1Afklæð þig, Jerúsalem, hryggðar- og hörmungarskikkju þinni,
íklæðstu skarti Guðs dýrðar að eilífu.
2 Sveipa þig möttli réttlætis Guðs,
set höfuðbúnað dýrðar Hins eilífa á höfuð þér.
3 Guð mun sýna sérhverri þjóð á jörðu vegsemd þína
4 því að Guð mun veita þér að eilífu nafnið:
„Friður vegna réttlætis, dýrð sakir guðrækni.“
5 Rís upp, Jerúsalem, tak þér stöðu á hæðinni,
hef upp augu þín og horfðu í austur.
Lít börn þín sem safnað var saman að boði Hins heilaga,
þau koma úr vestri og austri,
fagnandi yfir að Guð minntist þeirra.
6 Fótgangandi fóru þau frá þér,
leidd burt af óvinum.
En Guð færir þau aftur til þín
og munu þau borin í vegsemd líkt og í hásæti.
7 Því að Guð hefur boðið að hvert hátt fjall skuli lækka,
eilífar hæðir jafnast
og dalirnir fyllast og verða að jafnsléttu
svo að Ísrael megi ganga fram í skjóli dýrðar Guðs.
8 Að boði Guðs munu skógar og öll ilmandi tré
veita Ísrael skugga.
9 Með ljósi dýrðar sinnar
og með miskunn sinni og réttlæti
mun Guð leiða Ísrael fagnandi heim.
Barúksbók 5. kafliHið íslenska biblíufélag2017-12-30T21:05:14+00:00
Barúksbók 5. kafli
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.