi trúað þeim sem hann höfðu séð upprisinn og sagði til þeirra: [ „Farið út um allan heiminn, prédikið evangelium allri skepnu. Hver hann trúir og verður skírður sá skal frelsaður verða en hver eigi trúir hann skal fordæmast.

En teiknin er þeim munu fylgja sem trúa eru þessi: Í mínu nafni munu þeir djöfla út reka, nýjar tungur tala, höggorma upp taka og ef þeir drekka nokkuð banvanlegt skal það eigi þeim granda, yfir sjúka munu þeir hendur leggja og þá mun þeim batna.“ Og eftir það eð Drottinn Jesús hafði talað við þá var hann uppnuminn til himins og situr til Guðs hægri handar. En þeir gengu út og prédikuðu alls staðar Drottni samverkanda og orðið styrkjanda meður eftirfylgjandi teiknum.

Endir guðsspjalla hins heilaga Marcus.