XIX.

Og Akab sagði til Jesabel alla þá hluti sem Elías hafði gjört og hvernin hann hafði drepið alla Baals spámenn með sverði. Þá sendi Jesabel eitt boð til Eliam og lét segja honum: „Guðirnir gjöri mér það og það ef eg gjöri ei á morgun þennan tíma þinni sál líka sem þú gjörðir eins þeirra sálu.“

En sem hann þetta fornam tók hann sig upp og gekk burt þangað sem hans hugur vísaði honum og kom til Berseba í Júda og lét sinn þénara þar eftir vera. [ En hann gekk í burt í eyðimörkina eina dagleið og kom og setti sig undir eitt einibertré og beiddist þá að deyja og sagði: „Það er nóg. So tak nú mína sál, Drottinn. Eigi em eg betri en mínir forfeður.“ Og hann lagði sig undir einibertréð og sofnaði.

Og sjá, engill Drottins tók á honum og sagði til hans: [ „Statt upp og snæð.“ Og sem hann leit hjá sér þá var þar einn eldbakaður leifur hjá hans höfði og ein kanna með vatni. Og sem hann hafði etið og drukkið þá lagði hann sig niður aftur að sofa. Og engill Drotins kom í annað sinn, tók á honum og sagði: „Statt þú upp og snæð því að þú átt langan veg fyri höndum að ganga.“ Og hann stóð upp, át og drakk og gekk í styrkleik þeirrar fæðu fjörutígir daga og fjörutígir nætur allt til Guðs fjalls Hóreb.

Og hann kom þar inn í einn hellir og var þar um nóttina. Og sjá, orð Drottins kom til hans og sagði til hans: „Hvað gjörir þú hér, Elía?“ Hann sagði: „Eg hefi vanlætt vegna Drottin, Guðs Sebaót, því að Ísraelssynir hafa yfirgefið þinn sáttmála og niðurbrotið þín altari og slegið þína spámenn í hel með sverði og eg er alleina eftir orðinn og þeir sitja um að taka mig af lífi.“ [ Hann sagði: „Far út héðan og gakk fyrir Drottin upp á fjallið“ og sjá, að Drottinn gengur framhjá og eitt mikið og sterkt veður hvert eð fjallið klauf og bergið braut í sundur fyri Drottni en Drottinn var ekki í jarðskjálftanum. En eftir jarðskjálftann kom einn eldur en Drottinn var ekki í eldinum. Og eftir eldinn kom þar einn hægur og mjúkur vindblær.

En sem Elías það heyrði þá dró hann klæði fyrir andlit sér og gekk fram í dyrnar á hellirnum og sjá, þar kom ein raust til hans og sagði: „Hvað gjörir þú hér, Elía?“ Hann sagði: „Eg hefi vandlætt vegn Drottins, Guðs Sebaót, því Ísraelssynir hafa forlátið þinn sáttmála, niðurbrotið þín altari og í hel slegið þína spámenn með sverði og eg einnsaman er eftir orðinn en þeir sitja um að taka mig af lífi.“

Drottinn sagði til hans: [ „Far þú aftur sama veg um eyðimörku til Damscum og gakk þar inn og smyr Hasael til kóngs yfir Syriam og Jehú son Nimsí til kóngs yfir Ísrael og Eliseum son Safat af Abel Mehóla til eins spámanns í þinn stað. Og það skal ske að hver sem kemst undan sverði Hasael þann skal Jehú drepa og hver sem setur undan sverði Jehú þann skal Heliseus drepa. Og eg mun eftirláta sjö þúsund manna í Ísrael sem ekki hafa beygt sín kné fyrir Baal og hverra allra munnar ekki hafa kysst hann.“

Og hann gekk þaðan og fann Heliseum son Safat. Hann var að erja fyrir sér með tólf uxum og hann var sjálfur á milli þeirra tólf uxa. Og Elías gekk til hans og lagði sinn möttul yfir hann. [ En hann yfirgaf uxana og rann eftir Elía og sagði: „Leyf mér að minnast við minn föður og móður, síðan vil eg eftirfylgja þér.“ Hann svaraði honum: „Far þú og kom aftur. Eg hefi nokkuð að gjöra með þig.“ Og hann skildi við hann og tók eitt par uxa og sæfði og sauð kjötið með trjánum sem voru á uxunum og gaf fólkinu það að eta. Síðan stóð hann upp, fylgdi Elía eftir og þjónaði honum.