VI.

En Jeríkó var læst og rammbyggilega byrgð fyrir Ísraelissonum so að enginn mátti þar komast út né inn. [ Og Drottinn sagði til Jósúa: „Sjá þú, eg hefi gefið Jeríkó með hennar kóngi og öllum her í þínar hendur. Lát allan þinn her ganga í kringum staðinn einu sinni á degi og gjör so í sex daga. En á þeim sjöunda degi þá lát prestana taka þá sjö fagnaðarárslúðra fyrir örkinni og gangi á þeim sjöunda degi sjö sinnum í kringum staðinn og lát prestana þeyta lúðrana. Og þá blásið er í fagnaðarárshornin og þér heyrið dyninn þá skal allt fólkið gjöra eitt mikið heróp. Þá munu staðarins múrveggir hrynja niður og fólkið skal falla inn í staðinn, sérhver þar strax sem hann er staddur.“

Síðan kallaði Jósúa prestana og sagði til þeirra: „Berið sáttmálsörkina og skikkið sjö presta til að bera sjö fagnaðarárslúðrana undan örk Drottins.“ Og hann sagði til fólksins: „Farið og gangið í kringum staðinn og sá hver sem vopnaður er gangi hann fram undan örk Drottins.“ Og sem Jósúa hafði sagt þetta til fólksins þá báru þeir sjö prestar þá sjö fagnaðarársins lúðra fyrir örk Drottins, gengu og þeyttu lúðrana, og sáttmálsörk Drottins fylgdi eftir. Og þeir sem herklæddir voru gengu undan prestunum þeim sem lúðrana þeyttu en öll alþýða önnur eftirfylgdi örkinni og blésu í sínar básúnur. En Jósúa bauð fólkinu og sagði: „Þér skuluð ekki gjöra nokkuð háreysti og látið ekki heyra til yðar og ekki eitt orð af yðar munni fyrr en á þeim degi að eg segi til yðar: Æpið eitt heróp, so skulu þér æpa eitt almennt heróp.“

So gekk nú örk Drottins einu sinni í kringum borgina og kom aftur í herbúðirnar og var þar. Því Jósúa plagaði að vera árla uppi á morna og prestarnir báru aurk Drottins. Og þeir sjö prestar báru þá sjö fagnaðarárslúðra undan aurkinni og gengu so þeytandi lúðrana. En þeir sem vopnaðir voru gengu fyrir þeim en alþýðan öll gekk eftir aurk Drottins og blésu í sína lúðra. Þeir gengu og so þann annan dag eitt sinn um staðinn og komu í herbúðirnar aftur. So gjörðu þeir í sex daga.

En þann sjöunda dag stóðu þeir árla upp í dögun og gengu í kringum staðinn sjö sinnum eftir sama hætti sem áður, so þeir gengu sjö sinnum á þessum einum degi í kringum staðinn. [ Og á þeirri sjöundu reisu sem prestarnir blésu í sínar básúnur, þá sagði Jósúa til fólksins: „Æpið eitt heróp því Drottinn hefur gefið yður staðinn. En þessi staður og allt það sem er í honum skal vera bannfært fyrir Drottni. [ Skækjan Rahab skal alleina sínu lífi halda og allir þeir sem eru í hennar húsi því hún fal þá sendimenn sem út voru sendir af oss. En einskostar vaktið yður fyrir því bannfærða so þér bannfærið ekki yður sjálfa ef þér takið á því nokkru sem bölvað er, þá bannfærast Ísraels herbúðir þar með og koma í ólukku. En allt það silfur og gull, so og líka koparker og járnker, það skal vera heilagt fyrir Drottni so það megi vera herrans fésjóður.“

Og fólkið æpti eitt mikið heróp og blésu í lúðrana. En sem allt fólkið heyrði lúðrana gjalla þá gjörði almúginn eitt mikið heróp og múrveggirnir um staðinn hrundu niður allt um kring so fólkið mátti ganga í staðinn það gegnsta sem hver var staddur. [ Og með þvílíkum hætti unnu þeir staðinn og foreyddu öllu því sem í staðnum var með sverðseggjum, bæði mönnum og konum, ungum og gömlum, hér með nautum og sauðum og ösnum.

Síðan sagði Jósúa til þeirra tveggja manna sem sendir voru að njósna um landið: „Farið í hús þeirra lausakonu og leiðið hana út þaðan með öllu því sem henni tilkemur so sem þið hafið með eiði lofað.“ [ Og þeir sömu njósnarmenn gengu strax þangað og leiddu Rahab út og so hennar föður og móður, hennar bræður og allt það sem henni tilkom með allri sinni ætt og létu hana vera fyrir utan Ísraels herbúðir.

En borgina alla uppbrenndu þeir með eldi og allt það sem í henni var utan silfur og gull, kopar og járn, það lögðu þeir í fésjóðinn í hús Drottins. En Jósúa lét Rahab þá portkonu og hennar föðurhús lifa og allt það henni tilheyrði. [ Og hún bjó á millum Ísraels inn til þessa dags þar fyrir að hún fal þá sendiboða sem Jósúa hafði útsent að njósna um landið.

Og á þeim sama tíma sór Jósúa og sagði: „Bölvaður sé sá maður fyrir Drottni sem uppreisir og byggir þennan stað Jeríkó. [ Þegar hann leggur hans grundvöll þá gildi það hans frumgetna son en þegar hann setur hans port þá kosti það hans yngsta son.“ So var nú Guð með Jósúa og um öll lönd barst hans rykti.