III.

Son minn, gleym ekki mínu lögmáli og geymi hjarta þitt mitt boðorð, því að þau munu auka þér langa lífdaga, góð ár og frið, miskunn og sannleikur munu þig ekki yfirgefa. [ Festu þau um háls þér og skrifa þau á spjöld hjarta þíns, svo muntu hylli og [ klókindi finna sem Guði og mönnum vel líka.

Haf þú traust á Drottni af öllu hjarta þínu og vona ekki upp á þína visku. Hugsa heldur til hans í öllum þínum vegum og mun hann greiða götu þína. Eigi skaltu þykjast hygginn, óttast heldur Drottin og lát af illu, það mun þínum nafla heilnæmt vera og þín bein hressa.

Heiðra Drottin af auðæfum þínum og af frumfórninni allra þinna inntekta, þá munu fullar verða kornhlöður þínar og þínar vínþrúgur fullar út af flóa.

Son minn, burtkasta ekki tyttan Drottins og vertu ekki óþolugur við hans hirting því að hvern þann sem Drottinn elskar þann hirtir hann og hefur á honum þóknan svo sem faðir á syni. [

Sæll er sá maður sem spekina finnur og sá maður er skynsemina öðlast því að betra er hana að fá en mikið silfur og hennar ávöxtur er betri en gull. Hún er dýrmætari gimsteinum og allt hvað þú æskja kannt er ekki við hana samanjafnanda. Langir lífdagar eru á hægri hönd henni og heiður og auðæfi á vinstri hönd. Hennar vegir eru ljúflegir og allir hennar stígir eru friðsamlegir. Hún er lífsins tré öllum þeim sem höndla hana og þeir eru sælir sem henni halda. Því að með spekinni hefur Drottinn jörðina grundvallað og himnana staðsfest með hennar visku, með hans [ vísdómi eru undirdjúpin sundurgreind og með döggvandi dropum skýin gjörð.

Son minn, láttu ekki hana frá þínum augum hverfa, þá muntu farsæll og hygginn verða. Það mun vera líf sálu þinni og ljúflegt munni þínum, þá gengur þú þinn veg öruggur so að þinn fótur meiðist ekki. Leggir þú þig þá muntu ekki óttasleginn verða heldur sætlega sofa svo þú þurfir ekki uggandi að vera fyrir voveiflegum skelfingum né fyrir áhlaupi ómildra þegar það kemur. [ Því að Drottinn er þitt traust, hann geymir þinn fót svo að hann verði ekki fanginn.

Afseg eigi þeim hinum nauðstadda gott að gjöra ef Guð gefur þér hvar af þú getur gefið.

Seg ekki til vinar þíns: „Far í burt og kom aftur, á morgun skal eg gefa þér“ ef þú hefur þá strax til að gefa.

Hugsa ekki illt vin þínum sem þér trúir vel, kífa ekki við nokkurn mann án sakar ef hann hefur ekki gjört þér nokkuð illt. Öfunda ekki illskufullan mann og vel þér öngva hans vegu því að hver sem einn affallinn er hann er fyrir Drottni svívirðing og hjá réttferðugum er hans heimugleikur.

Bölvan Drottins er í húsi óguðrækinna en hús réttlátra mun blessað verða. Að háðgjörnum mun hann hæða en hógværum náðina gefa. Hyggnir menn munu heiðurinn erfa en þó [ heimskir komist hátt verða þeir þó skammaðir.