Postulinn varar við að stóla upp á auð, og stæra sig af honum. Uppörvar þá sem órétt líða til stöðuglyndis, og að vera eiðvarir. Hvetur til bænrækni, og til að leiðrétta þá sem villtir fara.

1Heyrið nú, þér ríku! grátið og kveinið yfir þeim eymdum, sem yfir yður munu koma.2Yðar auður er þegar fúnaður og yðar klæði orðin mölétin.3Yðar gull og silfur er orðið ryðbrunnið og ryðið á því mun verða vitni gegn yður og eta yðar hold; þér hafið fjársjóðum safnað sem eldsneyti á síðustu dögunum.4Sjá! launin, sem þér hafið dregið af verkamönnunum, sem hafa slegið yðar lönd, hrópa og köll kornskerumannanna eru komin til eyrna Drottins allsherjar.5Þér hafið lifað í sællífi og óhófi á jörðunni; þér hafið alið yðar hjörtu, eins og til skurðardags b).6Þér hafið dæmt til dauða og drepið þann réttláta, hann stendur ekki á móti yður.
7Þreyið því, bræður mínir! þar til Drottinn kemur. Sjáið! akuryrkjumaðurinn væntir jarðarinnar dýrmæta ávaxtar, og þreyir þar til hann fengið hefur haust- og vorregnið.8Þreyið og þér, styrkið yðar hjörtu, því tilkoma Drottins nálægist.9Kvartið ekki hvör yfir öðrum, bræður mínir! svo þér ekki verðið dæmdir; sjá! dómarinn stendur fyrir dyrunum.10Bræður mínir! takið spámennina sem talað hafa í Drottins umboði, til eftirdæmis upp á það að líða illt með þolinmæði.11Sjá! vér prísum þá sæla sem þolgóðir eru; þér hafið heyrt um þolgæði Jobs og vitið hvör endalok Drottinn þar á gjörði; því Drottinn er harla miskunnsamur og líknsamur.
12En umfram allt, bræður mínir! sverjið hvörki við himininn né við jörðina, né við nokkurn annan eið; yðar já sé já og yðar nei sé nei, svo þér komið ekki undir dóm.
13Eigi einhvör örðugt yðar á meðal, þá biðji hann; líði honum vel, þá syngi hann (lof);14sé einhvör veikur yðar á meðal, þá kalli hann til sín öldunga safnaðarins og þeir biðja fyrir honum og smyrja hann viðsmjöri í nafni Drottins a).15Því trúuð bæn mun frelsa þann sjúka og Drottinn mun reisa hann á fætur og sú synd sem hann hefir drýgt mun honum fyrirgefin verða.16Játið hvör fyrir öðrum yðar yfirsjónir og biðjið hvör fyrir öðrum, svo að þér heilbrigðir verðið. Mikið megnar kröftug bæn góðs manns.17Elías var líkur oss að breyskleika, samt, þá hann bað þeirrar bænar að ekki skyldi rigna, þá rigndi ekki yfir landið í þrjú ár og sex mánuði.18Og þá hann bað aftur, gaf himinninn regn og jörðin bar sinn ávöxt.
19Bræður mínir! ef nokkur meðal yðar skyldi villast frá sannleikanum og einhvör snýr honum aftur,20þá skal sá vita: að hvör sem snýr syndaranum frá villu hans vegar, muni frelsa sálu frá dauða og hylja fjölda synda b).

V. 1. Orðskv.b. 11,28. 1 Tím. 6,9. V. 2. Matt. 6,19. V. 3. Róm. 2,5 og eftir fl. V. 4. 3 Mós.b. 19,13. 5 Mós.b. 24,14. Job 24,10.11. V. 5. Lúk. 16,19–25. b. þ. e. þér alið yður þangað til straffið dettur yfir yður, eins og menn plaga að ala fénað til slátrunardagsins. Esa. 22,13. Esek. 39,17. eftir ff. V. 6. sbr. Matt. 5,39. V. 7. Lúk. 21,19. Hebr. 10,36. 5 Mós.b. 11,14. V. 8. 1 Kor. 10,11. Fil. 4,5. V. 9. sbr. Matt. 24,33. V. 10. Matt. 5,12. V. 11. Matt. 5,11. Job 1,19–22. 42,10–17. Sálm. 103,8. V. 12. Matt. 5,34. fl. sbr. 2 Kor. 1,17.18. V. 14. a. nl. Jesú. V. 15. Sálm. 30,2. V. 16. 4 Mós.b. 5,7. Orðskv.b. 15,29. Sálm. 145,18. V. 17. Post.gb. 14,15. 1 Kóng.b. 17,1. Sír. 48,2.3. V. 18. 1 Kóng.b. 18,41. fl. V. 19. Matt. 18,15. Gal. 6,1. 1 Tess. 5,14. V. 20. Sálm. 51,15. b. þ. e. verða þess ollandi að þeim sem snýr sér munu fyrirgefast margar syndir, er hann hafði áður drýgt, sbr. Esa. 1,16–18.