XIIII.

Það bar til einn dag að Jónatas son Saul sagði til skjaldsveins síns: „Kom, förum hér yfir um til herbúða þeirra Philisteis sem eru þar hinumegin.“ En þetta sagði hann ekki sínum föður. En Saul var staddur við ystu álfu Gíbea undir einu granatatré hvert eð stóð í forstaðnum og það fólk sem var hjá honum var sex hundruð manns að tölu. En á þeim tíma var Ahía, sonur Ahítób, bróðir Íkabóð, sonar Píneas, sonar Elí, Drottins kennimaður í Síló og bar lífkyrtilinn. [ Fólkið vissi og eigi heldur að Jónatas var genginn í burt.

En í þeim stað sem að vegurinn lá þar Jónatas gekk yfir um til herbúða Philisteis var einstigi upp að ganga millum tveggja hamra. Einn var þessumegin, annar hinumegin. Annar hét Bóses, annar hét Senne. Annar lá fyrir norðan Mikmas en annar suður í móti Gaba. Þá sagði Jónatas til síns skjaldsveins: „Förum hér yfir um til herbúða þeirra óumskornu. Má vel ske að Drottinn útrétti nokkuð fyrir okkar hendur því að það er Guði ekki um megn að hjálpa svo fyrir fá sem marga.“ [ Hans skjaldsveinn svaraði honum: „Gjör hvað þér býr í hjarta. Far! Sjá, eg er með þér svo sem þitt hjarta vill.“

Jónatas svaraði: „Nú vel, þá við komum yfir um til fólksins og þeir sjá okkur, ef þeir þá segja svo: Verið kyrrir þar til vér komum til yðar, þá skulum við vera kyrrir og fara ekki upp til þeirra. En ef þeir segja svo: Komið hingað til vor, þá skulu við fara upp til þeirra og höfum það á marki að þá hefur Drottinn gefið þá í okkar hendur. Og það skulu við hafa að marki.“

Nú sem þeir komu í augsýn Philisteis herbúða þá sögðu Philistei: „Sjá, þar eru Ebrei nú útkomnir af sínum holum þar þeir hafa falist!“ Og þeir úr herbúðunum töluðu til Jónatas og hans skjaldsveins og sögðu: „Komið upp hingað til vor, so viljum vér læra yður það.“ Þá sagði Jónatas til síns skjaldsveins: „Far eftir mér, Drottinn hefur gefið þá í Israelis hendur.“ Og Jónatas klifraði upp eftir á höndum og fótum og hans skjaldsveinn eftir honum.

Þá féllu þeir fyrir Jonatha og hans skjaldsveinn vó jafnan eftir honum. So að í því fyrsta slagi sem Jónatas og hans skjaldsveinn veittu felldu þeir tuttugu menn so sem á hálfu akursrúmi sem tveir uxar kunna að erja á degi. [ Og skelkur kom yfir herbúðirnar um akrana og yfir allt fólkið í herbúðunum og yfir ránsflokkinn svo að jörðin skalf. Því að sá skelkur var af Guði. Varðhaldsmenn Saul í Gíbea Benjamín sáu þetta, að herinn flýði og tvístraðist í sundur og riðlaðist hingað og þangað.

Þá sagði Saul til sinna manna: „Teljið og hyggið að hver þar er í burt genginn frá oss.“ Og sem þeir hugðu að, sjá, þá var Jónatas og hans skjaldsveinn ekki þar. Þá sagði Saul til Ahía: „Láttu hingað Guðs örk.“ Því að hún var þann tíma hjá Ísraelssonum. En þá að Saul var að tala þetta við kennimanninn þá heyrðist mikill gnýr af hlaupi til herbúða þeirra Philistinorum. Og Saul sagði til kennimannsins: „Lát þína hönd af.“ Og Saul kallaði og allur sá herinn sem með honum var og þeir komu til bardagans og sjá þú að þá var hvers eins sverð í mót öðrum og þar varð eitt mikið hark.

En þeir Ebrei sem fyrr voru hjá Philisteis og upp höfðu farið með þeim í herbúðirnar um kring, þeir gáfu sig til Ísrael sem að voru með Saul og Jónatan. [ Og allir Israelismenn sem sig höfðu hulið á fjallinu Efraím, þá þeir heyrðu að Philistei flýðu gáfu þeir sig til að reka flóttann með öðrum. Og so hjálpaði Guð Ísrael á þessum tíma og bardaginn hélt allt til Betaven.

En sem Israelismenn voru mæddir ornðir á þeim degi þá særði Saul fólkið og sagði: „Bölvaður sé sá maður sem nokkuð etur til þessa kvelds svo að eg fái hefnt mín á mínum óvinum.“ Og enginn át þar nokkuð af öllu fólkinu. Og sem allt landsfólkið kom í nokkurn skóg þá var þar nógt hunangs á mörkinni. Og sem fólkið gekk í skóginn, sjá, þá rann hunangið en enginn maður þorði að drepa sinni hendi það og bera að sínum munni því að fólkið óttaðist kóngsins eið.

