XII.

En nú sem ríki Róbóam kóngs efldist og staðfestist þá gleymdi hann Drottins lögmáli og allur Ísrael með honum. [ En á því fimmta ári Róbóam kóngs þá fór Sísak kóngurinn af Egyptalandi upp til Jerúsalem (því að þeir höfðu misgjört við Drottin) með tólf hundruð vagna og með sextígi þúsund riddara en það fólk sem kom með honum af Egyptalandi, Líbía, Súkím og af Blálandi var óteljanlegt fyrir fjölda sakir. Og hann yfirvann allar þær sterkustu borgir í Júda og kom fyrir Jerúsalem.

Þá kom Semaja spámaður til Róbóam og til höfðingjanna í Júda, hverjir samn höfðu safnast í Jerúsalem og flýðu fyrir Sísak, og sagði til þeirra: [ „Svo segir Drottinn: Þér hafið yfirgefið mig, þar fyrir skal eg og yfirgefa yður í hendur Sísak.“ Þá auðmýktu Ísraels höfðingjar sig með kónginum og sögðu: „Drottinn er réttlátur.“ Og sem Drottinn sá það að þeir auðmýktu sig þá kom orð Drottins yfir Semaja og sagði: „Þeir hafa nú auðmýkt sig. Því vil eg ekki fordjarfa þá heldur vil eg veita þeim nokkra litla hjálp so að mín reiði skal ekki drjúpa yfir Jerúsalem fyrir Sísak. Þó skulu þeir vera honum undirgefnir so að þeir viti hver mismunur það er að þjóna mér eða að þjóna kóngaríkjum jarðarinnar.“

Svo fór nú Sísak Egyptakóngur upp til Jerúsalem og tók burt fésjóðuna sem að voru í húsi Drottins og það liggjanda fé sem lá í kóngsins húsi og flutti það allt í burt með sér. [ Hann tók og þá gullskjöldu sem Salómon hafði látið gjöra, í hverra stað að kóng Róbóam lét gjöra koparskjöldu og bauð um þá höfðingjum hirðmannanna hverjir að tóku vara upp á kóngsins húsdyrum. Og so oft sem kóngurinn gekk í Drottins hús þá komu hirðmennirnir og báru skjölduna og létu þá síðan aftur í hirðmanna herbergi. Og af því að hann auðmýkti sig þá sneri Guðs reiði frá honum so að hann varð ekki með öllu afmáður því að þar fannst enn nokkuð gott eftir í Júda.

Svo styrktist nú ríki Róbóam í Jerúsalem og hann ríkti þar. Róbóam hafði eitt ár og fjörutígi þá hann varð kóngur en hann ríkti seytján ár í Jerúsalem í þeim stað sem Drottinn hafði útvalið af öllum Israelis ættum að hann vildi þar setja sitt nafn. [ Hans móðir hét Naema og var ammóneskrar ættar. Og hann gjörði illa hluti og skikkaði ekki sínu hjarta að leita Drottins.

Og Róbóams gjörningar, bæði þeir fyrstu og síðustu, þeir eru skrifaðir í Gjörningabók Semaja propheta og hjá Iddó sjáanda og uppteiknaðir. Og þar var ófriður millum Róbóam og Jeróbóam alla þeirra lífsdaga. Og Róbóam sofnaði með sínum feðrum og var jarðaður í borg Davíðs og hans son Abía tók ríki eftir hann.