LXXIX.

Sálmur Assaf.

Guð, hinir heiðnu eru innkomnir í þína arfleifð, þitt hið heilaga musteri hafa þeir saurgað og af Jerúsalem steinhrúgu gjört.

Líkami þinna þjónustumanna hafa þeir fuglum loftsins til átu gefið og hold þinna heilagra hrædýrum í landinu.

Þeirra blóði hafa þeir líka sem vatninu úthellt í kringum Jerúsalem og þar var sá enginn sem þá jarðaði.

Vorum nágrönnum erum vér að forsmán orðnir, að háði og spotti þeim sem í kringum oss eru.

Drottinn, hversu lengi vilt þú so reiður vera og láta þitt vandlæti brenna sem heitan eld?

Hellt þinni reiði út yfir heiðnar þjóðir, þær sem ekki þekkja þig og yfir þau kóngaríkin sem ekki ákalla þitt nafn, [

því að þeir hafa Jakob upp etið og hans híbýli í eyði lagt.

Minnstu ekki á vorar hinar gömlu misgjörðir, miskunna þú oss snarlegana því að vér erum mjög fáráðir orðnir. [

Hjálpa þú oss, Guð vor hjálpari, fyrir dýrðar sakir þíns nafns, frelsa þú oss og fyrirgef þú oss vorar syndir fyrir þíns nafns sakir.

Því lætur þú hina heiðnu segja: „Hvar er nú þeirra Guð?“ Láttu meðal heiðingjanna kunniga verða fyrir vorum augum hefndina blóðsins þinna þjónustumanna það sem úthellt er.

Lát fyrir þig koma andvarpan þeirra hinna herleiddu, eftir mikilleik þíns armleggs þá bívara þú þau [ börnin dauðans

og gjaltu vorum nágrönnum sjöfalt aftur í þeirra skaut, þeirra forsmánir þær eð þeir hafa þig með lastað, Drottinn.

En vér, þitt fólk og sauðir þinnar hjarðar, þökkum þér eilíflegana og kunngjörum þinn lofstír um aldur og ævi.