Móses brýnir fyrir þjóðinni fastheldni við einn Guð og hans boðorð.

1Heyr þú nú, Ísrael! þá setninga og boðorð, sem eg kenni yður, og breytið eftir þeim, svo þér megið lifa og ná að eignast það land, sem Drottinn Guð feðra yðar mun gefa yður;2þér skuluð öngvu auka við það sem eg legg fyrir yður, og þér skuluð ei heldur þar frá draga heldur skuluð þér kostgæfilega varðveita boðorð Drottins yðar Guðs, þau sem eg hefi fyrir yður lagt.3Með yðar eigin augum hafið þér séð, hvörnig Drottinn fór með Baal-Peor *), því allan þann flokk, sem fylgdi Baal-Peor, upprætti Drottinn þinn Guð úr yðar samfélagi;4en þér sem aðhylltust Drottin yðar Guð, lifið enn allir saman fram á þenna dag.5Sjáið! eg hefi kennt yður lög og boðorð, eftir því sem Drottinn minn Guð lagði fyrir mig, til þess þér skylduð breyta eftir þeim í landinu, sem þér nú ætlið inn í til að ná undir yður.6Haldið þau því og varðveitið! mun það koma á yður orði hjá öllum þjóðum fyrir vísdóm og skynsemi, og þegar þær heyra alla þessa setninga, munu þeir segja: þetta er sannlega vitur þjóð og skynsöm og þar með næsta voldug,7því hvör er sú voldug þjóð, sem guðirnir hafi verið eins nálægir, og Drottinn vor Guð var oss allténd þegar vér kölluðum til hans,8og hvar er sú voldug þjóð sem hafi eins réttvísa lagasetninga og boðorð, svo sem er allt þetta lögmál, sem eg legg í dag fram fyrir yður.9En varaðu þig og gættu vandlega sálu þinnar, að ei gleymir þú þeim hlutum sem þú hefur séð með eigin augum, og að það ekki líði þér úr minni ævilangt; þínum börnum og barnabörnum skaltú þá kunngjöra,10(kunngjöra) daginn þann, þegar þú stóðst frammi fyrir Drottni Guði þínum við fjallið Hóreb og Drottinn sagði við mig: safnaðu öllu fólkinu til mín, svo eg sjálfur láti þá heyra mín boðorð, og svo þeir læri að óttast mig alla þá daga sem þeir lifa á jörðunni, og kenni það einnig börnum sínum.11Þér komuð þá fram og staðnæmdust undir fjallinu, en fjallið logaði allt í eldi upp í meginloft, fylgdi þar með myrkurský og þoka.12Og Drottinn talaði við yður mitt úr eldinum, róminn orðanna heyrðuð þér, en öngva mynd sáuð þér, rómurinn var það einn.13Þá birti hann yður sinn sáttmála, eftir hvörjum hann bauð yður að breyta, þau 10 boðorðin sem hann skrifaði á 2 steinspjöld.14Um leið skipaði Drottinn mér að eg skyldi kenna yður lagasetninga og réttarboð, svo þér gætuð breytt þar eftir í því landi sem þér eruð á veginum að eignast.15Gætið nú vel sálna yðvarra, því þér sáuð öngva mynd á þeim degi þegar Drottinn yðar Guð talaði við yður úr eldinum á Hóreb,16að þér ekki mannspillið yður, með að tilbúa yður nokkra líkneskju, sem líkist karli eða konu17eður fénaði á jörðu eður fuglum sem fljúga í loftinu18ellegar ormum á jörðunni, eður fiskunum í vatninu undir jörðinni.19Ennframar—þegar þú lyftir augum þínum til himins og skoðar sólina, tunglið og stjörnurnar, þenna mikla himinsins herskara, að þú þá ekki snúist frá mér, og tilbiðjir þau og dýrkir, þó Guð hafi leyft öðrum þjóðum undir himninum að skipta þeim með sér (til átrúnaðar).20En yður hefir Drottinn tekið að sér og leitt út úr járnofninum, það er: úr Egyptalandi, svo þér skylduð verða eins og óðalsfólk hans, hvað svo hefir reynst til þessa.
