V.

Þar upphófst mikið kall með fólkinu á meðal þeirra kvenna í mót þeirra bræðrum. Og þar voru nokkrir sem svo sögðu: „Vorir synir eru margir og vorar dætur eru margar, tökum korn (fyrir þær) oss til fæðslu svo vér megum lifa.“ En sumir sögðu svo: „Setjum til panta vora akra, hús og víngarða svo vér megum fá korn í þessari hallæristíð.“ Sumir sögðu svo: „Tökum til láns peninga af kóngsins skatti og setjum í borgun vora akra og víngarða. Því að vorra bræðra líf er svo sem vort líf og þeirra barna so sem vorra barna, annars verðum vér að gefa vora sonu og dætur í þrældóm. Og alla reiðu eru þar komnar nokkrar af vorum dætrum í þrældóm og vér höfum ekki með hverju vér megum leysa þær. So eru og vorir akrar og víngarðar komnir undir aðra.“

En þá eg heyrða þeirra kall og slík þeirra orð varð eg mjög reiður. Og eg tók það ráð í mínu hjarta að eg straffaði ráðsherrana og þá yppörstu og eg sagða til þeirra: [ „Vill hver yðar einn útokra annan?“ Og eg safnaði miklum almúga í móti þeim og sagði til þeirra: „Vér höfum keypt vora bræður Gyðingana eftir vorum mætti sem að seldir voru heiðingjum. Og þér viljið selja yðar bræður sem vér höfum keypt til vor?“ Þá þögðu þeir og gátu öngvu svarað. Og eg sagða: „Það er ekki rétt sem þér gjörið. Skyldu þér ekki ganga í Guðs ótta svo heiðingjarnir vorir óvnir brígsli oss ekki? Eg og mínir bræður og mínir þénarar höfum lánað þeim korn og peninga en okrið létum vér eftir vera. Þar fyrir gefið þeim aftur þennan dag þeirra akra, víngarða, viðsmjörsgarða og hús og þann hundraðasta part peninga á korni, víni og viðsmjöri sem þér hafið okrað af þeim.“ Þeir svöruðu: „Vér viljum gefa þá aftur og einskis krefja af þeim og vér viljum gjöra allt svo sem þú hefur sagt.“ Og eg kallaði á kennimennina og tók einn eið af þeim að þeir skyldu so gjöra. Eg úthristi minn barm og sagði: „Svo úthristi Guð hvern mann frá sínu húsi og frá sínu arfiði, hver sem ekki uppfyllir þessi orð, að hann sé úthristur og tómur.“ Og allur söfnuðurinn sagði: „Amen.“ Og þeir lofuðu Drottin. Og fólkið gjörði og svo sem sagt var.

En frá þessum tíma sem mér bífalað var að vera einn landsfóviti í Gyðingalandi, sem var frá tuttugasta ári og til þess tólfta og tuttugasta árs Artaxerxes kóngs, það eru tólf ár. Þá fædda eg mig og mína ekki af landsfóvitakosti því þeir fyrri landsfóvitar sem verið höfðu fyrir mér höfðu þvingað fólkið og tekið brauð og vín frá því, þar með fjörutígi siclos silfurs. Svo og létu þeir sína þénari veita fólkinu yfirgang. En eg gjörði ekki svo fyrir sökum Guðs ótta.

Og eg erfiðaði að múrveggjasmíðinu og keypti öngvan akur og allir mínir þénarar urðu að koma þangað að erfiða. Og að auk þessa voru af Gyðingunum og þeim æðstu mönnum hundrað og fimmtígi við mitt borð hverjir komnir voru til mín frá heiðingjunum sem í kringum oss eru. Og eg hafði til borðhalds hvern dag einn uxa og sex útvalda sauði og fugla og allsháttað vín ofurmikið innan hvers tíunda dags. Þó krafða eg ekki landsfóvitans kostar því að þjónustan var þung fólkinu. Minn Guð, minnst þú mín til hins góða eftir öllu því sem eg hefi gjört þessu fólki.