Fyrsta ræða Sófars
1 Sófar frá Naama svaraði og sagði:
2Skal orðaflaumnum ekki svarað
eða á sá málóði að teljast hafa rétt fyrir sér?
3Á fleipur þitt að gera menn orðlausa
svo að þú getir spottað án þess að nokkur geri þér skömm?
4Þú segir: „Boðskapur minn er skýr
og ég hef verið hreinn í augum þínum.“
5Ég vildi óska að Guð talaði,
lyki upp vörum sínum gegn þér
6og skýrði þér frá leyndardómum spekinnar
sem er jafngildi kraftaverka.
Þá mundirðu viðurkenna,
að þín vegna hefur Guð gleymt ýmsum syndum þínum.
7Nærðu til botns í djúpi Guðs
eða að ystu mörkum Hins almáttka?
8Þau liggja hærra himni, hverju færðu áorkað þar?
Dýpra en undirheimar, hvað færð þú vitað?
9Þau eru lengri en jörðin mælist,
víðari en hafið.
10Ef hann fer um og tekur fanga
eða stefnir mönnum fyrir rétt,
hver fær þá aftrað honum?
11Hann þekkir þá einskisverðu,
sér ranglæti og gefur því gætur.
12Ef heimskur maður verður skynsamur
getur villiasni eins fæðst sem maður.
13Ef þú undirbýrð hjarta þitt
og breiðir út lófa þína til hans,
14– ef misgjörð er í hendi þinni þá fjarlæg hana
og lát eigi órétt búa í tjöldum þínum –
15já, þá munt þú flekklaus hefja höfuð þitt,
munt standa fastur og eigi þurfa að óttast.
16Þá gleymir þú þjáningu þinni,
minnist hennar eins og vatns sem runnið hefur hjá
17og lífið verður bjartara en hádegi
og myrkrið verður sem morgunn.
18Þú verður öruggur því að enn er von,
nýtur verndar og sefur óhultur.
19Þú munt hvílast án þess að nokkur rífi þig upp
og margir reyna að koma sér í mjúkinn hjá þér.
20En augu guðlausra daprast,
þeir eiga sér ekkert hæli
og eina von þeirra er að gefa upp andann.