21Og Drottinn varð mér reiður yðar vegna, svo hann sór að eg skyldi ekki komast yfir Jórdan, að eg ekki skyldi komast í það góða landið, sem Drottinn Guð þinn mun gefa þér að eign,22heldur hlýt eg að deyja í þessu landi, án þess að komast yfir Jórdan, en þér munuð þangað komast, og eignast landið það ið góða.23Gætið yðar því að þér ekki gleymið sáttmála Drottins yðar Guðs sem hann hefir gjört við yður, og búið yður ekki líkneski eftir nokkurs mynd, eins og Drottinn þinn Guð hefir boðið þér.24Því að Drottinn þinn Guð er brennandi eldur og vandlátur Guð.25Þá þér alið börn og barnabörn, og eruð algjörlega búnir að koma yður niður í landinu, ef þér þá mannspillið yður með að gjöra líkneski eftir einhvörri mynd, og breytið þannig illa í augum yðar Guðs, og reitið hann til reiði,26þá kalla eg í dag bæði himin og jörð til vitnis móti yður, að þá munuð þér brátt eyðast úr því landi, sem þér nú farið yfir Jórdan til að eignast, þér munuð ei lengi lifa þar úr því, heldur munuð þér verða reknir burtu.27Drottinn mun þá dreifa yður á millum þjóðanna, svo að af yður skal einasta eftir verða lítill hópur á meðal heiðingjanna, til hvörra Drottinn mun reka yður.28Þar muntu þjóna þeim guðum sem eru tilbúnir af mannahöndum, bæði úr tré og steinum, sem hvörki kunna að sjá né heyra, eta né lukta.29Þá muntu leita Drottins þíns Guðs og þú munt líka finna hann, svo framarlega sem þú leitar hans af öllu þínu hjarta, og allri þinni öndu.30Þegar þú kemst í allar þessar nauðir, þá mun allt þetta koma fram við þig seinna meir, en snúðu þér þá aftur til Drottins þíns Guðs og hlýddu hans vilja,31því að Drottinn þinn Guð er miskunnsamur Guð sem ekki mun yfirgefa þig, né gjörsamlega eyðileggja, og ekki mun hann gleyma sáttmálanum sem hann sór feðrum þínum.32Spyrðú þig einasta fyrir um tímana sem verið hafa fyrir þig, frá þeim tíma Guð skapaði fyrst manninn á jarðríkið, já, spyrðu frá einu heimsskauti til annars, hvört að nokkurn tíma hefir fyrri skeð eður heyrst svo vegsamlegur atburður,33að nokkur þjóð hafi heyrt málróm Guðs út af miðjum eldi, eins og þú hefir heyrt og lifir þó?34Eða hvört Guð hefir tilreynt nokkurn tíma að koma sjálfur til að ná handa sér þjóð, sem var í annarrar þjóðar valdi, með raunum, teiknum, og fyrirburðum, með stríðum, með voldugri hendi og útréttum armlegg, og óttalegum viðburðum, eins og Drottinn yðar Guð gjörði allt saman yðar vegna í Egyptalandi í þinni eigin augsýn.35Þetta hefir þú séð, svo þú vissir, að Drottinn er sá einasti Guð, en enginn annar.36Hann hefir látið þig heyra sína raust af himni til að kenna þér, og hann hefir látið þig sjá sinn mikla eld á jörðu, og þú hefir heyrt út af eldinum hans málróm.37Vegna þess hann elskaði yðar feður, og tók tryggð við þeirra niðja, þá leiddi hann þig sjálfur úr Egyptalandi með sínum volduga krafti,38til þess að reka í burtu þín vegna miklar þjóðir, og voldugri en þú ert, en leiða þig aftur þangað og gefa þér land þeirra til eignar, eins og síðan hefir fram komið.39Svo máttu það skilja í dag, og leggja þér á hjartað, að Drottinn er Guð á himnum uppi, og á jörðu niðri, og alls enginn annar.40Taktú vara á hans lagasetningum og tilskipunum, sem eg legg fyrir þig í dag, þá skal þér ganga vel og börnum þínum eftir þinn dag, svo þú megir lengi lifa í því landinu sem Drottinn þinn Guð gefur þér til ævinlegrar eignar.41Þá tók Móses 3 borgir frá, sem voru hinumegin við Jórdan í austur,42til þess að þangað gæti flúið sá sem óviljandi banar náunga sínum, og væri hann ekki áður fyrri hans óvin, þá mátti hann flýja til einhvörra þessara borga, og forða svo lífi sínu,43þær voru: Beser á eyðimörkinni, á flatlendinu í Rúbenítalandi, og Ramot í Gileað, sem heyrir undir Gaðíta, og Gola í Basan, sem heyrir undir Manassis ættkvísl.
44Þetta er það lögmál sem Móses framsetti fyrir Ísraelsbörn,45þetta eru þær auglýsingar, lagasetningar og boðorð, sem Móses útlistaði fyrir Ísraelsbörnum, þá þeir voru sloppnir úr Egyptalandi,46hinumegin við Jórdan, í dalnum gagnvart Betpeor í landi Síhons Amorítakóngs, sem hafði aðsetur í Hesbon, hvörn eð Móses og Ísraelsbörn felldu eftir burtförina úr Egyptalandi,47og tóku svo land hans, og líka land kóngsins Óggs af Basan (voru þeir báðir kóngar yfir Amorítum hinumegin við Jórdan í austur),48náði það land frá Aroer, sem liggur við lækinn Arnon, allt til fjallsins Síon, það er: Hermon;49þar undir heyrði líka flatlendið hinumegin við Jórdan í austur, ofan til sjávarins sem er á undirlendinu fyrir neðan fjallið Písga.