Fólkið á Melíte auðsýnir Páli mikinn vingjarnleika; Páll skaðast ekki af nöðrunni; hann læknar föður Publíusar og fleiri; siglir þaðan til Sýrakúsa og Púetóli og kemur til Róm; heldur ræðu fyrir Gyðingunum í Róm; kennir þar hindrunarlaust í tvö ár.

1Þá menn þannig höfðu af komist, fengu þeir að vita, að eyjan hét Melíte a).2Þeir útlendu b) sem þar bjuggu, auðsýndu oss ekki algenga mannelsku, kveiktu eld og tóku móti oss öllum, því óveður var og kuldi.3En er Páll hafði safnað sér hrísvendli og lagt á eldinn, þá skreið naðra undan hitanum og festi sig á hendi hans.4Þegar eyjarmennirnir sáu þetta illyrmi loða við hönd hans, sögðu þeir sín á milli: vissulega er þessi maður manndrápari, fyrst hefndin lofar honum ekki að lifa, þá hann er sloppinn úr sjávarháskanum.5Páll hristi þá af sér kvikindið út í eldinn, og varð ekkert meint við.6En þeir væntu eftir að hann mundi þrútna upp eður detta sviplega dauður niður. En er þeir höfðu biðleikað lengi og sáu ekkert frábrugðið á honum, breyttu þeir meiningu sinni, og sögðu hann Guð vera.
7Í grennd við þetta pláss átti helsti maður á eyjunni, að nafni Públíus, búgarð. Hann bauð oss heim og hýsti oss í þrjá daga vingjarnlega.8En það vildi svo til, að faðir hans lá þunglega haldinn af sóttveiki og niðurgangi. Páll gekk til hans, baðst fyrir, lagði sínar hendur yfir hann og læknaði hann.9Eftir þenna viðburð komu aðrir eyjarmenn, þeir eð krankir voru, og létu sig lækna.10Þeir höfðu oss líka í hávegum, og veittu oss að skilnaði það sem vér meðþurftum á ferðinni.
11Eftir þrjá mánuði héldum vér þaðan á skipi frá Alexandríu, sem legið hafði þar um veturinn og markað var Tvíburunum a).12Vér sigldum nú til Sýrakúsu og dvöldum þar þrjá daga.13Þaðan sigldum vér í kring b) og komum yfir til Regíum; fengum þá eftir einn dag byr á sunnan og komum næsta dag til Púetóli.14Þar fundum vér bræðurna, sem báðu oss að dvelja hjá sér sjö daga, og svo komumst vér til Róm.15Undir eins og bræðurnir þar heyrðu vor getið, gengu þeir út á móti oss til Appíítorgs og svo nefndra Þriggja búða. Þegar Páll sá þá, gjörði hann Guði þakkir og hresstist í huga.16En er vér komum til Rómaborgar, afhenti hundraðshöfðinginn bandingjana hirðstjóranum, en Páli var leyft að vera í húsi sér, undir gæslu eins stríðsmanns.
17Það skeði eftir þrjá daga, að Páll samankallaði helstu menn Gyðinga, og þá þeir voru komnir, mælti hann: góðir menn og bræður! jafnvel þótt eg ekkert bryti móti þjóð vorri, eður siðum feðra vorra, var eg (samt) í Jerúsalem bundinn og ofurseldur Rómverjum,18hverjir, eftir haldið rannsak, vildu láta mig lausan, þar eð engin misgjörð, sem dauða væri verð, fannst hjá mér.19En er Gyðingar þvertóku það, neyddist eg til að skjóta mér fyrir keisarann, þó ekki í þeirri veru, að eg hefði nokkuð að klaga þjóð mína fyrir.20Af þessari orsök hefi eg látið kalla yður, svo eg mætti sjá og tala við yður; því sökum Ísraels vonar c) ber eg þessa hlekki.21Þeir svöruðu: engin bréf höfum vér fengið frá Gyðingalandi þig áhrærandi og enginn landi vor er kominn, sem borið hafi eður talað nokkuð illt um þig.22Allt að einu óskum vér að heyra hvað þér sýnist; því það er oss kunnugt, að þessi trúarflokkur fær allsstaðar mótmæli.23Á tilteknum degi, sem þeir höfðu ákveðið við hann, komu mjög margir í hans herbergi, og frá því árla um morguninn til kvölds, setti hann þeim fyrir sjónir og útþýddi þeim lærdóminn um Guðs ríki og leitaðist við af Mósislögmáli og spámönnunum, að sanna það allt, er snerti Jesúm.24Nokkrir féllust á það sem hann sagði, en sumir létu sig ekki sannfæra.25Þá þeir nú skildust að sundurþykkir sín á milli, bætti Páll þessu eina við: ágætlega hefir heilagur Andi fyrir munn Esaíasar spámanns að orði kveðið við feður vora:26„far til þessa fólks og seg: með eyrunum munuð þér heyra og ekki skilja; sjáandi munuð þér horfa á, og samt ekki sjá;27því tilfinningarlaust er orðið hjarta þessa fólks; þungheyrðar eru hlustir þess; augunum heldur það fast aftur, svo það fái ekki séð með augunum, né heyrt með eyrunum, né skynjað með hjartanu, eður snúi sér, svo eg getið læknað það“.28Yður sé því vitanlegt: að Guðs hjálpræði er burt sent til heiðinna þjóða, sem því munu sinna.29Þegar hann hafði svo talað, gengu Gyðingarnir burtu og höfðu mikla þráttun innbyrðis.30Páll bjó full tvö ár í herbergi því er hann hafði til leigu, tók á móti öllum, er til hans komu, boðaði Guðs ríki og kenndi um Herrann Jesúm með allri djörfung, og bannaði honum það enginn.

V. 1. a. Líklega sú ey, sem nú kallast Malta. V. 2. b. Útlenda kölluðu Grikkir og Rómverjar alla þá sem voru annarrar þjóðar. Þeir á Malta voru ættaðir frá Kartagó, óvinaborg Rómverja, en á skipinu voru rómverskir menn. V. 11. a. Þessir heiðnu guðir nefndust annar Kastor en annar Pollúx, og dýrkuðust sérílagi af sjófarendum. V. 13. b. Í kring, annaðhvört í kring um Ítalíuodda, eða nes það, á Sikiley, sem er fyrir norðan Sýrakúsu. V. 15. Appiitorg var lítil borg, sem lá 43 rómverskar mílur frá Róm við Appii þjóðbraut. Þær Þrjár búðir var gestgjafahús, 10 mílur nær Rómaborg. V. 20. c. Ísraels vonar um komu Frelsarans. V. 26. Es. 6,9.10.