X.

En sá maður nokkur var í Cesarea sem Cornelius var að nafni, höfuðsmaður yfir þeim selskap er kölluðust valir, guðlegur mann og guðhræddur, með öllu sínu húsi, gefandi fólkinu miklar ölmusur og var jafnan á bæn til Guðs. [ Hann sá opinberlega í sýn nær níundu stund dags engil Guðs ganga inn til sín er sagði til hans: „Corneli.“ En hann horfði á hann óttasleginn og sagði: „Hvað er það, herra?“ Hann sagði honum þá: „Bænir þínar og ölmusugjörðir eru uppstignar til minnis fyrir Guði. Og sent nú út menn til Joppen og lát sækja Símon þann kallaður er Petrus. Hann herbergjar hjá Símoni, sútara einum, hvers hús að liggur við sjóinn. Hann mun segja þér hvað þér byrjar að gjöra.“ En er engillinn sá við hann talaði var í burt genginn kallaði hann á tvo sína þjónustumenn og einn guðlegan stríðsmann út af þeim er honum lutu hverjum hann sagði allt frá og sendi þá til Joppen.

En daginn eftir er þeir voru á leiðinni og tóku að nálgast borgina sté Pétur upp á loftið að hann bæðist fyrir, nær séttu stund. [ Og er hann hungraði vildi hann matar neyta. En á meðan þeir voru að búa til leið yfir hann brjósthöfgi og hann sá himinninn opinn og ofan fara að sér disk nokkurn mikinn so sem línlak í fjórum hyrningum uppbundinn og hann var af himni ofan látinn á jörðina, í hverjum eð voru allar ferfættar kindur jarðar, skógdýr og skriðkvikindi og fuglar himins. [ Og þar skeði rödd til hans: „Statt upp, Pétur, slátra og et.“ En Pétur sagði: „Nei herra, því að eg hefi enn aldrei nokkuð almennilegt eður óhreint etið.“ Og röddin sagði enn aftur í annað sinn til hans: „Hvað Guð hreinsaði það seg þú eigi almennilegt.“ Þetta skeði þrisvar sinnum og diskurinn varð uppnuminn aftur til himins.

Og er Pétur var efablandinn um með sjálfum sér hver þessi sýn mundi vera sem hann hafði séð, sjáðu, að þá spurðu þeir menn er út voru sendir frá Cornelio eftir húsi Símonar og stóðu úti við hurðina. [ Og að útkölluðum nokkrum spurðu þeir að hvort Símon að viðurnefni Petrus hefði þar herbergi. En er Pétur hugleiddi um sýnina sagði andinn til hans: „Sjáðu, þessir menn leita að þér. Statt upp, far ofan og gakk með þeim og efa ekkert því að eg sendi þá hingað.“ Þá sté Pétur ofan til þeirra manna sem voru sendir til hans frá Cornelio og sagði: „Sjáið, eg em þann sami þér spyrjið að. Hver efni eru til þess að þér eruð hér komnir?“ Þeir sögðu: „Cornelius, sá höfðingi, frómur maður og guðhræddur, hafandi góðan orðstír af öllu Gyðingafólki, er með vitran áminntur af heilögum engli að hann kallaði þig í sitt hús so hann heyrði orð af þér.“ Og þá kallaði hann þá inn og veitti þeim herbergi.

Annan dag eftir ferðaðist Pétur með þeim og nokkrir bræður af Joppen fylgdu honum. [ Og annars dags þar eftir komu þeir til Cesaream. En Cornelius beið þeirra og samankallaði sína frændur og virktavini. Og er það skeði að Pétur kom inn gekk Cornelius í móti honum og féll til fóta hans og tilbað hann. En Pétur reisti hann upp og sagði: „Statt upp, eg em og maður.“ Og er hann hafði haft samtal við þá gekk hann inn og fann þá marga er þar voru samankomnir og sagði til þeirra: [ „Þér vitið að það er ekki leyfilegt þeim manni sem Gyðingur er að fella sig við eður ganga til útlendra manna. En Guð sýndi mér að eg segða öngvan mann almennan eður óhreinan. Fyrir hvað eg kom utan dvöl þá er var tilkvaddur. Því spyr eg yður nú að hvar til þér létuð kalla á mig.“

Cornelius sagði: [ „Í dag er fjórði dagur frá þeim eg var fastandi allt til þessarar stundar og um níundu stund er eg baðst fyrir í mínu húsi og sjá, þá stóð maður frammi fyrir mér í skínanda klæði og sagði: Corneli, þín bæn er alheyrð og þínar ölmusur eru í minni settar fyrir Guðs augliti. Af því send þú til Joppen og lát kalla Símon þann auknefndur er Petrus. Hann herbergjar í húsi Símonar sútara við sjóinn. Því þá hann kemur mun hann tala fyrir þér. Þá senda eg jafnsnart til þín og þú gjörðir vel það þú komst hingað. Nú erum vær hér allir nálægir fyrir Guði að vér heyrum þá alla hluti sem þér eru af Guði boðnir.“

En Pétur lauk upp sinn munn og sagði: [ „Nú reyni eg í sannleika það ekki er manngreinarmunur hjá Guði heldur á öllu fólki sem hann óttast og gjörir réttvísi þa er honum þóknan.

Þér vitið af þeirri prédikan sem Guð sendi til Ísraelssona, boðandi þeim frið fyrir Jesúm Christum (hver að er Drottinn allra), af hverri prédikan ryktið útbarst um allt Gyðingaland sú er fyrst hófst upp í Galilea eftir þá skírn sem Jóhannes prédikaði, það Guð hefði smurt Jesúm af Naðsaret með heilögum anda og krafti hver eð um kring gekk, gjörði gott og græddi alla þá sem af djöflinum voru undirþrykktir af því Guð var með honum. Og vér erum vottar alls þess hann gjörði á Gyðingalandi og í Jerúsalem, hvern þeir aflífuðu og á tréð upphengdu.

Þennan uppvakti Guð á þriðja degi og lét opinberan verða, eigi öllu fólki heldur oss sem áður vorum hans útvaldir vottar af Guði, vér sem átum og drukkum með honum, eftir það hann var upprisinn af dauða. Og hann bauð oss að prédika fólkinu og vitni um bera það hann væri sá sem skikkaður er af Guði dómari lifendra og dauðra. Af þessum bera allir spámenn vitni að fyrir hans nafn skulu allir þeir sem á hann trúa meðtaka syndanna fyrirgefning.“ [

Þá Pétur talaði þessum orðum féll heilagur andi yfir þá alla sem orðið heyrðu. [ Og þeir trúaðir sem af umskurninni voru og með Pétri höfðu komið undruðust það að heilags anda gjöf væri úthellt yfir heiðna menn því þeir heyrðu þá tungur tala og vegsama Guð. Þá svaraði Pétur: „Hver má fyrirbjóða þeim vatnið að þeir skírist eigi sem meðtekið hafa heilagan anda líka sem vér?“ Og hann bauð að skíra þá í nafni Drottins. Þeir báðu hann þá að hann væri hjá þeim nokkra daga.