En Jónatas hafði ekki heyrt þessa særing sem hans faðir særði fólkið. Og hann rétti út sinn staf sem hann hafði í sinni hendi og drap endanum í hunangið og bar að munni sér. Þá upplyftust hans augu. Þá svaraði einn af fólkinu og sagði: „Þinn faðir sór fyrir fólkinu og sagði: Bölvaður veri hver sá maður sem að etur nokkuð á þessum degi, og fólkið varð vanmegna.“ Þá sagði Jónatas: „Minn faðir hefur sturlað landið. Sjáið hversu mín augu upplyftust sökum þess að eg smakkaði lítið af þessu hunangi. Með því að fólkið mátti ekki eta í dag af herfangi sem það fann eftir sínum óvinum, því hefur ekki þetta slag orðið stærra þeim Philisteis.“ Og þeir slógu þá Philisteos á þeim sama degi frá Mikmas og allt til Ajalon. Og allur herinn var mjög mæddur.

Og fólkið snerist að herfanginu og tóku uxa og sauði og kálfa og slátruðu á jörðu og átu hrátt með blóði. [ Þetta spurði Saul: „Sjá, fólkið syndgast fyrir Drottni að það etur með blóði.“ Þá sagði Saul: „Þér hafið illa gjört. Veltið einum stórum steini hingað til mín.“ Og Saul sagði framar meir: „Skiptið yður á milli fólksins og segið því að hver um sig færi sín naut og sauði hingað til mín og sæfi það hér svo þér megið eta það og syndgast ekki meir í móti Drottni að eta með blóði.“ Og allt fólkið færði hver um sig sinn uxa með sinni eigin hendi til hans um nóttina og slátruðu því þar. Og Saul byggði Drottni eitt altari. [ Það er það fyrsta altari sem hann uppbyggði Drottni.

Og Saul sagði: „Látum oss fara ofan eftir þeim Philisteum í nótt og rænum þá og sláum þar til að ljós dagur er so vér látum öngvan af þeim komast undan.“ Fólkið svaraði: „Gjör allt hvað þig lystir.“ En kennimaðurinn sagði: „Förum hingað til Guðs og spyrjum hann ráða.“ Og Saul spurði Guð: „Skal eg fara ofan eftir þeim Philisteis og vilt þú gefa þá í Ísraels hendur?“ En Saul fékk ekkert andsvar á þeim tíma. Þá sagði Saul: „Kallið allt fólkið hingað, rannsakið og reynið með hverjum sú synd er á þessum tíma. Því svo sannarlega sem Drottinn Israelis frelsari lifir, þó það sé minn son Jónatas þá skal hann deyja.“ Og enginn gaf honum andsvar af öllu fólki.

Og hann sagði til alls Israelis: „Skiptist þér í einn stað en eg og minn son Jónatas viljum vera hér öðrumegin.“ Fólkið svaraði: „Gjör hvað þér líkar.“ Síðan sagði Saul til Drottins Israelis Guðs: „Lát koma upp hið rétta.“ Þá féll hlutur yfir Saul og Jónatan en fólkið gekk undan. Þá sagði Saul: „Hlutið nú á milli mín og míns sonar Jónatas.“ En sem það var gjört þá féll hluturinn yfir Jónatan. Og Saul sagði til Jónatas: „Seg mér, hvað hefur þú gjört?“ Jónatas kunngjörði honum það og sagði: „Eg bergði á litlu hunangi með því kefli sem eg hafði í minni hendi. Og sjá, þar fyrir má eg deyja.“

Þá sagði Saul: „Guð gjöri mér það og það, Jónatas, þú hlýtur vissulega að deyja.“ En fólkið sagði til Saul: „Skal Jónatas deyja sem að gjört hefur svo stóra hjálp í Ísrael? Langt sé fjærri því! Svo sannarlega sem Drottinn lifir skal ekki eitt hár falla af hans höfði á jörð því að Guð hefur verkað fyrir hann í dag.“ Svo frelsaði fólkið Jónatan að hann hélt sínu lífi. Eftir það fór Saul upp aftur frá þeim Philisteis en þeir Philistei fóru til sinna heimila.

En sem Saul hafði staðfest ríki sitt yfir Ísrael herjaði hann í móti öllum sínum óvinum allt um kring: Í móti Moabitis, í mót Amoriter, í mót Edómítum, í mót kónginum af Sóba, í mót þeim Philisteis. [ Og hvert sem hann sneri sér þá refsaði hann þeim. Og hann safnaði her að sér og sló Amalek og frelsaði Ísrael af allra þeirra hendi sem þeim þrengdu.

Þessir eru synir Saul: Jónatan, Isví og Malkísúa. [ Og hans tvær dætur hétu: So sú hin frumgetna: Merób, sú in yngsta: Míkól. Og kvinna Saul hét Abínóam, dóttir Ahímaas. En hans hershöfðingi hét Abner son Ner, hver eð var föðurbróðir Saul. Kís var faðir Saul og Ner faðir Abner sonur Abíel.

Þar var hinn mesti ófriður með Saul og Philisteis so lengi sem Saul lifði. Og hvar sem Saul sá einn sterkan og góðan stríðsmann þann tók hann til sín.