XXIX.

Og Davíð samankallaði til Jerúsalem alla þá æðstu af Ísrael, sem var höfðingja kynkvíslanna og höfðingja yfir þær skipanir sem þjónuðu kónginum, höfðingja yfir þúsund og yfir hundrað, höfðingja yfir kóngsins góss og fé og yfir hans syni, herbergjasveina, stríðsmenn og alla inu bestu menn. Og Davíð kóngur stóð á sína fætur og sagði: [

„Heyrið mig, mínir bræður og mitt fólk. Eg hefi haft í sinni að byggja eitt hús (í hverju að Drottins sáttmálsörk skyldi hvílast) og eina fótskör vorum Drottni og eg hafða allt til búið til þessarar byggingar. En Guð lét segja mér: Ekki skalt þú byggja mínu nafni hús það þú ert bardagamaður og hefur úthellt blóði. Nú hefur Drottinn Israelis Guð útvalið mig af öllu húsi míns föðurs að eg skyldi vera kóngur yfir Ísrael ævinlega. [ Því hann útvaldi Júda til hertugadóms og af húsi Júda míns föðurs húss og á meðal míns föðurs sona hafði hann þóknan á mér að hann setti mig til kóngs yfir allan Ísrael.

Og á meðal allra minna sona (því að Drottinn hefur gefið mér marga sonu) þá hefur hann útvalið Salómon minn son að hann skuli sitja í konunglegu hásæti Drottins yfir Ísrael. [ Og hann hefur talað til mín: Þinn sonur Salómon skal mitt hús byggja og garð því að eg hefi útvalið mér hann til míns sonar og eg vil vera hans faðir. Og hans ríki vil eg staðfesta ævinlega ef hann er staðfastur að hann breyti eftir mínum boðorðum og réttindum so sem þennan dag.

Nú fyrir öllum Ísrael, fyrir öllum Drottins söfnuði, og að áheyranda Guði vorum þá haldið og uppspyrjið öll Drottins yðvars Guðs boðorð svo þér megið eignast það góða land og láta það yðrum sonum til erfðar eftir yður ævinlega.

Og þú, minn son Salómon, þekkja skalt þú þinn föðurs Guð og þjóna honum af öllu hjarta og með einnri viljugri sálu. [ Því að Drottinn rannsakar allra manna hjörtu og undirstendur hugskotsins hugrenningar. Ef þú leitar hans þá munt þú finna hann en ef þú fyrirlætur hann þá mun hann burtvarpa þér ævinlega. Sjá nú því til því að Drottinn hefur útvalið þig að þú skulir byggja eitt hús til helgidómsins. Vert styrkur og fullkomna það.“

Og Davíð gaf Salómoni syni sínum eina fyrirmynd, hvernin smíða skyldi forhúsið, musterið og hans hús og herbergin og salinn og svefnhúsin inann til og náðarstólshúsið. [ Þar með eina líking og fyrirmynd upp á allt það sem hann hafði í sínu sinni sem var á Drottins húss garði og á öllum herbergjum þar um kring og á því liggjandi fé í Guðs húsi og á þeim helguðu fésjóðum, á prestanna og Levítanna skipan og á allri embættisþjónustugjörð í Drottins húsi. Gullið (lét hann til) eftir gullsvigt til allsháttaðra verkfæra í hverju embætti og silfur eftir vigt til allra handa silfurkera í sérhverri þjónustugjörð.

Og gull til gulllegra kertastikna og til gulllegra lampa, gull að vigt til sérhverrar kertastiku og sérhvers lampa. Hann gaf og svo silfur til silfurljósastikna og þeirra lampa og eftir hverrar kertastiku embætti. Hann gaf og gull til fórnarbrauðsins borðs, til hvers borðs sína vigt, svo og líka silfur til silfurborðanna. Klárt gull til krókanna, munnlauganna og kannanna og til gullbikara, hverjum bikar sína vigt, og til silfurbikaranna, hverjum bikar sína vigt, og til reykelsisaltarisins það allra klárasta gull í sinni vigt og eina mynd þess gyllta kerúbím vagns so hann útbreiddi vængina og huldi sáttmálsörkina Drottins ofanvert. „Allt þetta var mér gefið“ – sagði hann – „skrifað af hendi Drottins að eg skyldi skilja allar smíðar þessarar fyrirmyndar.“

Og Davíð sagði til síns sonar Salómon: „Vert þú hughraustur og tak styrk og gjör þetta. Óttast ekki og vert ekki efasamur. Guð Drottinn, minn Guð, mun vera með þér og hann mun ekki taka sína hönd frá þér og eigi heldur yfirgefa þig þar til að þú hefur fullkomnað allan gjörning til þénustugjörðar í Drottins húsi. Sjá þú, prestanna og Levítanna skipanir til alls embættis í Guðs húsi eru með þér og til allra þessara gjörninga og þeir eru reiðubúnir með þeirra visku til allra embættanna, so og höfðingjarnir og allt fólkið til alls þess sem þú býður.“