VII.

Hlýtur maðurinn ekki alla tíma í stríði að vera á jörðunni og hans dagar eru líka svo sem eins daglaunara? Einlíka svo sem það þjóninn langar eftir rökkrinu og verkmanninn að hans erfiði fái enda, líka svo hefi eg alla mánuðina erfiðað til [ forgefins og haft margar vosbúðarnætur. Þá að eg lagða mig út af sagða eg: Hvenær skal upp standa? Og eftir á þá talda eg til hvenær kveldið mundi koma. Því að eg var með öllu hvers manns viðbjóður allt til myrkurs. Mitt hold vellur allt af möðkum og holdfúa, mín húð er skorpin og að öngvu orðin. Mínir dagar eru skyndilegar umliðnir en vindan vefarans og eru svo hjá farnir að þar var ekkert afturhald.

Hugleið þú það að mitt líf er sem vindur og mín augu hverfa ekki aftur til að sjá það góða. Og einskis lifanda auga þá mun sjá mig lengur. Þín augu líta á mig og eg stenst það ekki. Skýið það í burtu hverfur og líður, eins líka og hann sem ofan fer í helvítið, hann kemur eigi upp aftur og kemur ekki ígen í sitt heimili og hans bústaður þekkir hann ekki lengur. Þar fyrir vil eg og ekki aftra mínum munni, eg vil tala um þá angist míns hjarta og segja af þeirri hörmunginni minnar sálu. Hvert er eg sjávarhafið eður stórhvalur að þú umkringir mig so? Nær eg hugsaði að mín sæng skyldi hugsvala mér og mín hvíla skyldi létta mér nokkuð, nær eg talaði við sjálfan mig, þá hræðir þú mig með draumum og komst mér til að skelfast svo að mín sála æskti sér upphengd að vera og mín bein dauðans. Eg girnist ekki lengur að lifa.

Væg þú til við mig því að mínir dagar hafa verið til ónýtis. Hvað er maðurinn þess að þú virðir hann mikils og hefur umhyggju fyrir honum? Þú forvitnast um hann daglegana og reynir hann á hverri stundu. En því hefur þú þig ekki í burt frá mér og lætur ekki af þangað til að eg verð upp að svelgja sjálfs míns eigin hráka? Hafi eg syndgast, hvað skal eg gjöra þér, ó þú mannanna varðveitari? Hvar fyrir gjörir þú mér það að eg steyti mig svo á þér og er mér svo sjálfum einn byrðarþungi? Og því fyrirlætur þú mér ekki minn misgjörning og burt tekur ekki mína synd? Því að nú verð eg að leggja mig út í jörð og nær eð að morninum er að mér leitað þá er eg ekki til.