XX.

En eftir það er upphlaupinu linnti kallaði Páll lærisveinana til sín og bað þá vel lifa, ferðaðist síðan í Macedoniam. [ En þá hann hafði þær sömu landsálfur yfirfarið og þeim áminning veitt með mörgum orðum kom hann til Grikklands og tafði þar þrjá mánuði. En þá honum voru umsát gjörð af Gyðingum er hann vildi sigla í Syriam varð hann þess sinnis að snúa aftur um Macedoniam. Og þessir fóru með honum allt til Asiam: [ Sópater af Berrohen, en af Tessalóníu Aristarkus og Sekúndus og Gajus af Derben og Tímóteus, en af Asia Tychion og Trophimas. Þessir gengu undan og biðu vor í Troada en vér sigldum eftir páskana af Philippis og komum til þeirra í Troade innan fimm daga og dvöldum þar í sjö daga.

En einn þvottdaga þá lærisveinarnir voru til samans komnir brauð að brjóta talaði Pál við þá. [ Því annars dags vildi hann ferðast og teygði ræðuna allt til miðrar nætur. Og í þeim sal voru mörg ljós sem vær vorum samankomnir. Og nokkurt ungmenni, Eytichos að nafni, sat í vindauganu og sökk í djúpan svefn. Og með því að Páll talaði so lengi þá þyngdist hann því meir af svefni og hrapaði ofan úr hinum þriðja loftsal og var dauður upptekinn. En er Páll gekk ofan að lagði hann sig fram yfir hann og hélt um hann og sagði: [ „Gjörið öngvan hávaða því að hans önd er með honum.“ Hann gekk þá upp aftur, braut brauðið og bergði og talaði margt við þá allt til þess dagur rann. Og so ferðaðist hann. En þeir leiddu sveininn upp lifanda og þeir hugsvöluðust við það eigi alllítt.

En vér stigum á skip og sigldum til Asson. Þar vildu vér hafa tekið inn Pál því hann hafði so ásett það hann vildi yfir land fara. En sem hann kom til Asson tóku vær hann til vor og komum til Mytilen. Þaðan sigldu vér og komum annars dags gegnt Chion. Og deginum eftir tóku vær höfn við Samon og dvöldum í Trogilion. Og næsta daginn eftir komu vær til Mileto. Því að Páll hafði sett sér að sigla fram hjá epheso so að hann hefði öngva dvöl í Asia. Af því flýtti hann sér ef honum væri það mögulegt að vera á hvítasunnu til Jerúsalem.

Í frá Mileto sendi hann til Epheso og lét kalla hina elstu presta af safnaðinum. [ Og sem þeir komu til hans sagði hann til þeirra: [ „Þér vitið að í frá þeim fyrsta degi er eg kom í Asiam hversu eg hefi um alla tíma hjá yður verið og Drottni þjónað með öllu hugarins lítillæti og með miklu tárfelli og freistingum, hverjar mér hafa hlotnast af umsátum Gyðinga, og það ekkert undandregið sem yður var bati, so eg hafi það eigi kunngjört yður opinberlegana í ýmsum húsum og vitnað bæði Gyðingum og Grikkjum iðran til Guðs og trúna á Drottin vorn Jesúm.

Og nú sjáið, það eg em bundinn í anda að ferðast til Jerúsalem vitandi eigi hvað þar mun yfir mig koma nema það eð heilagur andi vitnar um allar borgir, segjandi að fjötur og harmkvæli munu mín þar verða. En eg gef því öngva vakt. Eg held og eigi sjálfs míns líf dýrmætt so að eg fullkomni mitt hlaup með fagnaði og það embætti sem eg hefi meðtekið af herranum Jesú til vitnisburðar evangelio Guðs náðar. [

Og sjáið, að nú veit eg að þér munuð allir eigi sjá mitt andlit meir, hverja eg hefi um gengið og prédikað Guðs ríki. [ Fyrir því vitna eg yður á þessum degi það eg em hreinn af allra blóði. Því að eg hefi ekkert undan dregið það eg hafi eigi kunngjört yður allt Guðs ráð. Af því hafi gát á sjálfum yður og á allri hjörðinni, meðal þeirra sem yður setti heilagaur andi til biskupa, að stjórna safnan Guðs, hverja hann hefur endurleyst sínu eigin blóði. Því að það veit eg að eftir mína burtför munu innganga meðal yðar ólmir vargar þeir eð eigi munu þyrma hjörðinni. Og af yður sjálfum munu menn upprísa er tala umhverfar kenningar að þeir teygi lærisveinana eftir sér. Fyrir því vaki þér og minnist á það að eg hefi í þrjú ár nótt og dag eigi aflátið að áminna einn og sérhvern yðvarn meður tárum. [

Og nú, bræður, bífala eg yður Guði og orði hans náðar, hver máttugur er upp að byggja og yður arftöku að gefa meðal allra þeirra sem helgaðir verða. Eigi girnist eg nokkurs yðars silfur, gull eður klæðnað því að þér vitið sjálfir að þessar hendur hafa mér unnið til minnar nauðþurftar og þeirra sem með mér voru. [ Allt sýnda eg yður að so byrjaði oss að erfiða og bannfæra að annast og minnast orða Drottins Jesú þar hann sagði: Sælla er að gefa en að þiggja.“

Og er hann hafði þetta sagt féll hann á kné og bað samt þeim öllum. [ En þeirra á milli gjörðist grátur mikill og lögðu hendur um háls Páli og kysstu hann, syrgjandi mest af því orði er hann sagði að þeir myndi ei sjá hans andlit meir. Og þeir fylgdu honum til skips.