XVI.

En þetta tala eg til yðar so að þér hneykslist eigi því þeir munu forboða yður. [ Og sá tími kemur að hver yður líflætur hann meinar sig gjöra þægt verk Guði. Og þetta gjöra þeir yður af því að þeir þekkja hverki föðurinn né mig. En þetta tala eg því til yðar að nær sú stund kemur þá skulu þér minnast þar á að eg sagða yður það. En þetta sagða eg yður eigi í upphafi því eg var hjá yður.

Og nú fer eg til hans sem mig sendi og enginn yðar spyr mig: Hvert fer þú? Heldur af því eg talaði þetta til yðar þá uppfylldist yðart hjarta af hryggð. En eg segi yður þó sannleikinn: [ Það batar yður að eg fari héðan því að ef eg fer eigi héðan þá kemur eigi huggarinn til yðar. En ef eg fer héðan þá mun eg senda hann til yðar. Og þá hann kemur straffar hann heiminn fyrir synd og fyrir réttlæti og fyrir dóm. [ Fyrir syndina því þeir trúðu ei á mig. En fyrir réttlætið því að eg fer til föðursins og þaðan af sjái þér mig eigi. En fyrir dóminn því að þessa heims höfðingi er dæmdur.

Enn hefi eg margt að segja yður en þér fáið eigi allt borið að sinni. [ Nær að kemur sá sannleiksandi þá mun hann kenna yður allan sannleik. Því að eigi talar hann af sjálfum sér heldur hvað hann heyrði það talar hann og hvað ókomið er það kunngjörir hann yður. Hann sami mun og auglýsa mig því að af mínu mun hann það taka og kunngjöra yður. Allt hvað minn faðir hefur það er mitt. Fyrir það sagða eg að af mínu mun hann það taka og kunngjöra yður.

Um lítinn tíma þá munu þér eigi sjá mig og enn aftur um lítinn tíma þá munu þér sjá mig því að eg fer til föðursins.“ [ Þá sögðu hans lærisveinar sín á milli: [ „Hvað er það að hann sagði oss: Um lítinn tíma þá munu þér ei sjá mig og enn aftur um lítinn tíma þá munu þér sjá mig því að eg fer til föðursins?“ Þá sögðu þeir: „Hvað er það hann segir: Um lítinn tíma? Vér vitum eigi hvað hann segir.“ Þá fornam Jesús að þeir vildu spyrja hann og sagði til þeirra: „Þér spyrjið að því yðar á milli að eg sagða: Um lítinn tíma þá munu þér ei sjá mig og þá aftur um lítinn tíma munu þér sjá mig? Sannlega, sannlega segi eg yður: [ Þér munuð gráta og syrgja en heimurinn mun fagna. Þér verðið hryggvir en yðar hryggð skal snúast í fögnuð.

Konan nær hún skal fæða þá hefir hún hryggð því að hennar stund er komin. En þá hún hefir barnið fætt minnist hún eigi þess harmkvælis fyrir fagnaðarsakir því maður er í heiminn borinn. Þér hafi nú hryggð en eg skal sjá yður aftur og yðart hjarta skal fagna og yðvarn fögnuð skal enginn af yður taka. Á þeim degi munu þér mig og einkis spyrja. Sannlega, sannlega segi eg yður: [ Hvers þér biðjið föðurinn í mínu nafni það mun hann gefa yður. Hingað til hafi þér einskis beðið í mínu nafni. Biðjið, þá munu þér meðtaka so að yðar fögnuður fullkomnist.

Þetta hefi eg talað í orðskviðum til yðar. Sá tími kemur að eg tala eigi lengur í orðskviði til yðar heldur kunngjöri eg yður berlega af mínum föður. Á þeim degi munu þér og biðja í mínu nafni. Og eigi segi eg yður að eg muni biðja föðurinn fyrir yður því að sjálfur faðirinn elskar yður af því þér elskið mig og trúið það eg sé af Guði útgenginn. [ Eg em af föðurnum útgenginn og kominn í þennan heim. Eg fyrirlæt og aftur þennan heim og fer til föðursins.“

Hans lærisveinar segja þá til hans: „Sé, nú talar þú berlega og mælir öngva orðskviðu. Nú vitum vér að þú veist alla hluti og þú þarft eigi að nokkur spyrji þig. Fyrir það trúum vér að þú sért af Guði útgenginn.“ Jesús svaraði þeim: [ „Nú trúi þér. Sjáið, sú stund kemur og er nú þegar komin að þér sundrist hver til sinna og látið mig einan saman. En eg er þó ei einnsaman því að faðirinn er með mér.

Þetta tala eg því til yðar að þér hefðuð frið í mér. Í heiminum hafi þér hörmung en verið þó hughraustir því eg yfirvann heiminn.“