XIII.

Þó að eg talaði tungur mannanna og englanna en hefða ekki kærleikann þá væri eg sem annar hljómandi málmur eður hvellandi bjalla. [ Og þó að eg hefða spádóm og vissi alla leynda hluti og skynsemi og hefði alla trú so að eg fjöllin úr stað færði en hefða ekki kærleikann þá væra eg ekkert. Og þó að eg gæfi allar mínar eigur fátækum og eg yfirgæfi minn líkama so að eg brynni og hefða ekki kærleikann þá væri mér það engin nytsemd.

Kærleikurinn er þolinmóður og vingjarnlegur. Kærleikurinn vanlætir eigi, kærleikurinn gjörir ekkert illmannlega, eigi blæs hann sig upp, ei er hann ósiðsamur, eigi leitar hann þess hvað hans er, eigi verður hann til ills egndur, hann hugsar ekki vondslegt, eigi fagnar hann yfir ranglætinu en fagnar sannleikanum. Hann umber alla hluti, hann trúir öllu, hann vonar allt, hann umlíður alla hluti. Kærleikurinn hann doðnar aldrei þótt spádómurinn hjaðni og tungumálunum sloti og skynseminni linni.

Því að vorir vitsmunir eru [ hálfverk og vorar spásagnir eru hálfverk. En nær það kemur sem algjört er þá hjaðnar það sem hálfverk er. Þá eg var barn talaði eg sem barn og eg var forsjáll sem barn og eg hugsaði sem barn. En þá eg gjörðist maður lagða eg af hvað bernsklegt var. Nú sjáum vér fyrir spegilinn að ráðgátu en þá auglit að augliti. Nú kenni eg ófullkomlega en þá mun eg kenna so sem eg em kenndur. Nú blífa þessi þrjú: Trúan, vonin, kærleikurinn, en kærleikurinn er mestur af þessum.