IIII.

Þar haldi oss hver mann fyrir, einkum fyrir Guðs þénara og verkstjórnara yfir Guðs leynda dóma. [ Nú heimtum vér eigi meir af verkstjórnurunum en það þeir finnist trúir. Því er mér það fyrir minnsta kosti að eg skuli af yður dæmast eður af mannlegum degi. En þó dæmi eg mig ei sjálfur. Því eg veit mín ekkert en í því em eg þó ekki réttlátur. Drottinn er sá sem dæmir. Fyrir því dæmið ekki fyrir tímann þangað til að Drottinn kemur, sá er auglýsa mun það í myrkrunum er hulið og opinber gjöra ráðin hjartnanna og mun þá hverjum sem einum lofstír ske af Guði.

En þetta, góðir bræður, hefi eg myndað upp á sjálfan mig og Apollo yðar vegna so að þér lærðuð af okkur það enginn haldi meir af sér en so sem nú er skrifað upp á það að enginn hrósi sig upp mót öðrum fyrir nokkurs sakir. Því hver heldur þér fram eða hvað hefur þú það þú hafir eigi meðtekið? En fyrst þú hefur það meðtekið, hvað metur þú þig þá sem sá það hefði ekki meðtekið? Þér eruð nú saddir, þér eruð nú þegar auðugir vorðnir, þér ríkið án vor. [ Gæfi það og Guð að þér ríktuð so að vér mættum og ríkja með yður.

En eg meina að Guð hafi auðsýnt oss postulana fyrir hina allra síðustu, so sem dauðanum yfirgefna, því að vér erum sjónargler vorðnir heiminum, og so englum og mönnum. Vér erum þussar fyrir Krists sakir en þér forhyggnir í Christo, vér veikir en þér styrkvir, þér dýrðlegir, vér forsmánarlegir. Því að allt til þessa dags þolum vér svengd og þosta og erum klæðfáir og verðum hnefum barðir, höfum öngvan samastað, erfiðum og verkum með vorum eigin höndum. Og nær oss er formælt þá blessum vér, eru vér ofsóttir, þá líðum vér, erum vér lastaðir þá beiðiu vér, og jafnan erum vér so sem hrak þessarar veraldar og hreinsunaroffur allra manna allt til þessa.

Þetta skrifa eg eigi upp á það eg hneyksli yður heldur áminni eg yður so sem mína kærustu syni. Því þó þér hefðið tíu þúsundir lærimeistara í Christo þá hafi þér þó ei feðurna marga því að í Christo Jesú fyrir evangelium þá hefi eg alið yður. Fyrir því áminni eg yður að þér séuð mínir eftirfylgjarar. Þar fyrir sendi eg Timotheum til yðar, hver að er minn kær og trúr sonur í Drottni, að hann undirvísi yður mína vegu þá sem að eru í Christo líka sem eg í öllum samkundum og alls staðar kenni.

Þar hroka sér nú nokkrir upp sem eg mundi eigi koma til yðar. En eg mun þó snarlega koma til yðar ef Drottinn vill að eg reyni, eigi orð þeirra sem upphrokaðir eru heldur kraft. Því að Guðs ríki er eigi fólgið í orðum heldur í krafti. Hvað vilji þér? Skal eg meður vendi til yðar koma eða með kærleik og hógværum anda?