Þá Abram var níu og níutígir ára gamall birtist Drottinn honum og sagði til hans: „Eg er almáttugur Guð, gakk fyrir mér og vertu algjörður. Eg vil gjöra minn sáttmála í millum mín og þín og eg vil margfalda þig harla mjög.“ Þá féll Abram fram á sitt andlit.

Og Guð talaði framar meir við hann og sagði: „Sjá þú, eg em hann og eg vil setja mitt sáttmál við þig og þú skalt verða margra þjóða faðir. [ Þar fyrir skaltu ekki lengur heita Abram heldur skal þitt nafn kallast Abraham, því eg hefi gjört þig að föður margra þjóða. Og eg vil gjöra þig mjög margfaldlegan og eg vil láta koma fjölda fólks af þér, þar skulu og einnin kóngar koma af þér.

Og eg vil uppreisa minn sáttmála í millum mín og þín og þíns sæðis eftir þig, hjá þeirra eftirkomendum með einum eilífum sáttmála, að eg sé þinn Guð og þíns sæðis eftir þig. [ Og eg vil gefa þér og þínu sæði eftir þig það land í hverju þú ert framandi, sem er það allt landið Kanaan til einnrar eilífrar eignar. Og eg vil vera þeirra Guð.“

Og Guð sagði til Abrahams: „So halt nú mitt sáttmál, þú og þitt sæði eftir þig hjá þeirra eftirkomendum. [ Þetta er mitt sáttmál sem þér skuluð halda milli mín og yðar og þíns sæðis eftir þig. Allt kallkyns sem er á meðal yðar skal umskerast. Og þér skuluð umskera yfirhúð yðvars holds. Það skal vera sáttmálsteikn á millum mín og yðar. [ Þér skuluð umskera hvert sveinbarn þá það er átta daga gamalt hjá yðar eftirkomendum. Líka og einnin hvern heimafæddan þræl eða tilkeyptan, af hvers kyns útlendingi sem ekki eru af yðar sæði. So skal minn sáttmáli vera á yðar holdi til eins eilífs sáttmála. Og hvört það sveinbarn sem ekki er umskorið á yfirhúð síns holds, þess sál skal afmást frá hans fólki, því að hann forlét minn sáttmála.“

Og Guð sagði í annað sinn til Abrahams: „Þína kvinnu Saraí skaltu ekki héðan af kalla Saraí heldur skal hennar nafn vera Sara. [ Því eg vil blessa hana og af henni vil eg gefa þér einn son. Því eg vil blessa hana og þar skulu koma þjóðir af henni og svo konungar margra þjóða.“ Þá féll Abraham fram á sitt andlit og brosti, segjandi í sínu hjarta: „Skal eg eiga barn hundrað ára gamall og skal Sara níræð barn fæða?“ [

Og Abraham sagði til Drottins: „Eg vildi Ísmael mætti lifa fyrir þér.“ [ Þá sagði Guð: „Að vísu, Sara þín kvinna skal fæða þér einn son, þann skaltu kalla Ísak, því við hann vil eg uppreisa minn eilífan sáttmála og við hans sæði eftir hann. Þar með hefi eg og bænheyrt þig um Ísmael. Sjá þú, eg hefi blessað hann og eg vil auka hann og gjöra hann mjög margfaldan. Hann skal og geta tólf höfðingja og eg vil gjöra hann að einni mikilli þjóð. En minn sáttmála vil eg uppreisa við Ísak, hvern Sara skal fæða þér í þetta mund á öðru ári.“ Og hann lét af að tala við hann og Guð fór upp frá Abraham.

Þá tók Abraham sinn son Ísmael og alla þá þénara sem fæddir voru í hans húsi og alla þá sem til voru keyptir og alla aðra sem voru kallkyns í hans húsi og umskar yfirhúð á þeirra holdi strax á þeim sama degi sem Guð hafði boðið honum. [ Og Abraham var níu og níutígir ára gamall þá hann umskar yfirhúðina á sínu holdi, en Ísmael var þrettán ára gamall þá hans holds yfirhúð var umskorin. Á einum degi voru þeir allir umskornir, Abraham, hans son Ísmael og allt kallkyns sem var í hans húsi, heimafæddir og annarlegir, þeir voru allir umskornir með honum.