Og Drottinn mælti við Mósen og sagði: „Tala þú til Ísraelssona og seg þú þeim að þeir snúi aftur og setji sínar herbúðir hjá þeim dal Hírót sem liggur millum Mígdól og sjávarins gegnt Baal-Sefón og setji sínar herbúðir þar þvert yfir hjá sjónum. Því faraó mun segja um Ísraelssonu: Þeir fara villt í landinu, eyðimörkin hefur innibyrgt þá. Og ég vil forherða hans hjarta so að hann skal fara eftir þeim. Og ég vil vinna prís á faraóne og allri hans magt. Og egypskir skulu vita að ég er Drottinn.“ Og þeir gjörðu so.

Og sem kóngur Egyptalands frétti það að fólkið var burtflúið þá umsnerist hjarta hans og hans þénara við fólkið og sagði: „Því höfum vér þetta gjört að vér leyfðum Ísrael að fara í burt so að hann þjóni oss ekki?“ [ Og hann lét spenna fyrir sína vagna og safnaði liði að sér. Hann tók sex hundruð útvaldra vagna og so líka aðra vagna sem voru í Egyptalandi og hershöfðingjana yfir allan sinn her. Því Drottinn herti faraónis hjarta, kóngsins af Egyptalandi, so að hann fór eftir Ísraelssonum. En Ísraelssynir voru útgengnir með einum hávum armlegg. So sóttu nú þeir egypsku eftir þeim með hestum, vögnum og riddaraliði og með allan faraónis her og náðu þeim við Hafið rauða þar sem þeir höfðu sett sínar herbúðir í dalnum Hírót gegnt Baal-Sefón.

Og þá faraó nálgaðist þá þá upphófu Ísraelssynir sín augu og sjá, þá komu þeir egypsku sækjandi eftir þeim. Og þeir óttuðust harla mjög og kölluðu til Drottins og sögðu til Mósen: „Voru þar ekki grafir í Egyptalandi? [ Þurftir þú að leiða oss í burt til þess að deyja hér í eyðimörku? Því gjörðir þú oss þetta að þú leiddir oss af Egyptalandi? Hvort er nú ekki þar komið sem vér sögðum til þín í Egyptalandi: Lát oss vera kyrra og lát oss þjóna heldur egypskum, því að betra er að vér þjónum þeim en að vér deyjum í eyðimörku.“ Þá sagði Móses til lýðsins: „Óttist ekki, standið stöðugir og sjáið hjálp Drottins þá sem hann mun veita yður í dag. Því að egypska menn þessa sem þér sjáið í dag þá munuð þér eki sjá meir að eilífu. Drottinn mun berjast fyrir yður, þér skuluð vera kyrrir.“

Drottinn mælti við Mósen: „Því kallar þú til mín? Seg þú til Ísraelssona að þeir fari leið sína. En þú, hef upp þinn vönd og rétt hönd þína yfir sjóinn og skiptu honum í sundur so að Ísraelssynir megi ganga þar í gegnum með þurrum fótum. Sjá, ég vil forherða hjarta egypskra manna so að þeir skulu fara eftir yður. So vil ég vinna prís á faraóne og á allri hans magt, vögnum og riddaraliði, svo að egypskir skulu vita að ég er Drottinn, nær ég hefi unnið prís á faraóne og hans vögnum og riddaraliði.“

Þá upptók sig Guðs engill sá sem gekk undan Ísraelis her og hann fór til baka við þá og sá skýstólpi hófst upp frá þeirra augliti og settist niður á bak við þá og var milli herbúða þeirra egypsku og Ísraels hers og var eirn myrkur skýstólpi upplýsandi nóttina so að þeir og þessir kunnu ei að komast til samans alla þá nótt. [

Nú sem Móses útrétti sína hönd yfir hafið þá lét Drottinn það burthverfa fyrir eirn sterkan austanvind alla þá nótt so að sjórinn varð þurr og vatnið brast í sundur. [ Og Ísraelssynir gengu mitt í hafið þurrum fótum. Og vatnið var þeim sem múrveggur til hægri og vinstri handar. Þeir egypsku sóttu eftir og gengu mitt í hafið eftir þeim, allur ríðandi her faraónis, vagnar hans og riddaralið.

En þá morgunvakan kom þá leit Dottinn yfir her egypskra af eldstólpanum og skýinu og skaut skelk í herlið þeirra og velti um hjólvögnum þeirra og kollkastaði þeim. Þá sögðu egypskir: „Flýjum frá Ísrael, Drottinn stríðir fyrir þá móti egypskum.“ Þá sagði Drottinn til Mósen: „Rétt út þína hönd yfir hafið so að vatnið falli aftur yfir þá egypsku, yfir þeirra vagna og riddaralið.“ Svo útrétti Móses sína hönd yfir sjóinn og sjórinn féll aftur í sinn farveg áður en dagaði og kom í mót þeim egypsku þá þeir flýðu. So steypti Drottinn þeim mitt í miðju hafi og vatnið kom aftur og huldi bæði vagna og riddara og alla faraónis magt, sem farið hafði eftir þeim í hafið, so þar varð ekki einn eftir af þeim.

En Ísraelssynir gengu þurrum fótum mitt í gegnum hafið og vatnið stóð þeim sem múrveggur til hægri og vinstri handar. [ So leysti Drottinn Ísrael á þeim degi frá egypskra manna hendi. Og þeir sáu þá egypsku liggja dauða í fjörunni. Og Ísrael leit þá voldugu hönd sem Drottinn hafði auðsýnt á þeim egypsku og fólkið óttaðist Drottin og trúði honum og hans þjón Móse.