X.

Góðir bræður, en eg vil ei dylja fyrir yður það vorir feður voru allir undir skýinu og allir gengu þeir yfir hafið, allir eru þeir og skírðir af Moysen í skýinu og í sjánum og allir hafa þeir neytt hinnar sömu andlegrar fæðslu og allir hafa þeir hinn sama andlega drykk drukkið. [ En þeir drukku af þeirri andlegri hellu sem þeim með fylgdi, hver hella eð var Kristur. [ En á þeim velflestum hafði Guð öngva þóknan. Því eru þeir niðurslegnir á eyðimörku.

En þetta er skeð oss til fyrirmyndar svo að vér skulum eigi girnast hvað illt er, svo sem að þeir girntust. Gjörist og eigi blótmenn skúrgoða líka so sem nokkrir af þeim urðu eftir því sem skrifað er: „Fólkið settist niður að eta og drekka og stóð upp að dansa.“ Drýgjum eigi hóranir so sem nokkrir út af þeim drýgðu hóranir og féllu á einum degi þrjár þúsundir og tuttugu. Freistum og eigi Krists so sem nokkrir út af þeim freistuðu hans og fyrirfórust af höggormum. Möglið og ekki líka so sem nokkrir út af þeim mögluðu og fyrirfórust af fordjarfaranum. [

Þetta allt skeði þá til fyrirmyndar en það er skrifað oss til viðvörunar, yfir hverja að þessa heims endi er kominn. Fyrir því hver hann lætur sér þykja það hann standi gefi sá gaum að að hann falli eigi. [ Yður hefur ekki höndlað utan alleinasta mannleg freistni. En Guð er trúr sá eigi umlíður það yðar sé freistað framar en þér formegið heldur gjörir hann það að freistnin fái þann einn enda að þér getið vel staðið. Þar fyrir, mínir kærustu, flýið frá skúrgoðadýrkan.

So sem við vitringa tala eg, dæmi þér hvað eg segi. Sá blessanarkaleikur hvern vér blessum er hann ekki samnautn Krists blóðs? Og brauðið hvert vér brjótum er það eigi samneyti Krists líkama? Því að það er eitt brauð og vér margir erum einn líkami með því að vér verðum allir eins brauðs hluttakarar. Hyggið að þeim sem í Ísrael eftir holdinu það þeir sem fórnirnar eta, eru þeir ekki altarisins hluttakarar?

Hvað skal eg nú þá segja? Eða skal eg segja það skúrgoðið sé nokkuð eða það skúrgoðafórnir sé nokkuð? En eg segi að það hvað hinir heiðnu offra það offra þeir djöflinum og eigi Guði. Nú vil eg eigi að þér verðið samlagsmenn djöflanna. Eigi fái þér í senn drukkið kaleik Drottins og djöfulsins. Þér getið og ekki í senn hluttakar orðið matborðs Drottins og djöfulsins. Eða viljum vér reita Drottin? Hvort erum vér honum sterkari?

Mér leyfast sennilega allir hlutir en þeir bata eigi allir. Mér leyfist allt en það er eigi allt til betrunar. Enginn leyti þess hvað hans er heldur að því hvað annars er.

Allt hvað í kjötmangarahúsinu er til sölu það etið, eftirspyrjandi að öngu upp á það þér vægið samviskunni. Því að jörðin er Drottins og allt það sem þar er inni. [ En ef einhver af vantrúuðum býður þér til snæðings og þér viljið þangað ganga þá etið það allt hvað fyrir yður verður sett og spyrjið einskis upp á það þér vægið samviskunni. En ef nokkur segir til yðar: „Þetta er skúrgoðaoffur“ þá etið ekki fyrir sakir þess sem það segir yður upp á það þér vægið samviskunni (því að jörðin er að sönnu Drottins og hvað þar er einni) en eg segi af samviskunni, eigi af þinni sjálfs heldur hins annars. Því að hvar fyrir skylda eg mitt frelsi dæmast láta af annarlegri samvisku? Því ef eg neyti þess með þakklæti hvar fyrir skal eg þá lastaður verða um það sem eg gjöri þakkir fyrir?

Hvort þér nú etið eður drekkið eða hvað þér gjörið þá gjörið það allt til Guðs dýrðar. Verið utan hindran bæði Gyðingum og Grikkjum og Guðs safnaði. Líka svo sem eg gjörði mig hverjum manni geðfelldan í öllu, eigi aðleitandi hvað mér heldur hvað mörgum er gagnlegt so að þeir hjálplegir yrði. Verið því mínir eftirfylgjarar so sem eg em Krists. [