XX.

Og þar var þá við einn nafnkunnugur Belíals maður. [ Hann hét Seba, son Bikrí, þess manns sem var af ætt Jemini. Hann þeytti sinn lúður og sagði: „Vér höfum ekkert hlutskipti af Davíð eður arf í syni Ísaí. Fari hver til sinna herbúða, ó Ísrael!“ Þá skildist allur Israelislýður við Davíð og eftirfylgdi Seba syni Bikrí. En Júdamenn fóru með sínum kóngi frá Jórdan og allt til Jerúsalem.

En sem Davíð kóngur fór heim til Jerúsalem þá tók hann sínar tíu frillur sem hann hafði eftirlátið að gæta herbergja og hann setti þær í varðhald og fékk þeim atvinnu. En hann svaf ekki með þeim. Og voru so innluktar allt til síns dauðadags og lifðu ekkjulífi.

Og kóngurinn sagði til Amasa: [ „Kalla þú á alla menn Júda að þeir séu komnir hér hinn þriðja dag. Þú skalt og sjálfur vera þar með.“ Og Amasa gekk strax og kallaði alla Júdamenn til samans en hann tafði yfir þann tíma sem kóngurinn setti honum fyrir. Þá sagði Davíð til Abísaí: „Nú mun seba son Bikrí gjöra oss meiri sorg en Absalom. Tak þú þíns herra þénara og far eftir honum svo að hann nái ekki styrkvum borgum og setji undan vorri augsýn.“ Þá fóru Jóabs menn út eftir honum, þar með þeir Crethi og Pleti og allir hinir hraustustu menn. Og þeir drógu út af Jerúsalem og fóru eftir Seba syni Bikrí.

En sem þeir komu að þeim stóra steini í Gíbeon þá kom Amasa fram á veginn fyrir þá. Jóab hafði gyrt að sér sín klæði sem hann var í og var gyrður saxi þar utan yfir. Það hékk á hans læri í umgjörð og var laust í slíðrum. Þá sagði Jóab til Amasa: „Friður með þér, minn bróðir!“ Og Jóab tók í hans skegg með sinni hægri hendi og lét sem hann vildi kyssa hann. En Amasa gaf ekki gætur að Jóab hafði saxið í sinni hendi og hann stakk hann með því í kviðinn svo hans innyfli féllu á jörðina og hann stakk hann ekki utan eitt sinn og hann lét sitt líf. [

Jóab og hans bróðir Abísaí sóttu eftir Seba syni Bikrí. Og þar gekk einn af Jóab sveitungum að honum og sagði: „Hver er þessi? Sá sem setti sig upp í móti Jóab og vill vera Davíðs eftir Jóab?“ En Amasa lá í blóði mitt á veginum. En sem einn maður sá það að allt fólkið nam þar staðar þá kippti hann Amasa af veginum út á akurinn og breiddi klæði yfir hann. Því að hann sá að hver maður sem kom að honum þá nam hann þar staðar.

En sem hann var nú tekinn af brautinni þá fór hver maður eftir Jóab að sækja eftir Seba syni Bikrí. En hann hafði farið um allar kynkvíslir Israelis, til Abel og Bet Maaka og um allt Haberím og þeir heimtust saman og fylgdu honum. Þeir komu og settust um hann í Abel og Bet Maaka og þeir hlóðu virkisgarð umhverfis borgina og gáfu sig að múrnum og allt fólkið sem var með Jóab kostgæfði sem mest að brjóta niður múrinn.

Þá kallaði ein vísdómskvinna út af staðnum og sagði: [ „Heyrið, heyrið! Segið Jóab að hann komi hér nær. Eg vil tala við hann.“ Og sem hann kom til hennar þá sagði kvinnan: „Ert þú Jóab?“ Hann sagði: „Já.“ Hún sagði til hans: „Heyr þá orð þinnar þénustukvinnu.“ Hann sagði: „Eg heyri.“ Hún svaraði: „Forðum tíð sögðu menn: Hver sem spyrja vill, hann spyrji í Abel, og þá gekk það vel til. Eg er ein af þeim friðsamlegu og trúlyndu borgum í Ísrael og þú vilt í hel slá borgina og móðurina í Ísrael. Hvar fyri viltu uppsvelgja arfleifð Drottins?“

Jóab svaraði og sagði: [ „Langt sé frá því, langt sé frá því að eg vilji uppsvelgja og eyðileggja! Því er ekki svo háttað heldur er þar einn maður af Efraímsfjalli sem heitir Seba son Bikrí. Hann hefur reist sig upp í móti Davíð kóngi. Seljið hann einn í vort vald, þá vil eg draga frá borginni.“ Kvinnan svaraði Jóab: „Sjá, hans höfuð skal kastast til þín út yfir múrinn.“ Kvinnan kom inn til fólksins með sinni vísdómsræðu og þeir slógu höfuðið af Seba syni Bikrí og slengdu því til Jóabs. Þegar blés Jóab öllum hernum frá borginni og fór hver til síns heimilis. En Jóab kom aftur í Jerúsalem til kóngsins.

Og Jóab var höfðingi yfir allan Ísraels her. Benaja son Jójada var (skipaður höfðingi) yfir þeim Chrethi og Plethi. Adóram var rentumeistari. Jósafat son Ahílúð var cantzeler. Seja var skrifari. Sadók og Abjatar voru kennimenn. Þar að auk var Íra Jairiter Davíðs kennimaður.