XXXV.

Og Jósías hélt Drottni páska í Jerúsalem og fórnfærði páskaoffur á þeim fjórtánda degi í þeim fyrsta mánaði. [ Og hann skipaði prestana til þeirra varðhalds og styrkti þá í þeirra embætti í húsi Drottins. Og hann sagði til Levítanna hverjir eð lærðu allan Ísrael og helgaðir voru Drottni: „Setjið þá heilögu örk í húsið það sem Salómon son Davíðs Israelis kóngur byggði. Og þér skuluð eigi bera hana á yðrum öxlum. Þjónið nú Drottni yðrum Guði og hans fólki Ísrael. Skiptið yðra feðra húsum í skipanir so sem það er skrifað af Davíð Israeliskóngi og hans syni Salómon og standið í helgidóminum eftir skikkan yðra feðra húsa á meðal yðvarra bræðra, sona fólksins, og eftir skikkan feðra húsanna á meðal Levítanna. Sæfið páskana og gjörið yður helga og tilreiðið yðar bræður að þeir gjöri eftir Drottins orði sem hann bauð fyrir Mosen.“

Og Jósías gaf öllu fólkinu sem þar var um páskahátíðina lömb og kið af hjörðunum, að tölu þrjátígi þúsundir og þrjár þúsundir uxa, þetta allt saman af kóngsins góssi. Hans höfðingjar gáfu og viljuglega fyrir fólkið, fyrir prestana og Levítana (sem var Hilkía, Sakaría og Jehíel, höfðingjar í Guðs húsi á meðal kennimanna) til páskanna, tvö þúsund og sex hundruð lömb og kið, þar til þrjú hundruð uxa. En Kananja, Semaja, Nataneel og hans bræður, Hasabja, Jehíel og Jósabad, hverjir yppastir voru Levítanna, þeir gáfu Levítunum til páskahaldsins fimm þúsund lömb og kið og þar til fimm hundruð uxa.

Svo var nú Guðs þjónusta tilskikkuð og prestarnir stóðu í sínum stað og Levítarnir í sínum eftir kóngsins boði. [ Og þeir fórnfærðu páskalambið og kennimennirnir tóku blóðið af þeirra höndum og stökktu því en Levítar tóku skinnin af fórnunum og gjörðu brennifórnir þar af svo þeir mættu gefa það á meðal þeirra feðra húsanna á meðal almúgans til offurs Drottins svo sem það er skrifað í Móses bók. Svo gjörðu þeir og með uxana. Og þeir steiktu páskalambið á eldi eftir því sem vera átti. En hvað sem helgað var það matgjörðu þeir í pottum, kötlum og pönnum og þeir gjörðu það fljótlega fyrir almúgann. Eftir það bjuggu þeir og til fyrir sig og prestana. Því að kennimennirnir, Aronsynir, höfðu nóg að gjöra með brennioffrið og feitina allt til nætur og því urðu Levítarnir að tilreiða nokkuð fyrir sig og fyrir prestana, sonu Aron.

Og söngvararnir, synir Assaf, stóðu í þeirra stað eftir skipan Davíðs og Assaf og Heman og Jedítún kóngsins sjáanda. Og dyraverðirnir í sérhverju porti, þeir viku ekki frá sínu embætti því að Levítarnir, þeirra bræður, matreiddu til fyrir þá. Svo varð öll Guðs þjónustugjörð skikkuð á þeim sama degi, að halda páska og gjöra brennifórnir á altari Drottins eftir bífalningu Jósías kóngs. Svo héldu Israelissynir þeir sem þar voru páska á þeim tíma og þá sætubrauðshátíð í sjö daga. Þar voru öngvir þvílíkir páskar haldnir í Ísrael sem þessir frá dögum Samúel spámanns og enginn Ísraelskóngur hafði haldið svoddan páska sem Jósías hélt og prestarnir og Levítarnir og allur Júda og þeir sem þar við voru af Ísrael, svo og þeir sem bjuggu í Jerúsalem. Og þessir páskar voru haldnir á því átjánda ári Josie kóngs.

En sem Jósías hafði endurbætt musterið þá ferðaðist Nekó kóngur af Egyptalandi upp að berjast í Karkemis hjá Euphraten. [ En Jósías dró út í móti honum. En hann sendi boð til hans og lét segja honum: „Hvað hefi eg með þig, þú kóngur Júda? Eigi kom eg þér í mót heldur að berjast í móti öðru húsi. Og Guð sagði að eg skyldi flýta mér. Lát af að gjöra í móti Guði þeim sem er með mér svo hann slái þig ekki í hel.“

En Jósías leit ekki af honum heldur bjó sig til stríðs í móti honum og vildi ekki hlýða orðum Nekó út af Guðs munni heldur fór og barðist við hann á þeim völlum Megiddó. En bogmenn skutu Jósíam kóng. [ Og kóngurinn sagði til sinna þénara: „Flytjið mig út bardaganum því eg er orðinn mjög sár.“ Og hans þénarar tóku hann af vagninum og létu hann í hans annan vagn og fluttu hann til Jerúsalem. Og hann andaðist og var jarðaður í gröf sinna feðra. Og allur Júda og Jerúsalem syrgðu fráfall Josie. Jeremías grét og Jósíam og það varð siðvani í Ísrael, sjá, það er skrifað meðal sorgarsöngvanna. Hvað meira er að segja um Jósía og hans miskunnsemd, svo sem skrifað stendur í Drottins lögmáli og hans gjörningar, hinir fyrstu og síðustu, sjá, það er skrifað í Ísraels- og Júdakónga bók.